Statusskýrsla úr stórborginni
26. janúar 2006 | 5 aths.
Ég er búinn að hressa aðeins upp á handritið að fyrirlestrinum mínum fyrir prófið á morgun, engar stórvægilegar breytingar en ég er búinn að lagfæra orðalag og skjóta inn nokkrum dæmum til að skýra betur hvað ég á við.
Að minnsta kosti vona ég að þær farir sem orðið hafa á fyrirlestrinum séu meira fram en aftur.
Það er engin sérstök regla fyrir því hversu ítarlega ég er vanur að skrifa niður prófhandritin mín. Stundum er ég með stikkorð og lykilsetningar á spjaldskrármiðum, stundum með minnispunkta á A4 blaði og stundum með nákvæmt handrit. Undirbúningurinn hefur æxlast þannig að ég verð með síðasttöldu útgáfuna á morgun, en samt skrifaða eins og talmál og hefur verið æfð með trúverðugum hikorðum og öllu.
Þá er ég sömuleiðis búinn að hraðlesa yfir skýrsluna til að rifja upp hvað það var sem ég var að bulla um og á hvaða nótum. Þetta próf verður kökubiti, þótt ég ætli ekki að fullyrða að einkunnin komi til með að sprengja neina skala.
Prýðisveður í borginni
Hér hefur verið indælisveður í dag, stillt og sól. Mér flaug í hug að fara út að hlaupa, en þar sem ég er búinn að vera svolítið rámur í lesæfingum morgunsins og hugsanlega með vott af hálsbólgu ákvað ég að láta það bíða fram yfir próf. Þess í stað skaust ég upp á meginlandið seinnipartinn og spókaði mig aðeins í miðbænum.
Það er gaman að því að maður skuli enn eiga "ófundnar" skemmtilegar verslanagötur í kringum Strikið, í dag þvældist ég til dæmis upp Fiolstræde (sem liggur upp meðfram Kaupmagaragötu frá Frúarkirkjunni) á leið minni upp á Nörreport, enda strætisvagnasamgöngur allar meira eða minna í lamasessi vegna aðgerða strætisvagnastjóra sem eru ósáttir við vetraraðbúnað sinn (eða skort þar á) og því ekki á annað en Metróinn að stóla.
Það vill svo skemmtilega til að ég er tiltölulega nýbúinn að lesa um Fiolstræde hjá Guðlaugi Arasyni og mundi því að gatan heitir eftir blóminu en ekki hljóðfærinu. (Strangt til tekið mundi ég reyndar ekki hvort það var, en er búinn að tékka á því núna).
Ritstjórn vill nota þetta tækifæri og votta þeim sem strætóverkfallið hefur bitnað á samhug sinn. Miðað við hvað það er mikil traffík í t.d. vögnum eins og 5A dagsdaglega getur maður rétt ímyndað sér hversu margir verða fyrir óþægindum þegar þeir hætta að ganga - þó bót í máli að veðrið hefur verið skaplegt í dag (þótt slabbið sé auðvitað enn til staðar).
Barist gegn efnahernaði
Eitt skrefa dagsins til að sporna við gereyðingavopnastimplinum var að leggja ruslafötuna mína í BioTex bleyti (ásamt reyndar með pari af strigaskóm), annað að finna réttu skóleppana í Ecco skóna á Strikinu.
Nú vona ég bara að skónum mínum sem eru í viðrun úti á brunastiganum verði ekki nappað.
Enginn pabbi í bráð
Ég komst að því í gær að pabbi er ekki að koma til að halda erindi á ráðstefnu í næstu viku um rafrænar sjúkraskrár. Ráðuneytið heilbrigða skipti víst um skoðun og íslenska innleggið fellur niður.
Mér heyrðist á honum að hann væri bara feginn að sleppa við amstrið, en það hefði verið gaman að sjá framan í hann.
Þess í stað verð ég að bíða eftir Mardí systur sem kemur með fríðu föruneyti í lok febrúar. Mér skilst að tilgangur ferðarinnar sé aðallega að viðhalda viðskiptahallanum við útlönd, a.m.k. hefur mér verið formlega boðið að fylgja með mjóum dömum grönnum gellum í FEITAN verslanaleiðangur (ef ég hef boðið rétt eftir) (sem mér tóxt auðsjáanlega ekki).
Allt að því tilþrif í eldhúsi
Það er sorglegt en satt að eldamennskutilþrif gærkvöldsins (steikt grænmeti og hrísgrjón) er fyrsta matreiðsla mín í langan tíma þar sem pakkar koma ekki að einhverju leyti við sögu.
Venjulega borða ég "alvöru" mat í hádeginu og á kvöldin læt ég mér nægja pasta eða ámóta snarl, enda býður aðstaðan kannski ekki upp á svo mikið meira. Auðvitað gæti ég græjað meira af áhöldum og hætt mér fram í fælleseldhúsið, og myndi líklega gera það ef ég gengi ekki að ITU mötuneytinu vísu hér í næsta nágrenni.
Reglubundin eldamennskutilþrif verða því áfram á ís þar til ég kemst í míns eigins eldhús (hvar svo sem það verður næsta vetur).
Back to the coding
En nú ætla ég að vinda mér að því að forrita smá - og sjá hvort mér text að klára nýja fídusinn á thorarinn.com.
Athugasemdir (5)
1.
Siggi hennar Huldar reit 26. janúar 2006:
Þú massar þetta á morgun. Sjáumst kannski á barnum.
ps. Beturvitringsráðin skemmdu ekkert fyrir okkur í gær.
2.
Margrét reit 26. janúar 2006:
Gangi þér vel á morgun, og ég held að ég hafi nú sagt að við værum gellur en ekki dömur...
3.
Óskar Örn reit 26. janúar 2006:
"Æfð með trúverðugum hikorðum og öllu"!!!
Elsku kallinn minn, þú ert engum líkur! Megir þú skilja eftir þig sviðna jörð í prófsalnum á morgun.
4.
Þórarinn sjálfur reit 27. janúar 2006:
Hafandi mína víðtæku reynslu af leiklist (eða a.m.k. leiklistarnámskeiðum) veit ég vel að það er ekki það sama að æfa sig að flytja texta eins og ræðu eða þannig að hann hljómi eins og maður sé í afslöppuðu spjalli. (That´s all I have to say about that.)
5.
Sæja vinkona Möggu reit 27. janúar 2006:
Er mjög sátt við hvort heldur sem er, dömur eða gellur. Tel mig vera bæði veit þó ekki með ástkæra systur þína.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry