Hér sé fyrirsögn
31. janúar 2006 | 0 aths.
Í morgun funduðum við Emilie með lokaverkefnisleiðbeinandanum okkar. Það var að mörgu leyti mjög góður fundur, við reyndum að skýra betur nákvæmlega hvað það er sem við ætlum að framkvæma, aðallega varðandi tilraunahluta verkefnisins. Þar var velt upp ýmsum möguleikum og á tímabili var kennarinn með þá tillögu að sleppa augnstýringarhlutanum úr tilrauninni - en þeirri hugmynd var snúið aftur.
Það stefnir því í að tilraunahlutinn verði örlítið "leiðinlegri" en í draumórum okkar - en á móti hafa líkurnar á að tilraunirnar verði eitthvað sem okkur tekst að framkvæma og fá eitt hvað út úr, aukist verulega.
Að minnsta kosti getum við ekki kvartað yfir áhuga kennarans, klukkutímafundurinn sem við höfðum bókað slagaði hátt í tvo tíma þegar upp var staðið.
Hellirigning úr heiðskírum himni
Eftir hádegismatinn skruppum við út fyrir dyr til að spjalla aðeins og fá okkur smók (það tókst ekki alveg sem skyldi hjá okkur að hætta að reykja). Þangað kom líka Ben hinn suður-afríski sem ég hef kynnst í gegnum FC. Umulíus spriklið.
Það voru svo sem ekki umræður okkar um aðgang að og leit í óformlegum gögnum sem mér þykja orð á gerandi, heldur veðurfarsaðstæðurnar.
Við stóðum undir þakskeggi og það pípti linnulaust niður af þakbrúninni með tilheyrandi slettugangi. Það kom mér í fyrstu á óvart þar sem ég hafði ekki tekið eftir því að væri farið að rigna, en ég gleymdi því svo aftur.
Þegar mér varð hins vegar litið út undan þakskegginu gat ég ekki í gegnum úrhellið séð nein merki um rigningu á bílastæðinu, þótt malbikið væri blautt var ekki að sjá neina dropa á bílunum og þar sem glytti í himin var hvergi ský að sjá.
Það var ekki fyrr en við kvöddumst og ég rölti af stað í smá hressingargöngu að ég komst að því að úti var eðalveður, heiðskír himinn og hlýtt.
Að öllum líkindum hefur safnast saman ís ofan á þakskegginu sem hefur síðan verið að bráðna svona hressilega í hlákunni, en þetta leit alveg út eins og það væri hellirigning.
Og klakahröngl þar á eftir
Hláku í kjölfar frosta fylgja alltaf einhverjir fylgikvillar og hér þar sem 5-6 hæða hús eru normið getur verið stórhættulegt að fá snjóhengju eða klakamola af þakinu niður á stéttina.
Ég slapp að vísu við að fá neitt í hausinn í þessari gönguferð minni, en víða lenti ég í því að klakar voru að hrynja á stéttina fyrir framan mig eða aftan - eða ég gekk í gegnum hröngl sem var nýlega fallið.
Fyrir þráhyggna analítíkera eins og mig leiðir þetta til vangaveltnanna um hvar á stéttinni maður ætti helst að halda sig.
Snjór og ís sem fellur af þökum er yfirleitt á dálítilli "útferð", þannig að svoleiðis slummur lenda ekki alveg upp við húsin heldur út á miðjum gangstéttum. Grýlukerti hins vegar falla beint niður, þannig að það að strjúka sér upp við veggina er heldur ekki áhættulaust.
Reyni maður að ganga úti á gangstéttarbrúninni er svo allt eins líklegt að maður fái hjólreiðamenn á fleygiferð í rassinn.
Hvort ætli sé verra; að fá ísköggul í hausinn eða hjól í rasskatið?
Mjög spesíal spesíaleplaðs
Þegar heim kom úr þessari hressingargöngu með höfuðleður og þjóhnappa óskaddaða beið mín tölvupóstur varðandi vinnuaðstöðu vegna lokaverkefna (eða það sem baunar kalla specialepladser). Póstinum fylgdu tvö skjöl, annað sem sýndi hverjir væru í hvaða "lókölum" og litað sérstaklega hverjir væru að yfirgefa svæðið og hverjir koma nýir inn, hitt með yfirliti yfir biðlistann.
Ég hef samkvæmt þessu fengið úthlutað vinnuaðstöðu í 2E 07 og Emilie í 2E 02. Þegar við sóttum um aðstöðuna höfðum við ekki ákveðið að vinna saman (og raunar ekki einu sinni rætt þann möguleika), undanfarið hefur hins vegar ekki gengið neitt að ná í plássmeistara til að reyna að tryggja að við yrðum sett í sama herbergið - en nú þurfum við að fara að vinna í því af krafti.
Þessir listar eru hins vegar töluvert grunsamlegir, til dæmis hefur Dorthe kunningjakona mín bæði fengið vinnuaðstöðu í 2E 10 og 4B 04. Sjálfur er ég, auk þess að hafa fengið inni, númer 22 á biðlistanum!
Eitthvað er því ljóslega rotið í veldi Dana.
Svona kaós held ég að hljóti þó að auka líkurnar á að hægt verði að sameina okkur skötuhjúin.
Kvef vonandi kvatt
Það er nú ekki sérlega víkingalegt að hafa orð á kvefi sem aldrei hefur orðið að neinu meira en aumum hálsi, nefrennsli, aumum andlitsbeinum og einstaka hóstaskorpum.
Hins vegar er að ganga kvefpest sem hefur lagt jafnvel annálaðar kempur flatar í nokkra sólarhringa. Þar sem ég hef sterkan grun um að kvefið mitt sé af sama sauðarhúsinu hef ég reynt að forðast að storka örlögunum og haldið mig hægan.
Nú sýnist mér að það sé á undanhaldi og er það vel.
Kúnstin að fá blossann tendraðann
Verkefni næstu daga verður, fyrir utan að móta problemformuleringuna, að komast af stað með frumdrög að tilraunaumhverfinu okkar í Blossanum (e. Flash).
Ég er búinn að sitja við það seinnipartinn í dag, án reyndar teljandi afraksturs - en þó farinn að geta gert mér einhverja mynd af viðfangsefninu.
Kúnstin verður líklega að detta ekki í að gleyma sér í sjónrænum útfærslum, heldur byrja á því að fá einfaldar beinagrindur til að makka rétt og byggja svo ofan á þær eftir föngum.
Á morgun verð ég sjálfs míns herra í þessum efnum og vonandi að mér takist að hafa eitthvað fram að færa á næsta formlega samstarfsdegi, fimmtudeginum komandi.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry