Af vanaganginum

Lífið gengur sinn vanagang.

Á þröskuldi sambúðar

Nú virðast línur vera að skýrast í vinnuaðstöðumálum okkar Emilie í lokaverkefninu. Við munum nú hafa verið flutt upp á þriðju hæð og deilum þar klefa með Pernille bekkjarsystur okkar og hennar specialepartner, sem við erum ekki alveg viss hver er.

Mér skilst að (a.m.k.) enn sem komið er séum við bara fjögur í þessum klefa - sem hljómar mun betur en að vera sex.

Ætli við reynum ekki að nálgast lykla á morgun og gera úttekt á slotinu.

Huston, we have a problem statement

Ég er annars búinn að vera að dunda mér við að rifja upp hvernig nota skal Flash og tókst í morgun að rumpa upp smá "proof of concept" dæmi sem við munum geta nýtt okkur í tilraunavinnunni. Þar á hins vegar eftir að bæta ýmsu við, en ég þykist þó vera á réttri leið.

Eftir hádegið í dag höfum við svo verið að grúska í "problemformuleringunni" og erum orðin nógu sátt við árangurinn til að bera hann undir kennarann.

Hér er kúnstin að búa til texta sem lýsir nokkuð nákvæmlega hvað við ætlum að gera, en þó ekki það nákvæmlega að hann bindi hendur okkar ef verkefnið þróast í aðrar áttir en við gerum ráð fyrir á þessu stigi. Það spillir auðvitað ekki fyrir ef okkur tekst að auki að láta viðfangsefnið hljóma faglega.

Fyrir þá sem kunna að hafa áhuga á því hvað ég ætla að verja næsta hálfa árinu í að fást við, þá er þetta vandamálslýsingin eins og hún lítur út núna:

In what ways could eyesight supplement human-computer interaction?

What uses can be described as natural representations of our use of sight, when interacting with the "real" world?

How can the approach to orientation, natural to humans, be translated into navigation within virtual informational structures?

Which types of applications could benefit from the addition of eye-tracking and what are the limitations of the technology?

Svo mörg voru þau orð.

Eðalíbúð í Þingholtunum

Frændi minn er að leigja út íbúðina sína á besta stað í Þingholtunum og ég hef boðist til að auglýsa hana aðeins.

Þetta er eðalíbúð í nýlegu húsi (með meðfylgjandi stæði í bílgeymslu). Íbúðin telst þriggja herbergja og 75 m2, en þar sem hún er á tveimur hæðum og efri hæðin undir risi eru raunfermetrarnir heldur fleiri. Meðal kosta sem prýða hana eru flísalagðar grillsvalir og aðgangur að gufubaði í kjallaranum.

Íbúðin er leigð út með nýjum (mjög þægilegum) sófasettum á sitthvorri hæðinni og er laus í lok apríl (hugsanlega fyrr ef þörf krefur).

Ef þetta vekur áhuga einhvers er bara að senda mér línu og ég tek að mér að koma á tengslum.

Hið bundna mál

Í gær bar svo við að ég skildi eftir mig bæði botn og fyrripart í ónefndu athugasemdakerfi. Það er í fyrsta skipti í mörg ár að ég klambra saman einhverju sem á að heita með nokkuð réttri stuðlasetningu.

Mér er það minnisstætt að á Kvennóárunum þar sem prófakveðskapur misdýr leit dagsins ljós, var Friðrik Dagur samkennari minn á því að mér væri hollt að lesa mér til í bragfræðum. Síðar keypti ég til þess bæra bók á bókamarkaði og gluggaði í, en náði aldrei að tileinka mér þetta svo neinu næmi.

Ég er ekkert að auglýsa neitt sérstaklega hvar þessi kveðrænu tilþrif er að finna, en fyrir mjög áhugasama má gefa þá vísbendingu að hefja grúsk í tenglalistanum hér til hliðar.

Raunir fjármagnseigandans

Þegar maður rekur augun í að mesti hækkanir á íslenskum verðbréfamarkaði undanfarið ár séu...

  • Bakkavör: 118,9%
  • Landsbankinn: 91,6%
  • Straumur: 88,5%
  • Kaupþing banki: 82%
  • Íslandsbanki: 65,1%

...hlýtur maður að spyrja sig hvort þetta sé ekki til marks um einhverskonar geðveiki. Sérstaklega þegar í kjölfarið fylgir frétt um loftbólueinkenni á vexti bankanna.

Þetta vekur reyndar sérstaka athygli mína, því af verðbréfasafninu mínu er um þriðjungurinn í Bakkavör og þriðjungur í Landsbankanum. Sú eign mín hefur því ávaxtast þokkalega undanfarið ár, en spurning hvort nú sé kominn tími til að innleysa hagnaðinn.

Ég ætla ekki að halda því fram að ég sé stóreignamaður, en uppistaðan í safninu eru tveir "áramótaskammtar". Þegar annan þeirra þurfti að endurfjárfesta (þar sem hann var orðin að hlut í Straumi(!) sem gerði í því að berja af sér litla fjárfesta) ákvað ég með dúllen dúllen doff aðferðinni að kaupa jafnstóra skammta í Bakkavör og Landsbankanum. Það hefur reynst klókt og inneignin margfaldast.

(Sem þýðir að innleysi ég allt draslið núna myndi það duga í innborgun á nýjan bíl, eða til að endurgreiða pabba og mömmu það sem eftir stendur af láninu þeirra vegna íbúðarkaupanna minna hérna um árið. Meiri er nú auðlegðin ekki.)

Ég hef reyndar trú á því að Bakkavör geti haldið áfram að vaxa, enda í því að selja eitthvað "alvöru" og áþreifanlegt. Ólíklegt að Bretar hætti að éta svona alveg upp úr þurru.

Hins vegar finnst mér rosalega freistandi að selja "gróðann" í Landsbankanum og fjárfesta í einhverju meira hægvaxandi. Til dæmis Össuri (nú eða deCode).

Að minnsta kosti finnst mér hæpið að stóla á að þessi djöfulgangur í bankavextinum haldi svona áfram.

Að vera eða ekki vera Skandín-afi

Á vafri mínu um íslenska fjölmiðla í morgun raxt ég á þessa "frétt". Hún gengur í stuttu máli út á að þusa yfir því að í úttekt á frammistöðu skandinavíuþjóðanna í Evrópumótinu í handbolta þar sem Íslendinga er ekki getið.

Fréttin er skrifuð í "við erum samt miklu betri en þið, ligga ligga lá"-stíl, en mér finnst þar vera áberandi að verið sé að bera saman skandinavísk epli og appelsínur frá Norðurlöndunum.

Norski blaðamaðurinn sem vitnað er í skrifar um "baráttuna um Skandinavíu" og ber saman gengi skandinavíuþjóðanna, en sá íslenski staglast á því að við séum nú fremst norðurlandaþjóðanna (ligga-lá).

Nú hefur landafræði aldrei verið mín sterkasta hlið, en í mínum huga eru skandinavíuþjóðirnar bara þrjár: Svíþjóð, Noregur og Danmörg.

Sé rætt um Norðurlönd bætast svo Finnland, Ísland, Færeyjar og Grænland við (ég veit ekki nema Álandseyjar eigi líka skilið að vera með).

Með öðrum orðum, það er ekki minn skilningur að Ísland tilheyri Skandinavíu, þótt við séum óneitanlega norðurlandaþjóð.

Hvað segja hlustendur um þetta?


< Fyrri færsla:
Smá hökt í nördinu
Næsta færsla: >
Hammbolti og sjálfsdekur
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry