Alltaf fullur bara?
05. febrúar 2006 | 0 aths.
Ónafngreindur félagi minn hóf í dag MSN spjall á orðunum "alltaf fullur bara?" Honum þótti mikið þjórað samkvæmt dagbókinni. (Af gefnu tilefni tek ég því fram að ég er edrú í augnablikinu.)
Ég vildi meina að maður yrði að gera sitt til að halda uppi ímynd íslenska stúdentsins í Köben, og við vorum sammála um að það hefði verið fróðlegt að lesa bloggsíður þeirra Fjölnismanna.
Á þessum nótum verð ég víst að nefna teiti gærdagsins, en þangað kíkti ég með nokkrum krökkum af hæðinni. Þetta var útskriftarpartí bókasafnsfræðinga(!), haldið í samkomusalnum í kjallaranum og skipulagt af einni hérna á hæðinni sem hafði boðið okkur að kíkja niður.
Planið var að taka bara með sér tvo bjóra og láta þar við sitja, enda ekkert endilega í mikilli drykkjuþörf. Það verður hins vegar að viðurkennast að þeim loknum örlaði á löngun í að fá sér örlítið meira, en sjálfsaginn dugði þó til að ég lét nægja að þiggja einn til (sem var haldið mjög sterkt að mér) og fór heim um eittleytið.
Einhverra hluta vegna vaknaði ég svo eldsnemma í morgun og náði ekki að sofna almennilega aftur þrátt fyrir að liggja undir sæng fram að hádegi, þannig að ekki nýtti ég dagsbirtuna merkjanlega meira en í gær en skrapp þó í pínu menningarreisu upp á meginlandið.
Eitthvað hef ég verið annars hugar á heimleiðinni, því þegar ég kom heim sá ég í sjónvarpinu að 600 manns myndu hafa staðið á Kóngsins Nýtorgi með kyndla og "hópefli" þegar ég rölti í metróinn - en það fór algerlega fram hjá mér.
Annars er þetta teikningamál að æða út fyrir öll skynsemismörk og farið að berja menn í næturlífinu fyrir það eitt að vera of ljósir á hörund. Maður þarf líklega að fara að rifja upp túristahreiminn til að tryggja að enginn í slagsmálahug mistaki mann fyrir lifrarpylsulitan dana.
Lox er ekki laust við að ég sakni þess að vera með svalir til klæðaviðrana. Mér finnst hreinlega að það sé reykingalykt af öllum fötunum mínum.
Bjakk.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry