Kvefskratti

Það stendur á endum að þegar ég var loks búinn að losna við nýliðið kvef vaknaði ég í morgun með smá hálsbólgu og núna seinnipartinn hefur hún heldur magnast og örlað á vöðvaverkjum sem ég tengi við hitaslæðing.

Smá Parasetamól hefur hins vegar slegið á þessa vöðvaverki að mestu, en ég reyndi samt að hafa vaðið fyrir neðan mig og drífa mig út í búð að birgja mig upp af brauði, mjólk og ávöxtum svona ef eitthvað skyldi nú verða úr þessu.

Hins vegar á ég það til að fá smá hálsbólgur og jafnvel hitaslæðing sem taka mjög fljótt af (metið er rúmlega hálftími!) þannig að ég er vongóður.

Skynsemin segir mér að leggjast bara snemma undir sæng í kvöld, annað hvort með bók í hönd eða kveikt á heilastarfsemissugunni.

Hríðir

Annars er vetrarlegt í Köben í dag. Í gær tíndi einstaka snjókorn úr lofti en í dag hefur þetta verið meira í hríðarformi (þó ekki sé nú hægt að kalla þetta stórhríð).

Ofankoman dugir þó til að það fenni/skafi í gangstíga og snjómoksturstæki kommúnunnar hafa verið á þönum í dag. Núna seinnipartinn fór svo að rigna, þannig að það er ekki ólíklegt að allt verði þetta að grjóthörðum klumpi ef frystir í nótt.

Við Emilie stigum eitt formlegheitaskrefið í verkefninu okkar í dag, þegar við skiluðum inn formlegri skráningu. Kennarinn okkar hafði samþykkt "problemformuleringuna" okkar (sem áður er getið) og því bara að skíra krógann og sjá svo hvort þetta hlýtur náð fyrir augum alvaldsins.

Vinnutitillinn á verkefninu verður: Eye-tracking and navigation in visually structured digital information, sem okkur þótti hæfilega tilkomumikið.

Annars fer þetta rólega af stað, við reynum að halda okkur við það að hittast á morgnana og hætta þá bara snemma ef það er lítið að gera. Í morgun tókum við smá tússtöfluskorpu í pælingum um hvernig gábbulegt væri að byggja samskipti forritunarhlutans upp (hvaða einingar tali við hverjar og um hvað).

Það verður mitt næsta skref að reyna að koma þessum pælingum í verk, en í dag hef ég verið of upptekinn við að vorkenna sjálfum mér yfir hálsbólguvottinum og skrifa teikningalanglokur til að gera nokkuð í því af viti. Lofa að verða duglegri á morgun í staðinn.


< Fyrri færsla:
Teikningamálið séð úr návígi
Næsta færsla: >
Bölvandi sjúklingur
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry