Teikningamálið séð úr návígi

Það hefur ekki verið einkenni á ritstjórnarstefnu thorarinn.com að fjalla mikið um heimsmálin, en eftir að hafa fylgst með fjölmörgum deböttum í dönsku sjónvarpi um helgina, spjallað við danska vini og kunningja og lesið pistla íslenskra beturvita sé ég mér ekki annað fært en að berja nokkra stafi á skjá.

(Áhugasamir geta borið eftirfarandi saman við punktana sem ég færði til vefs síðastliðinn fimmtudag.)

Hér í landi hefur skiljanlega vart verið um annað fjallað alla helgina og ótal umræðuþættir verið í sjónvarpi þar sem velt er upp ýmsum flötum á málinu. Núna er ég líka orðinn svo frægur að hafa séð allar myndirnar (reyndar birtar á vef sem er svo rætinn að mér dettur ekki í hug að setja tengil á hann, en Google veit eflaust hvar myndirnar er að finna) og veit því sýnu meir en áður um hvað havaríið snýst.

Uppfært: Myndirnar má sjá hér.

Forsagan

Það liggur auðvitað í augum uppi að pöpullinn sem gengur berserksgang og brennir sendiráð þarna austur frá hefur ekki kynnt sér baksögu málsins, en þar sem mér þykir henni heldur ekki hafa verið gerð skil í íslenskum fjölmiðlum (það sem ég hef séð a.m.k.) er kannski rétt að segja frá aðdragandanum eins og ég skil hann.

Rót alls var bók sem danskur rithöfundur er að vinna um ólík trúarbrögð íslam og Múhammeð spámann, og er ef mig misminnir ekki ætluð grunnskólabörnum. Bókin er myndskreytt, en höfundurinn lenti í miklum vandræðum við að finna teiknara sem fengist til að teikna mynd af Múhammeð spámanni. Ástæðan var sú að teiknararnir voru hræddir um að verða fyrir aðkasti eða ofbeldi af hendi danskra bókstafstrúarmanna sem tækju alvarlega bann Kóransins við myndum af spámanninum.

Mér skilst að þetta bann sé af svipuðum toga og bann Gamla Testamentisins við skurðgoðadýrkun, þ.e. ekki skuli tilbiðja líkneski heldur Guð sjálfan. (Bann sem mér finnst alltaf í vissri mótsögn við dýrðlinga kaþólsku kirkjunnar, en það er annað mál.)

Það hefur a.m.k. verið haft eftir fróðum að þessa kennisetningu Kóransins þurfi að túlka mjög þröngt til að lesa það út úr henni að bannað sé með öllu að festa svip spámannsins á blað - en ég sel það ekki dýrar en ég keypti það.

Aftur að Jyllands-Posten þar sem raunir þessa rithöfundar komu fram (að lokum fór svo að hann fann teiknara sem myndskreytti bókina nafnlaust):

Sýn JP á málið var; er það ásættanlegt að danskir teiknarar þori ekki að myndskreyta barnabók af ótta við að hérlendir bókstafstrúarmenn gangi í skrokk á þeim eða drepi?

Þetta finnst mér algerlega réttlætanleg spurning og sömuleiðis næsta skref JP, þ.e. að hafa samband við hóp af teiknurum og spyrja hvort þeir fáist til að teikna myndir af Múhammeð sem innleggi í debattinn. Stór hluti teiknaranna færðist undan en það bárust þó a.m.k. 12 teikningar.

Það er svo hins vegar umdeilanlegt hvort rétt var að birta allar myndirnar.

Það er einkum ein mynd sem ítrekað er vísað til í hneykslan múslima, þ.e. mynd af spámanninum þar sem túrban hans er um leið sprengja. Þar þykir mörgum vera vegið að trúarbrögðunum með því að leggja þau að jöfnu við hryðjuverk, og ég er sammála því að þá mynd var engin þörf á að birta og þar gekk JP kannski of langt.

Hinar myndirnar eru hins vegar flestar, eins og múslimsk fréttakona benti á í spjallþætti á BBC World í gær, sýn teiknaranna á aðstæður í Danmörku. Sem dæmi:

  • Teiknarinn sem situr í skjóli myrkur, sveittur af hræðslu, við að laumast til að teikna mynd af spámanninum
  • Sakbendingu með meðal annars formanni danska rasistaflokksins fólkaflokksins, þekktum dönskum uppistandara af egypskum uppruna, Jesú, Búdda og fleirum - öllum með túrbana og manni sem ekki getur áttað sig á hver er Múhammeð
  • Sjálfsmynd af teiknara með túrban sem í liggur appelsína með áletruninni "PR-Stunt" og sem heldur á óla-prik teikningu af skeggjuðum manni með túrban.

Endalaust má auðvitað deila um smekkvísi einstakra mynda, en að bombutúrbaninum frátöldum þykir mér engin þeirra vera sérlega hneykslanleg.

Síðan rúllaði boltinn af stað; sendiherrar múslímskra ríkja fóru fram á fund með forsætisráðherra til að ræða málið - en hann neitaði á þeim forsendum að hann hefði ekkert með tjáningarfrelsi danskra dagblaða að gera og það að fallast á slíkan fund væri því brot á prinsippum.

Þetta sárnaði auðvitað sendiherrunum.

Næsta skref var svo að sendinefnd frá íslömsku trúfélagi fór rúntinn um Miðausturlönd með teikningarnar (og reyndar fleiri myndir sem þeim höfðu borist nafnlausar og þeir segjast hafa tekið með til að sýna hvað Danir sýndu trú þeirra litla virðingu, fjölmiðlar hér vilja meina að þeir hafi ekki lagt sig neitt of mikið fram um að skýra að þær myndir hefðu þó aldrei verið birtar í dönsku dagblaði).

Héldu menn eftir það að málið væri dautt. Það reyndist rangt.

Af spjöllum spekinga

Í öllu þessu tali og umræðuþáttum hafa auðvitað mörg viðhorf verið viðruð, flestöll vel ígrunduð og veitt fróðlega sýn á stöðuna. Meðal þess sem ég hef höggvið eftir er eftirfarandi:

Yfirgnæfandi meirihluti danskra múslima er alfarið á móti þessum aðgerðum og hamagangi öllum. Þeim hefur auðvitað mörgum sárnað yfir teikningunum (eins og þeir hafa fullan rétt til) en hamra á því að þróun mála sé alls ekki í þeirra nafni og hafa miklar áhyggjur af því að þetta muni spilla fyrir ímynd danskra múslima.

Það hefur auðvitað verið bent á það margoft að þessi uppþot í einræðisríkjum á borð við Sýrland eru með vitund og vilja yfirvalda. Sumsstaðar eru uppþotin birtingarmyndir togstreitu milli ríkjandi afla og vaxandi fylgis við strangtrúarhópa (stjórnvöld reyni að sýna að þau taki heiður spámannsins ekki síður alvarlega en hinir strangtrúuðu). Mörg einræðisríkin byggja líka á því að halda á lofti sameiginlegum óvini og nú hafi Danmörk tímabundið tekið við hlutverki Ísraels.

Annarsstaðar eru óeirðirnar í raun sprottnar af togstreitu milli fylkinga, eins og í Líbanon.

Sameiginlegt þeim öllum er þó að teikningarnar sjálfar eru fyrir löngu orðnar að aukaatriði.

Einn spekingur benti á að kjarni togstreitunnar sé ekki kristni vs. íslam, heldur sé hún á milli fornra viðhorfa til heiðurs og æru annars vegar og vestrænna viðhorfa til frelsis og réttar einstaklingsins hins vegar.

Það er einmitt það sem þeim dönsku múslimum sem rætt hefur verið við svíður mest, þeir vilja ekki að sett sé samasemmerki milli trúar þeirra og þess sem þeir líta á sem úrelt viðhorf. (Sem má segja að hafi kannski verið það sem JP var að reyna að velta upp).

Annar viðmælandi benti á að viðhorf ákveðinna immana endurspegli svart/hvítt viðhorf Bush JR (annað hvort ertu með okkur eða terroristunum); taka verði afstöðu annað hvort með eða á móti virðingu við íslam.

Sá vildi þvert á móti meina að það væri eðli lýðræðis og frelsis að þurfa ekki að taka svart-hvíta afstöðu heldur að geta rætt sín viðhorf og tekið afstöðu til hvers sjónarmiðs fyrir sig.

Lox er það bandaríski lögfræðingurinn sem bendir á þann tvískinnung sem birtist í umfjöllun bandarískra fjölmiðla um málið. Hann vill meina að rætnar skopteikningar af gyðingum og kristnum séu fastur liður í dagblöðum Miðausturlanda og að þær myndir sem birtist þar og í Evrópu myndu aldrei verða birtar sem slíkar í Bandaríkjunum. Hins vegar sé hefð fyrir því að ef ákveðnar myndir eru sérstaklega í umræðunni séu þær birtar í bandarískum fjölmiðlum, enda þær þar með orðnar að fréttaefni og viðfangsefni umfjöllunar.

Hann nefndi sem dæmi vel þekkta mynd af Ariel Sharon að éta barn og aðra af ísraelskum skriðdreka að skjóta á Jesú.

Hins vegar hafi enginn fjölmiðill (enn) þorað að birta þessar myndir og það sé þar með verið að gera upp á milli trúarbragða, það sé í lagi að birta myndir sem særa sum trúarbrögð en ekki önnur. Þetta sé með öðrum orðum birtingarmynd (sjálfs-) ritskoðunar í Bandaríkjunum.

Að tala út úr rassgatinu á sér

Í dag las ég svo pistil eftir Guðmund Andra Thorsson á Vísi.is þar sem mér finnst hann ítrekað (eins og það heitir á fagmáli) tala út úr rassgatinu á sér.

Ég er ekki að halda því fram að pistillinn sé bull frá upphafi til enda, en sumt er alveg út í hött.

Framtak Jótlandspóstsins var til þess að niðurlægja frekar fólk sem taldi sig þegar niðurlægt. Það var til að magna elda. Það var til að kynda undir hatur. Það var til að æsa upp tilfinningar af trúarlegum og kynþáttalegum toga. Þurfum við á slíku að halda?

Annað hvort hefur Guðmundur Andri ekki hugmynd um forsögu málsins, eða honum hefur skrikað illilega á íslenskusvellinu.

Ef þarna hefði staðið varð til að... hefði málsgreinin gengið upp, en að halda því fram að innlegg JyllandsPosten í umræðu um tjáningarfrelsi í Danmörku hafi verið ætlað að gera allt þetta er í besta falli heimskulegt.

Auðvitað voru þeir að reyna að vera próvókerandi, en að gera þeim að hafa verið viljandi að kynda til haturs og niðurlægingar er út í hött.

Ekki tekur mikið betra við seinna í pistlinum:

Í dönsku múslimasamfélagi hafa líka komist til nokkurra áhrifa öfga- og æsingamenn, kannski vegna þess hvernig of oft er komið fram við fólk af erlendum uppruna í Danmörku - eins og Íslendingar þekkja raunar mætavel.

Ef það er eitthvað sem mér finnst móðgandi við stöðu múslima í Danmörku, þá er það að líkja saman þeim fordómum og viðhorfum sem þeir hafa þurft að búa við og stöðu hérbúandi Íslendinga!

Þvert á móti er hér snobbað svo mikið fyrir Íslandi að manni liggur stundum við klígju.

Danir hafa vissulega gert ótal mistök í sínum innflytjendamálum (og Íslendingar sýnist mér að séu vel á veg að endurtaka þau öll þegar kemur að okkar "nýbúum"). En það að halda því fram að Íslendingar í Danmörku hafi einhverja hugmynd um hvað innflytjendur frá arabaheiminum ganga í gegnum er algerlega út í hött.

Blessunarlega hefur Guðmundur Andri hins vegar fullan rétt til að láta út úr sér þá vitleysu sem honum sýnist - og ég til að vera honum ósammála.

Kvíðnir Danir

Almennt þykja mér Danir vera mjög slegnir yfir þessu máli öllu saman.

Flestir eru þó sammála um að málið eigi varla eftir að vinda meira upp á sig hér innanlands, heldur vonandi stuðla að betri tjáskiptum og skilningi - sem ekki veiti af til að lækna þau sár sem ýfð hafa verið upp.

Hins vegar eru menn kvíðnir yfir því hatri sem breiðist út í hinum múslimska heimi, hatri sem menn upplifa sem byggt á misskilningi og oftúlkunum - enda teikningarnar sjálfar löngu orðnar að aukaatriði.

Myndir af stúlkubörnum á grunnskólaaldri að brenna teikningar af dönskum fánum og kyrjandi að Dani eigi að skera í tætlur og úthella blóði þeirra eru óneitanlega sláandi.

Einn talsmaður danskra múslima syrgði það sérstaklega að Dannebrog væri orðin að hötuðu tákni. Hann hefði á sínum yngri árum stoltur verið með danska fánann á bakpokanum sínum á ferðalögum um Miðausturlönd og það hefði hvarvetna opnað honum dyr sem ella hefðu verið lokaðar - slíkt væri nú fyrir bí að sinni að minnsta kosti.

Hef ég þar með lokið mér af um þetta mál allt. Í bili.

Meira uppfært: Varríus tjáir sig um málið, hann er meira sammála Guðmundi Andra en ég og vísar á fleiri sjónarmið.


< Fyrri færsla:
Alltaf fullur bara?
Næsta færsla: >
Kvefskratti
 


Athugasemdir (5)

1.

Óskar Örn reit 08. febrúar 2006:

Ég held að umfjöllun íslenskra fjölmiðla (a.m.k. prentmiðla) um málið sé nokkuð að balanserast. Bendi á Moggann s.l. mánudag, þar er grein og leiðari sem veltir upp svipuðum flötum og þú ert að gera þ.e. að ríkisstjórnum landa á borð við Sýrland henti ágætlega að múgurinn fái útrás fyrir reiði sína í mótmælum gegn e-u ríki norður í rassi en ekki þeim (stjórnvöldunum) sjálfum. Hins vegar halda sjónvarpsfréttirnar alltaf áfram að stinga mig. Þar eru iðulega sýndar myndir af hópum fólks að brenna fána og veifa sveðjum og látið að því liggja að svona sé stemmningin meðal alls almennings í Sýrlandi/Palestínu/Indónesíu etc. Hins vegar er alltaf um að ræða tiltölulega lítinn hóp fólks, vissulega stundum e-a hundruði en samt hæpið að heimfæra þessa hegðan á heilar þjóðir. Mín reynsla af múslimum er sú sama og af fólki sem aðhyllist önnur trúarbrögð, þ.e. flestir eru þeir skynsamir hentistefnumenn í sinni trúariðkun og vilja helst bara fá að lifa sínu daglega lífi í friði án þess að trúin verði þeim of mikill fjötur um fót. Efast stórlega um að þessar sjónverpsmyndir endurspegli hug alls almennings í þessum löndum. Vissulega sláandi samt.

2.

Varríus reit 08. febrúar 2006:

Góður pistill, takk fyrir þetta gagnlega "innherjayfirlit" fyrir okkur sem nennum ekki að lesa dönsku.

Svo ég taki nú örlítið upp hanskann fyrir Guðmund Andra þá held ég að þegar hann talar um dönsk viðhorf til Íslendinga þá sé hann að vísa töluvert aftur fyrir okkar (og sitt) minni. Allavega skyldi ég hann þannig að hann sé að tala nokkrar aldir aftur í tímann varðandi reynslu okkar af dönsku yfirlæti.

Það er kannski djúpt í árinni tekið að segja eins og Andri að tilgangurinn hafi verið að niðurlægja. En hann var klárlega að ögra - athuga hvort einhver teldi sig niðurlægðan, og kenna viðkomandi í leiðinni lexíu um vestrænt frelsi til að ögra - og niðurlægja.

3.

Þórarinn sjálfur reit 09. febrúar 2006:

Nú tíðkast að taka orð (og teikningar) bókstaflega og séð með þeim gleraugum stend ég við skoðanir mínar á skrifum Guðmundar Andra.

Við erum sammála um ögrunar-ætlanir JP, en mér finnst GAT teikna skrattann heldur öfgakenndum strikum á vegginn.

4.

Hulda H. reit 09. febrúar 2006:

Takk fyrir þetta, ég vissi t.d. ekki þetta með myndskreytinguna fyrir bókina - og þó hef ég verið að horfa mikið á alls konar debat og umræðuþætti í danska sjónvarpinu að undanförnu.

5.

Þórarinn sjálfur reit 09. febrúar 2006:

Varðandi bókina var ég ekki með alveg réttar upplýsingar, hún mun víst fjalla um íslam eingöngu og með áherslu á Múhammeð spámann - en er ætluð börnum líkt og ég hélt. Skrifuð af þekktum (að mér skilst) barnabókahöfundi, Kåre Bluitgen.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry