Bölvandi sjúklingur

Það fór eins og mig grunaði að hitaslæðingurinn jókst þegar leið á gærkvöldið og um það leyti sem ég fór að sofa var ég kominn með vöðva- og beinverki um mestallan skrokk. Nóttin einkenndist svo af hitastigsrugli, annað hvort var mér of heitt eða kalt, og mjög undarlegum draumum.

Ég hafði slökkt á vekjaraklukkunni, en var samt vaknaður þegar Emilie hringdi fyrir allar aldir til að tékka á mér - sjálf var hún orðin eitthvað slöpp en vildi heyra hvort ég væri á leið í skólann (sem ég var ekki).

Eftir það sofnaði ég aftur og var steinsofandi um hálf-ellefuleytið þegar barið var hraustlega að dyrum.

Mín fyrsta hugsun (eftir að mér tókst að trekkja heilann í gang) var hvers vegna í ósköpunum væri eiginlega verið að banka. Krakkarnir á hæðinni eru vanir að hringja í innanhússímann og ef það er einhver utanfrá sem vill ná við mig sambandi gerist það í gegnum dyrasímann.

Þegar bankað var aftur og sýnu hraustlegar ákvað ég að ég yrði að druslast á lappir og sjá hvað um væri að vera. Brölti því undan sænginni við illan leik og gróf upp bol og buxur til að troða mér í. Þegar ég opnaði lox dyrnar var enginn sjáanlegur á ganginum og ég í mínu vankaða ástandi skildi ekki neitt í neinu.

Það var svo þegar ég var langt kominn með að græja mér morgunmat að ég kveikti á því hvað þetta hefði verið og rak upp bölvrunu mikla sem ekki verður höfð eftir á opinberum vettvangi.

Ég hljóp fram á gang og niður eldhúströppuna (lyftan var eitthvað treg að þóknast mér) en niðri á jarðhæð var enginn í rauðum jakka eins og ég hafði vonast til, þess í stað var tilkynning í póstkassanum mínum um að ekki hefði tekist að afhenda mér sendingu frá Amazon og að ég geti sótt pakkann á pósthúsi frá og með morgundeginum.

Ef ég hefði verið búinn að kveikja á því fyrr að pósturinn myndi reyna að afhenda mér Amazon sendinguna hefði ég líklega verið fljótari að kveikja á perunni í morgun. Ég hef mér það til málsbóta að hingað til hef ég aldrei verið heima þegar pakkar eru bornir út á dagvinnutíma hér í .dk og hef því vanist því að fá bara bögglatilkynningar og þurfa sjálfur að bera mig eftir björginni.

Ach well.

Heilsufar skánandi

Annars hefur heilsan verið með þokkalegasta móti í dag; stöku hnerrar, smávægilegur höfuðverkur og örlitlir vöðvaverkir (auk nefrennslis sem eflaust gæti knúið nokkur meðalstór álver ef það væri virkjað).

Ég er hins vegar hálf-sloj og óvenju framtakslítill (það er t.d. ógurlega freistandi að skríða aftur undir sæng) en ég held ekki að sá sljóleiki sé neitt sem skaðar. Þar sem fíni stafræni hitamælirinn minn er batteríslaus get ég ekki sannreynt að ég sé hitalaus, en hitinn virðist a.m.k. á rösku undanhaldi.

Sem er vel.

Það er ergilegt að úti er glampandi fallegur sólskinsbjartur dagur, en ég held að það sé réttast að ég haldi mig innivið til að reyna að tryggja sprækleika á morgun.

Ég held því áfram að einbeita mér að því að gera ekki neitt...

Bjórarnir í lífi mínu

Mér hefur verið tíðrætt um bjórúrval fredagsbarsins míns, í nýjustu útgáfu skólablaðsins, ReadIT, er einmitt grein eftir tvo af bjórmógúlum barsins þar sem þeir lýsa helstu bjórkyns valkostum.

Reyndar er úrvalið breytilegt milli vikna, en ég held að það sé rétt að þetta sé kjarnaúrvalið og svo bætist alltaf eitthvað nýtt við.

Það er svo eitt af einkennum barsins hvað þeir sem hafa verið í barstörfum halda lengi tryggð við fyrirbærið, löngu eftir útskrift. Höfundar ofannefndrar greinar eru t.d. báðir útskrifaðir, en skjóta upp kollinum og taka vaktir (og eru langt frá þeir einu).

Á vafri mínu um vefsíður barþjónanna rakst ég á þessa teiknistrípu (e. cartoon strip) sem mér finnst alger snilld.

Hvort hluti af snilldinni felist í því að ég sjái þarna vott af sjálfum mér skal ósagt látið með öllu.


< Fyrri færsla:
Kvefskratti
Næsta færsla: >
Færslufall
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry