Og enn og aftur brennur Köben
08. mars 2006 | 0 aths.
Ekki get ég sagt að ég öfundi þær Ege-systur af drama næturinnar (og auðvitað ekki Braga heldur). Í samanburðinum er nákvæmlega ekkert að frétta úr minni tilveru.
Nógu fannst mér óþægilegt að upplifa það þegar brann í nágrenni við Hönnu Birnu í fyrstu vikunni minni hérna úti. Og var það þó í vissri fjarlægð og við á jarðhæð.
Það er ekkert grín þegar upp kemur eldur í þessum aldargömlu fjölbýlishúsum í Köben, sérstaklega ekki ef maður býr á einum af efri hæðunum. Enda eru þetta í raun mjóir múrsteinsstrokkar með trégólfum milli hæða og hending ef á þeim eru svalir til að forða sér út á.
Venjan er sú að það eru tvær tröppur í stigaganginum; aðaltrappan og svo önnur minni bakatil (køkkentrappen) sem opnast inn í eldhúsin og fúnkerar sem neyðarútgangur. Miðað við lýsinguna hefur sú trappa verið full af reyk og það hefur örugglega ekki verið notaleg upplifun.
Í sambúð okkar Andreasar síðasta vetur passaði ég mig sérstaklega að vera ekkert að velta því fyrir mér hvað til bragðs ætti að taka ef upp kæmi eldur - enda var það alveg tveggja mínútna verk að opna dyrnar út á eldhúströppuna og hvergi slökkvitæki að sjá í íbúðinni né stigaganginum.
En þetta fór sem betur fer allt vel í nótt og enginn slys urðu.
Ég held ég láti það bíða til morguns að segja fátæklegar fréttir úr minni tilveru, en get þó ljóstrað því upp að ég hef það heilt yfir alveg prýðilegt (þótt ekki hafi verkefnaafköst verið teljandi í dag).
Svo eru komnar nokkrar myndir á Vasavefinn.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry