Bar fredags

Í gær var (eins og áður hefur komið fram) föstudagsbar þar sem saman fór fyrsti dagur í Tuborg páskabjór (Kylle Kylle) og dagur heilags Patreks (og svo ég auðvitað).

Emilie er enn á meinlætakúrnum sínum, þannig að hún sleppti því að koma með mér, Lydiu og Martin heldur hélt heim til fundar við fyrsta kjötbita vikunnar.

Við hin skelltum okkur við borð og drógum fljótlega að okkur drjúgan hóp samstúdenta okkar með misgræna bjóra. Ég hélt mig við þá venju að byrja á a.m.k. einum sérbjór áður en maður fer yfir í kranabjórana og fyrir valinu varð Caffrey's Irish Ale (mjög svipaður og Kilkenny, en ekki alveg jafn flauelsmjúkur).

Skömmu síðar birtust svo Siggi, Huld og Alex vinkona þeirra, þannig að ég kvaddi nærsitjandi bauna með virktum og færði mig yfir á borðið til þeirra og Eggerts.

Þar barst umræðan mjög fljótlega að furðulegum fóbíum og heimildarmyndum um undarlegar áráttur sem ég ætla af tillitssemi við lesendur að láta ógert að lýsa hér.

Í tilefni af St. Patrick's Day var dreift blöðum með spurningagetraun um líf og störf þess merka manns og um ýmislegt smálegt írskt. Heldur var vitneskja þar að lútandi takmörkuð við okkar borð. Ekki veit ég hvort það fór svona í taugarnar á Huld, en hitt veit ég að skömmu síðar stóð getraunablaðið í ljósum logum á borðinu okkar og að þau hjúin höfðu að eigin sögn yfirgefið Eyrnasundskollegíið meira eða minna í rjúkandi rústum umkringdum örmagna slökkviliðsmönnum, þannig að maður veit aldrei.

Ég brást að sjálfsögðu snarlega við og slökkti bálið án þess að einn einasti bjórdropi færi til spillis og án þess að nærstaddir danskir gestir yrðu þessa atburðar varir.

Þau fóru svo um sjöleytið, annarsvegar að heimta dóttur úr pössun og hins vegar að sækja kvöldverðarboð. Ég færði mig því aftur yfir til baunafélaga minna og nördalegri umræðna (en fóbíulausra).

Á míns yngri árum (meðan lifrin var enn ung og spræk) kom ég mér upp ákveðinni viðmiðun um það hversu mikinn bjór væri rétt að taka með sér í partý þannig að maður yrði passlega góðglaður og ef maður bætti ekki miklu við sig á eftirfarandi börum/dansstöðum væri hæfilega runnið af manni þegar maður kom heim um nóttina.

Þegar maður á gamals aldri er búinn að innbyrða bróðurpartinn af partýskammtinum á fastandi maga fyrir klukkan 19 er tvennt sem kemur til greina:

A: Maður getur gefið skít í skynsemina og haldið áfram að teyga gula páskakjúklinga með félögunum þar til raddir fara að heyrast um að skreppa upp á meginlandið til að tékka á stemmningunni á írsku kránum. Eftir að maður áttar sig á því að maður hefur ekkert borðað frá því í hádeginu er rétt að meta hvort einfaldara sé að fá sér pissu á Amagri, eða millilenda í einhverjum kebab uppi á meginlandinu (sem augljóslega verður fyrir valinu, enda lausara við útúrdúra). Þegar þangað er komið reynast svo félagarnir ekki nægilega svangir til að nenna því heldur vilja fara bara beint á barinn og framhald kvöldins verður eftir því...

B: Maður getur líka farið heim, fengið sér að éta og látið renna af sér yfir sjónvarpinu.


< Fyrri færsla:
Bróðir í borginni
Næsta færsla: >
Fussað yfir mbl.is
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 18. mars 2006:

Veit að St.Patrick rak alla snáka frá Írlandi og er eyjan snákalaus enn í dag. Veit samt ekki hvers vegna ég veit það.....!

2.

Þórarinn sjálfur reit 19. mars 2006:

Gott ef það var ekki einmitt ein spurning um meindýraeyðingar hans. Man samt ekki hvernig hún var, en held að þetta sé rétt minnt hjá þér.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry