Loxins, loxins

Eftir afboðanir, hrókeringar og bíræfin mannrán kom lox að því að ég byði spilahópnum sem Tóti og Auja buðu í trivial fyrr á árinu í póker hérna í eldhúsinu. Að vísu vorum við Stebbi í gær þeir einu sem höfðu mætt í trivialið, en það er algert aukaatriði.

Þau mættu sem sagt til mín Rut og Stebbi, og Guðný og Palli.

Við tókum smá upphitunarspil meðan við biðum eftir að Palli og Guðný kæmu úr matarboði. Mér gekk afleitlega að vanda og Stebbi og Rut voru á því að þetta væri líklega plott hjá mér og að ég myndi svo allt í einu sýna tilþrif þegar liði á kvöldið.

Þegar nágrannar mínir af efri hæðinni birtust svo var spilapeningum jafndreift á ný og leikar hófust af alvöru.

Eins og vera ber skiptust menn á um að vinna, en framan af voru það einkum fraukurnar sem sönkuðu að sér flögunum, sér í lagi Rut sem var að spila í fyrsta skipti.

Fyrsta alvöru dramaaugnablikið var svo þegar Palli og Guðný voru tvö að kljást um sífellt fitnandi pott. Palli endaði með að leggja allt undir, enda var hann með lit í hjarta og gulltryggur um að vinna nema Guðný væri annað af tveimur spilum sem gátu sigrað hann; hjartaás eða hjartadrottningu.

Flush of death

Guðný tók veðmálinu, enda var hún með bæði ásinn og drottninguna og hafði þar með aleiguna af spúsa sínum.

Palli án andlits

Palli missti andlitið...

Guðný skríkir

...en Guðný skríkti af kátínu.

Eftir að Palli féll úr leik tók hann að sér hlutverk dílers og við hin héldum áfram að bítast um plastið.

Rut og Stebbi

Stebbi reynir að útskýra af hverju Rut er með miklu fleiri spilapeninga en hann.

Svört Guðný

Í sjónvarpspóker sér maður að hinar ólíku hendur hafa margar nöfn (það eina sem ég man í svipin er að 9 og 5 kallast "Dolly Parton" (sbr. lagið og myndina).

Hins vegar veit ég ekki til þess að ákveðnar upphæðir eigi sér nafn í prófessjónal póker. Hjá okkur fékk veðmál upp á 35 "krónur" snarlega nafnið "Guðný" og 135 krónur voru "Svört Guðný".

(But I guess you had to be there...)

Mín takmarkaða heppni hélt áfram og allt stefndi í að ég myndi fylgja snarlega á eftir Palla. Lukkan snerist hins vegar í lykilhönd þar sem við vorum þrjú með ásapar og veðjuðum stórt, ég var með sjöu auk ássins á hendi og það dugði til þess að hala inn pottinn.

Þar með var ég kominn með vænlega stöðu og gat leyft mér að sýna smá fantaskap í skugga spilapeninganna.

Heilt yfir held ég að ég hafi verið að spila þokkalega, en það var slatti af höndum sem ég hætti mér í án þess að eiga fullt erindi og sömuleiðis slatti þar sem ég henti hundum sem hefðu getað dugað til vinnings ef ég hefði þrjóskast við (þótt í öllum þeim tilvikum held ég að það hafi samt verið rétt að pakka). Um leið og ég var kominn með slatta af peningum gat ég leyft mér að hálfblöffa, þ.e. veðja stórt á vænleg spil og hræða þannig aðra frá áður en kom að því að sýna hendurnar.

Að lokum voru blindu veðmálin orðin það há að keppendur hrundu út eins og flugur og við Rut vorum ein eftir. Í fyrsta einvíginu var heil röð í borði og þar með hafði engin áhrif að hún var með ívið betri spil á hendi. Í næstu hönd tókst mér að vinna og stóð þar með einn uppi.

Skítaglottið sem færðist yfir andlitið á mér var slíkt að það þótti ekki birtingarhæft hér af tillitssemi við börn og viðkvæmar sálir.

Við ákváðum að taka annað spil, en byrja strax á hærri pottum og tryggja þannig að það yrði tiltölulega snarpt.

Í það skiptið var það Rut sem féll fyrst úr leik og tók að sér dílershlutverkið, en myndavélin var ekki dregin fram fyrr en á höndinni sem steypti Palla úr leik öðru sinni.

Tvær þrennur

Þrír ásar Stebba vinna þrjár tíur Palla.

Stebbi sleikir út um

Stebbi sleikir út um eftir að hafa haft aleiguna af Palla.

Eftir sviptingar og töluverð umskipti fór svo að ég stóð uppi sem sigurvegari í þessu síðara spili líka og gat því ekki annað en verið sáttur við kvöldið.

Svo er spurning hver þorir næst?

(Tröllslegur hlátur sem endar í vandræðalegu hóstakasti.)


< Fyrri færsla:
Fussað yfir mbl.is
Næsta færsla: >
Allt að því dugnaður
 


Athugasemdir (5)

1.

Guðný og Palli reit 19. mars 2006:

Takk fyrir kvöldið og góðar veitingar.
Gaman að sjá svona greinagóða lýsingu á kvöldinu.´
Lengi lifi svarta Guðný.

2.

rut reit 20. mars 2006:

frábær pistill, tóró!
takk fyrir alveg frábært kvöld.
ég heimta re-match... sem fyrst!

3.

Hjörtur reit 20. mars 2006:

magnað - til hamingju...ég reyni að mæta næst og rústa þessu

4.

Þórarinn sjálfur reit 21. mars 2006:

Takk, takk.

Ég sé mér vart annað fært en að fara að huga að því að koma mér upp alvöru ólöglegu spilavíti, ásóknin í pókerkvöldin fer að verða slík...

5.

júlía reit 23. mars 2006:

vid reynum pottthétt ad koma næst.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry