Tónleikar á bryggjunni
25. mars 2006 | 0 aths.
Í framhaldi af auglýsingu gærdagsins varð það úr að ég færi með Huld og Sigga á Croisztans tónleikana.
Hugsanlega hefði ég getað farið á báða tónleikana, en þetta hentaði mér ágætlega - sérstaklega þar sem ég var með eindæmum þreyttur um kvöldmatarleytið, en gat leyft mér að slaka aðeins á þar sem croisztansar byrjuðu ekki fyrr en frekar seint.
Ég millilenti hjá Huld og Sigga (gekk á leiðinni fram á hóp Íslendinga þar sem ein reyndist fyrrum nemandi minn úr kvennó). Hjá þeim skötuhjúum barst talið meðal annars að Silvíu Nótt - fyrirbærinu og þeirri fjarfrægð sem fælist í því að þekkja Ágústu Evu.
Um hríð leit svo út fyrir örlögin sæu til þess að við yrðum of sein á tónleikana...
Þegar við tróðum okkur inn í lyftuna á sjöundu hæðinni, fjögur auk kerru með Bergþóru í, lokuðust dyrnar og ekkert gerðist. Það fyrsta sem Siggi sagði var: "Hvað er eiginlega með þig og lyftur?" horfandi á mig með ásökunaraugnaráði, enda var það síðast þegar við tveir vorum saman í lyftu að hún opnaðist á milli hæða hér á Skandis.
Eftir nokkur "Sjitt, ég trúi þessu ekki" og ýtingar á hina ýmsu hnappa tók lyftan samt að silast niður á við og skilaði okkur út heilum á húfi (en léttbrugðið) á jarðhæð.
Ég veit ekki hvort ég eigi kannski að fara að huga að því að koma mér upp fóbíum fyrir lyftum? Svona af öryggisástæðum?
Á strunsi okkar meðfram Amager búlivarðinum komst ég að því að ég myndi hafa afrekað nokkuð sem ég hélt að væri ógerlegt á fredagsbarnum fyrir viku. En svona er lífið, kemur endalaust á óvart.
Ðe tónleiks
Við skiluðum okkur í tæka tíð að kúltúrhúsinu við Íslandsbryggju og tylltum okkur framan við sviðsvinstrið.
Hafi u.þ.b. allir Íslendingar á stórkaupmannahafnarsvæðinu verið á trabanttónleikunum þetta kvöld (sbr. athugasemd við síðustu færslu), hlýtur afgangurinn að hafa verið þarna - því það virtist vera ca. til helminga baunar og íslíngar.
Fyrir utan Herdísi og Kristján sem við sátum með og Þórhildi júlíuvinkonu þekkti ég nú fæsta, þótt vissulega væru kunnugleg andlit inn á milli. Til dæmis er ég alveg viss um að ég hef séð manninn sem sat mér á hægri hönd áður, er einna helst á því að hann hafi verið í jarðfræði hérna í eldgamla daga.
Annars virtist það einkenni (sér í lagi á karlmönnum nærstöddum) að vera bæði hár- og skeggprúðir. Ég var bara ánægður með að hafa ekki nennt að raka mig og vonaðist til að falla örlítið betur inn í hópinn fyrir vikið.
Þeir croisztansar hófu svo leika af miklum þrótti. Án þess að ég vilji gera lítið úr gítarleikshæfileikum Eggerts voru áberandi bestu lögin þau þar sem hann þandi nikkuna af mikilli fimi.
Mér fannst þeir mun skemmtilegri lífs en t.d. tóndæmin á vef þeirra félaga gefa til kynna, enda sviðsframkoman og hávaðinn stór hluti af öllu alvöru paunki.
(Já mér finnst enn flott að skrifa paunk sem paunk en ekki pönk. Það mun eflaust eldast af mér.)
Áður hafði ég (byggt á lýsingum kunnugra) kallað tónlistarstefnu þeirra kappa þjóðlagapolkapaunk, en ég breytti þeirri skilgreiningu snarlega á tónleikunum yfir í þjóðlagasígaunapolkapaunk, enda var stór hluti laganna eins og klipptur út úr mynd eftir Emir Kusturica og það er mikið hól í mínum huga.
Um mitt sett settist söngvarinn (Siggi að ég held) á sviðsbrúnina og skammaði áhorfendur fyrir að sitja á rassinum. Eftir þær skammir tóku tónleikagestir að hætta sér í danstilþrif og með fullri virðingu fyrir hæfileikum annarra var það zombípaunkriverdance-tilþrif Sigurðar Högna sem vöktu mesta aðdáun mína.
Eftir tónleikana stöldruðum við við og hinkruðum eftir að ná tali af Eggert. Hann hafði á orði að sér þætti grúppíur heldur strjálar og sármóðgaði þarmeð okkur Huld.
Hef ég verið kallaður margt um dagana, en aldrei fyrr "strjál".
Ðe afterdrínks
Þegar húsráðendur gerðu sig líklega til að ryðja eftirlegukindunum út var ákveðið að tylla sér á krá í nágrenninu. Í samráði við lítinn hóp Dana var stefnan tekin á bódeguna Ísbjörninn rétt hjá menningarhúsinu.
Ísbjarnarblúsinn brast reyndar snögglega á, þar sem við sáum ljósin slokkna á staðnum í þann mund sem okkur bar að, klukkan rétt rúmlega 1. Þess í stað ákváðum við að tylla okkur með dönsku vinum okkar inn á Haraldsborg, þar sluppum við inn rétt fyrir síðasta umgang og staðnum var svo lokað klukkan 2.
Heldur þótti okkur næturlíf á bryggjunni kenndri við frónið dauflegt og horfðum öfundaraugum yfir á meginlandið þar sem öldurhús Vesturbrúar voru rétt utan seilingar.
Okkur var bent á að næsti bar fyrir norðan væri með síðasta umgang klukkan hálf-þrjú, en við ákváðum að láta það eiga sig að elta hljómsveitina þangað og smúttuðum hvert í sína áttina.
Ég rölti heim og var kominn hingað rúmlega hálfþrjú, horfði aðeins á nætursjónvarpið og skreið svo í koju.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry