Örlar á vorbrigðum

Í dag frumkeyrðum við E. tilraunaumhverfið okkar með því að fá eina "velviljaða" tilraunakanínu til að fara í gegnum fyrstu drög að uppsetningu og verkefnum.

Það voru eins og við var að búast örlitlir byrjunarhnökrar og sumt sem bar þess merki að við höfðum ekki náð að renna í gegnum verkefnin sjálf (við náðum bara rétt að klára hönnunina áður en brast á með boðaðri komu kanínunnar velviljuðu). En heilt yfir gekk þetta vonum framar og kanínan var jákvæð.

Vorið er komið en grundirnar ekki alveg farnar að gróa

Á mánudag tilkynnti Jónína mér að nú væri vorið komið til Kaupmannahafnar. Ég gat a.m.k. staðfest að það var mun hlýrra t.d. að hjóla berhentur á mánudeginum en sunnudeginum.

Vorið brestur samt ekki á með neinum ógnarþunga. Í dag er heldur þungskýjað og hefur gengið á með stöku skúrum í dag. Álftarpar kjagaði áðan eftir ísnum á síkinu fyrir utan gluggann á kontórnum okkar, en fann að lokum vök til að svamla í.

Palli nágranni var að berja af takkaskónum þegar ég kom heim seinnipartinn í gær. Það hlýtur að teljast enn eitt voreinkennið þegar sparkarar eru farnir að láta til sín taka.

Umsótt

Í gær afrekaði ég að skila inn umsókn um starf. Það verður svo að koma í ljós hvaða áhrif það hefur á mína möguleika að geta ekki byrjað fyrr en eftir hálft ár.

Það að skila umsókninni gekk reyndar ekki áfallalaust, ég fékk upp ógnarlangt vefeyðublað þar sem ég átti að skrá inn menntun, starfsreynslu, áhugamál og skóstærð.

Í eyðublaðinu voru meðal annars langir starfsheitalistar, með störfum á borð við framleiðslustjóri, framleiðslustörf, framleiðslutæknir, friðargæsluliði og frjótæknir, en ekki t.d. framhaldsskólakennari.

Ráðningarstofan fær nú ekki háa einkunn fyrir forritun og yfirlestur á þessu eyðublaði sínu, t.d. var ótrúlega mikið um endurtekningar; "auglýsingagerð" kemur t.d. þrisvar fyrir í starfsheitalistanum og ég var lengi að spá í hvort ég ætti að velja B.Sc. eða B.Sc sem námsgráðu...

Eftir að hafa fyllt allt samviskusamlega út (eftir því sem unnt var), tengt ferilskrána við sem viðhengi og smellt á Senda hnappinn með krosslagða bæði fingur og tær í von um að netið hryndi nú ekki áður en ég gæti skilað af mér fékk ég svarið:

Microsoft OLE DB Provider for SQL Server error '80040e57'

String or binary data would be truncated.

/skraning/form_save.asp, line 265

Þannig að auðvitað þorði ég ekki annað en að submitta forminu aftur (og fékk auðvitað sömu villuna) og endaði á að senda tölvupóst á uppgefið netfang til að sýna a.m.k. fram á að ég hefði reynt að skrá mig áður en umsóknarfresturinn rann út.

Í morgun fékk ég svo staðfestingu á skráningunni, þannig að eitthvað hefur skilað sér og nú er að sjá hvaða viðbrögð ég fæ.

Veisluhaldafjöld

Nú stefnir svei mér þá allt í að ég standi fyrir tveimur skipulegum partýum (auk pókerkvölds) í apríl og það í tveimur löndum.

Nánar um það þegar línur skýrast.


< Fyrri færsla:
Heimferðardagskrá lítt tekin að skýrast
Næsta færsla: >
Frekari prófanir og nýir tölvuleikir
 


Athugasemdir (2)

1.

Jón Heiðar reit 29. mars 2006:

Heyrðu þú verður að mæta á pókerkvöld hjá mér og co.

2.

Þórarinn sjálfur reit 30. mars 2006:

Málið hefur verið sett í nefnd.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry