Frekari prófanir og nýir tölvuleikir
30. mars 2006 | 0 aths.
Morguninn fór í að fínpússa tilraunaumhverfið okkar byggt á reynslunni frá í gær. Það var fátt stórvægilegt sem kom í ljós þar, en við fórum í gegnum allar spurningarnar og villutékkuðum, auk þess að gera nokrar breytingar til að auðvelda "moderator" að hafa yfirsýn bæði yfir það hvað tilraunakanínan er að gera og hverju á að spyrja að næst.
Þar sem kanínan sem við höfðum samið við komst ekki strax eftir hádegið gáfum við okkur smá "frí" eftir hádegismatinn. E. spilaði flashleiki á netinu og ég dundaði mér við smá breytingar á forsíðu thorarinn.com sem ég vonast til að geta birt fyrir afmælið mitt.
Klukkan tvö var svo búið að stilla upp kynningum á fimm nýjum tölvuleikjum niðri í aðalrýminu í skólanum.
Þar var um að ræða afrakstra úr DADIU verkefninu 2006 (skjámyndir og lýsingar). Í stuttu máli felst það í því að nemendur úr fjölmörgum háskólum hér í Danmörku vinna saman í rúman mánuð að því að búa til eitt eða fleiri level í nýjum tölvuleik, að þessu sinni byggt á Half-Life 2 vélinni.
Í hverju verkefni eru leikjahöfundur (oftast héðan úr ITU), verkefnisstjóri (héðan eða frá Álaborg), leikstjóri (yfirleitt úr kvikmyndanámi), grafíker, forritarar, hljóðgæi o.s.frv.
Slatti af leikjahöfundunum í ár eru vinir okkar E., þannig að við kíktum að sjálfsögðu á þetta. Einn leikjanna hafði ég prófað meðan hann var í vinnslu (og hefur breyst töluvert síðan) og E. sá um allar kven-leikraddir í þeim sama leik.
Eins og við var að búast voru flestir leikirnir í fyrstu persónu, en Rasmus og félagar höfðu þó búið til þriðju persónu leik þar sem maður stjórnar risagórillu með barnsheila í glerhjálmi sem hoppar og skoppar í Transsylvaníu, hræðir bændur og étur kýr (milli þess sem hann hendir þeim í lopt upp og út).
Í öðrum leik er maður sálfræðingur inni í heila konu með geðræn vandamál, í þeim þriðja skylmingavígur riddari, fjórða vofa, og þeim fimmta barnung stelpa ofsótt af dúkkum.
Eins og í fyrra er þetta ótrúlega vel gert og flott. Það var þó ekki laust við að örlaði á því að menn væru langþreyttir enda hefur lítið verið sofið núna á lokasprettinum.
Á morgun verður svo kynning á leikjunum í stóra salnum þar sem hóparnir kynna hvað þeir gerðu og hvaða hugmyndir lágu að baki. Ég geri fastlega ráð fyrir því að við E. tökum okkur hlé frá tölfræðipælingum og kíkjum þangað.
Síðan kom Lydia og leyfði okkur að prófa sig. Það gekk bara vel og hún kom með nokkrar gagnlegar ábendingar. Ég komst líka að því að það er líklega ekki heppilegt að stóla á að nota vefþjón skólans til tímamælinga, ég þarf líklega að prjóna smá javascripti við prófanakerfið okkar.
Á morgun ætlum við svo að bera saman mældar niðurstöður úr þessum tveimur prófunum og sjá hvernig okkur gengur að vinna úr þeim.
Og svo er bara alveg að koma ammælishelgi!
Hún er reyndar lítt skipulögð, en ég stefni þó á að smala ITU'urum í póker í eldhúsinu á laugardaginn og svo kemur í ljós hvað ég geri af mér á afmælisdaginn sjálfan.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry