Að afliðinni ammælishelgi
03. apríl 2006 | 0 aths.
Helgin hófst eiginlega á fimmtudagskvöldinu þegar við fórum fjögur af hæðinni á fimmtudagsbarinn og spiluðum pool. Ég var reyndar daaauðþreyttur og skynsemin sagði mér að fara snemma að sofa en sú rödd var þögguð niður.
Þótt ég drykki ekki nema lítra af bjór dugðu óbeinu reykingarnar og of stuttur svefn til að ég vaknaði með létt þynnkueinkenni á föstudeginum. Það var þó ekkert sem háði mér svo neinu næmi, en ýtti hins vegar heldur undir töluverða leti okkar skötuhjúanna. Fyrir hádegi fylgdumst við með kynningum á tölvuleikjunum sem vinir okkar höfðu verið að búa til og eftir hádegi gerðum við mest lítið.
Ég lét svo stutta visitasíu á föstudagsbarnum duga og fór heim um kvöldmatarleytið, greip með mér hamborgara og lét renna af mér yfir sjónvarpinu.
1. apríl
Ég hafði haft uppi einhverjar pælingar um að fara kannski út að hlaupa á laugardagsmorgninum en þær voru snarlega lagðar á hilluna.
Veðrið var eiginlega engan vegin, skýjað og leiðinlega kalt, þannig að þegar að því kom að fara út að viðra sig ákvað ég að gera það í Fields verslanamiðstöðinni(!)
Á leiðinni í metrónum rak ég augun í fyrrum umsjónarnemanda minn úr Kvennó. Ég held að hann hafi ekki þekkt mig, enda hefði ég ekki þekkt hann nema af því að ég tók eftir að hann var að tala íslensku við félaga sinn.
Í Fields höfðu menn greinilega ákveðið að bregðast við kuldanum útifyrir með því að skrúfa miðstöðina í 11. Ekki alveg fyrir dúnúlpuklædda neytendur, en ég sá einn atvinnuverslara sem hafði mætt í stuttbuxum og sandölum...
Eina yfirlýsta markmið ferðarinnar var að kaupa strigaskó, eftir ítarlega úttekt á sportvörubúðunum fann ég lox Adidasskó sem mér leist vel á, en þegar til átti að taka voru þeir ekki til nema í stærð 44.
Af biturri reynslu er ég hættur að taka sénsa á aðeins of litlum skóm (táneglurnar á mér eru við það að jafna sig á sólskinsgöngutúr í aðeins of litlum skóm fyrir 10 mánuðum síðan) og ákvað því að fresta þessu í bili.
Ég staldraði líka aðeins við Nike hlaupagalla á tilboði en ákvað sem fátækur námsmaður að halda áfram að hlaupa í gömlu græjunum.
Svo veit ég ekki alveg hvað mér á að þykja um þá staðreynd að flottasti Hummel jakkinn á svæðinu var bara til í smástelpustærðum.
Líklega eru stæltu karlarnir bara búnir að kaupa öll númerin fyrir ofan XS.
Fyrir rælni þvældist ég upp á aðra hæðina og inn í Deichmann-sko sem er hér með formlega orðin uppáhaldsskóbúðin mín í Köben. Þar var fínt úrval af flottum skóm á 200-300 kall og eftir nokkuð grúsk í leit að skóm í 45 sem væru ekki of dóalegir (lýsingarorð sem systkini mín nota um fatasmekk minn og þykir ekki alltaf jákvætt) endaði ég á að grípa mér rauða og hvíta rússkinnskó með léttu keiluyfirbragði á 300 kall.
Ég skoðaði svo aðeins hornsófa, en lét kaup á slíkum eiga sig í bili.
Metróstopp
Þegar hér var komið sögu ætlaði ég að koma mér heim úr musteri mammons, sáttur með fjárútlát dagsins. Á metróstöðinni kom hins vegar í ljós að allt var stopp. Mér heyrðist að það væri vegna þess að einhver hefði dottið á teinana á stöð spölkorn frá, en a.m.k. var allur akstur stopp hérna megin á Amagri.
Það var farið að hellirigna og jafnvel þótt við aðrar aðstæður hefði ég eflaust getað rölt heim var það ekki freistandi tilhugsun í dúnúlpu í rigningunni. Ég var alveg við það að taka lest upp á Höfuðbanann til að taka svo strætó til baka, þegar ég ákvað að fara bara inn í Fields aftur og drepa tímann þar og sjá hvort ekki rættist úr þessu.
Þetta var örugglega samsæri Metró og Fields til að fá fólk til að versla meira, því það passaði akkúrat að þegar Fields var lokað klukkan 5 var metróinn farinn að ganga aftur og ég búinn að fjárfesta mér í vefmyndavél. Að vísu aðeins í dýrari kantinum, en með fylgdu heyrnartól og mæk sem hefðu annars kostað mig 200 kall í viðbót.
Ég leitaði líka dauðaleit að plastspilum (ekki bara plasthúðuðum) fyrir póker, enda ending stokkanna sem fylgdu með pókersettinu afskaplega döpur. Slíkar gersemar fann ég ekki, en endaði á því að fara í Bilka til að kaupa einn stokk á 12 krónur.
Á leiðinni heim tók ég eftir 30-40 álftum í hóp sem virtust vera að æfa oddaflug. Ég átti erfitt með að átta mig á því hvers vegna þær væru að því á þessum tíma árs, en sá svo að þær höfðu tekið stefnuna til suðurs.
Sennilega búnar að gefast upp á að bíða eftir danska vorinu.
Póker
Um kvöldið var svo póker. Boðaðir ITU-arar hrukku úr skaptinu í gríð og erg og bakköppliðið flestallt að fara í sama afmælið. Við vorum þó fjögur; Hjörtur, Aðalsteinn og Gunnur (og svo ég auðvitað).
Í fyrstu lotu sátum við Steini tveir uppi og tókum þá sameiginlegu afstöðu að láta skynsemi og yfirvegun ekkert þvælast fyrir okkur. Eftir nokkrar göslarahendur tapaði ég svo all-in á einhverjum bölvuðum hundum.
Í seinni lotu fór svo að við Gunnur sátum tvö eftir og ég hafði að lokum sigur.
Því miður steingleymdi ég að taka myndir af atburðum og biðst innilega velvirðingar á því.
Ammælisdagur
Á sunnudeginum svaf ég að mestu leyti út, fékk afmælishringingu frá Mardí og gamla settinu (þar sem meðal annars kom í ljós að pabbi hafði ekki þorað að smella á neitt í aprílgabbinu en mamma hafði reynt að vaða í pósthólfið mitt).
Veðurspáin sem ég hafði séð glytta í á laugardeginum hafði gert ráð fyrir þokkalegu veðri sem síðan ætti að færast yfir í rigningu og jafnvel slyddudrullu í upphafi vikunnar.
Þegar ég fór á stjá var veðrið prýðilegt þannig að ég skartaði nýju skónum og dóalega frakkanum mínum, enda á leið í menningarleiðangur upp á meginlandið.
Það hefur staðið til í nokkrar vikur að kíkja í Thorvaldsen safnið (síðan Aðalsteinn benti mér á það í samlokuhittingi okkar nýlega). Mér þótti prýðilegt að nota afmælisdaginn sem afsökun fyrir því að hefja menningarátak vorsins.
Skemmtilegt safn. Kallinn hefur verið virkilega afkastamikill (þótt ég viti að hann eftirlét aðstoðarmönnum sínum stærstan hluta handavinnunnar hefur þetta verið gríðarlega tímafrekt).
Byggingin er líka kapítuli út af fyrir sig með raðir af litlum sýningarherbergjum. Mér þótti þó óvænt kitch blasa við þegar maður kíkti út í portið í miðri byggingunni. Þar voru á annan gaflinn málaðar útlínur pálmatrjáa sem var einhvern vegin algerlega út úr kú.
Eftir að safninu var lokað hafði ég ætlað að rölta um gamla bæinn þar til mig tæki að svengja, en það var komin hellirigning þannig að ég skrapp fyrst heim og fór í gábbulegri yfirhöfn, skipti um skó og dró fram regnhlífina.
Afmæliskvöldverðurinn var svo snæddur á Hereford Beefstouw við Tívolí. Mér finnst framleiðslan þar vera skemmtilega mínímalísk; væn kjötsneið með kryddsmjöri, bökuð kartafla og eitt kryddlauf ofan á steikinni. Með prýðilegu rauðvíni var þetta hin besta máltíð, þótt á mig hafi sótt sú tilhugsun að ég hafi líklega pantað nákvæmlega sams konar rumpsneið síðast þegar ég borðaði þarna.
Líklega er teikningin í matseðlinum bara svona freistandi.
Ég sat þarna í mestu makindum við fínt borð með útsýni út á Vesterbrogade og stúderaði mannlífið í rigningunni.
Á leiðinni heim millilentum við regnhlífin á Kaffe Kys og þar var afmælissúkkulaðitertan tekin.
Staðurinn stóð reyndar ekki undir nafni, því engan fékk ég þar afmæliskossinn. Mig minnir reyndar að ég hafi heldur ekki fengið koss þegar ég var þar síðast, þannig að þetta eru líklega hrein og klár vörusvik.
Þegar ég kom heim í kotið horfði ég á hina hálfsvasaklútsvottuðu (fyrir hörkutól eins og mig) Finding Neverland með Depp og Winslet, sem ég fékk lánaða frá Jónínu um daginn.
Partí, partí
Nú er ég búinn að senda út tölvupósta og boða til teitis hér í samkomusalnum í kjallaranum næsta laugardag.
Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt til Kaupmannahafnar með stuttum fyrirvara er ætlunin að halda partí að Fálkagötu 15, föstudaginn 21. apríl. Takið kvöldið frá.
Nánari upplýsingar síðar.
Certified klikkhaus
Í gær fékk ég svo tvær brilljant hugmyndir að aprílgabbi fyrir næsta ár.
Þær eru reyndar í eðli sínu ósamrýmanlegar og önnur myndi taka 10 mínútur í framkvæmd, hin líklega 10 klukkutíma.
Ég vonast því til að vera búinn að gleyma þeirri metnaðarfyllri þegar vora tekur að ári.
En þetta sannar auðvitað endanlega að ég er klikkaður.
I do not suffer from insanity,
I enjoy every minute of it.
NN
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry