Monní meiks ðe vörld gó ránd

Eins og ég nebbndi einhverntíman þurfti ég fyrir nokkrum árum að endurfjárfesta "áramótaskammti" hlutabréfa og ákvað að kaupa fyrir 60 þúsund í Landsbankanum og 60 þúsund í Bakkavör Group. Síðan hafa hlutabréfin í báðum þessum fyrirtækjum rokið upp á við og fyrir nokkrum vikum var Landsbankahluturinn kominn í 480 þúsund (áttföldun).

Það er hins vegar meinið við svona hlutabréfa"gróða" að hann verður ekki að raunverulegri eign fyrr en maður selur. Þannig kom þessi ofurávöxtun mín t.d. ekki í veg fyrir að ég færi yfir á Dankortinu mínu um daginn.

Ég var farinn að spá í það skömmu áður en danadruslurnar fóru að draga í efa íslenska efnahagsundrið af einskærri öfund og fáfræði og púnkteruðu með því bankabóluna (hvar eru nú fánabrennur Dannebrog við Arnarhól og heimkvaðning Svavars?) að fara kannski að selja eitthvað af þessum bréfum, svona til að eiga til hnífs og skeiðar næstu mánuðina.

Það dróst hins vegar hjá mér að hrinda því í verk og markaðsvirðið tók að síga. Í gær seldi ég svo bróðurpartinn af Landsbankabréfunum, en hélt eftir 60 þúsundunum sem ég fjárfesti upphaflega. Fyrir þann hlut fékk ég ca. 90 þúsund krónum minna en ég hefði fengið ef ég hefði selt akkúrat á toppnum, en aftur 20 þúsund krónum meira en ef ég hefði selt sömu bréfin í lok dags í dag.

Það er greinilegt að einhverjir spaðar hafa frétt af því að ég væri að beila á bankabréfunum með þeim afleiðingum að flótti brast í mannskapinn og bréfin lækkuðu um rúmlega 6% í dag.

Ég vildi glaður geta logið því að lesendum að þetta þýddi að ég væri orðinn ríkur, en þar sem ég sé ekki fram á að hafa neinar tekjur næsta hálfa árið eða svo verður þetta fljótt að gufa upp í mat, húsaleigu og ýmsan bráðnauðsynlegan óþarfa.

Gengið upp og niður

Önnur forvitnileg fjármálaspeki eru gengissveiflupælingar. Ég var t.d. passlega búinn að venja mig á að reikna með 10 íslenskum krónum í einni danskri þegar gengið súnkar og nú eru heilar 11,7 íslenskar í þeirri dönsku og ég þarf að læra að reikna alveg upp á nýtt.

Fyrir vikið fást mun færri bjórar en áður fyrir hvern hundraðþúsundkall sem er millifærður að heiman.

Ef maður hefði verið skyggn hefði maður selt í bankanum og flutt allt snarlega á Dankortsreikninginn og "grætt" 20% aukalega. Það hefði sko mátt kaupa slatta af öli fyrir þann ofsagróða. Verst að til að þessi 20% hefðu orðið áþreifanleg hefði maður eiginlega þurft að flytja peningana aftur heim og gróðinn þar með farið fyrir lítið ef ölið hefði verið keypt í ÁTVR.

Lánabrjálæði íslínga

Ég veit ekki alveg hvaðan þetta peningatuð í mér kemur, en það minnir mig á grein eftir Þorvald Gylfason sem ég sá á visir.is fyrir nokkrum vikum og vakti athygli mína.

Þar fjallaði hann um erlendar skuldir þjóðanna og benti á sitthvað forvitnilegt:

  • Erlendar skuldir Afríkulandanna (skuldugustu heimsálfunnar) nema um 70% af samanlagðri landsframleiðslu álfunnar.
  • Erlendar skuldir Íslands voru 56% af landsframleiðslu í árslok 1990, 100% í árslok 2000, 200% í árslok 2004 og í lok síðasta árs 300% af landsframleiðslunni.
  • Vaxtagreiðslur og afborganir Íslendinga af erlendum lánum voru rösklega 70% af útflutningstekjunum 2005.
  • Íslensk fyrirtæki og heimili voru í lok janúar 2006 með 184 milljarða í yfirdrátt!

Greinin í heild.

Ég er greinilega engan vegin að standa mig sem Íslendingur að fjármagna dagligdagen með því að innleysa hlutabréf í stað þess að taka þetta bara á yfirdrættinum eins og alvöru kempa.

Og svo vogar Danske Bank sér að hafa einhverjar áhyggjur af íslenska fjármálakerfinu!

Beðist er velvirðingar

Lesendur eru beðnir velvirðingar á þessu fjármálarausi, ég lofa að hætta þessu tuði og snúa mér að því að borga reikningana mína.

Þó þykir mér rétt að enda þetta á tilvitnun í ónefndan speking:

Hjá mér hafa peningar aldrei verið neitt vandamál. Peningaleysið hins vegar, það er hábölvaður andskoti...

NN

< Fyrri færsla:
Að afliðinni ammælishelgi
Næsta færsla: >
Vasast í verkefninu
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry