Heima í sveitinni
23. apríl 2006 | 0 aths.
Opna húsið á föstudeginum hófst á því að ég bauð Ella, Halldóru og Vilborgu í grillveislu. Þar var keyrt á gömlum klisjum; Lambafilé, sætar kartöflur og kúrbítur á grillið, í meðlæti salat með fetaosti og köld piparsósa. En eins og einhver sagði þá er ástæða fyrir því að klassíkerarnir verða klassískir.
Að vísu hefði ég kannski átt að skafa mestu marineringuna af bitunum áður en þeim var skellt á grillið - fyrir vikið stóð grillið í björtu báli framan af. Bitarnir voru örlítið dökkir að utan, en ég held því auðvitað fram að marineringin hafi bara verið svolítið karamelliseruð - ekki að neitt hafi í raun verið brunnið.
Kjötið var hins vegar meyrt og fínt og ekki að sjá annað en gestirnir væru sáttir.
Góðmenni mikið
Vilborg dró svo foreldrana með sér heim til að horfa á Sollu stirðu og ég dró fram snakk og hækkaði örlítið í tónlistinni.
Þetta varð svo prýðilegt kvöld með meiri áherslu á góðmenni en fjölmenni og eftir umræður um allt milli himins og jarðar kvöddu síðustu gestir um hálfþrjú.
Feðgaflakk
Á laugardagsmorgninum fékk ég svo símtal að austan þess eðlis að ömmu sem hefur verið á spítala síðan hún lærbrotnaði um páskana hefði hrakað um nóttina og að pabbi væri á leið suður til þess hugsanlega að kveðja hana.
Ég fór því út á völl til að taka á móti honum og seinnipartinn ók hann mér á völlinn þegar ég fór á Egilsstaði. Þá var komið á daginn að amma væri að hressast.
Margrét tók svo á móti mér á Egilsstöðum og eftir frábæra og lungamjúka hreindýrasteik lögðumst við í myndagláp fram eftir nóttu.
Fljótlega eftir hádegið í dag sótti ég svo pabba út á völl og hringnum þar með lokað.
Stopult samband
Eitthvað líkar ThinkPad og þráðlausu routerunum frá Símanum illa hvern við annan. Að minnsta kosti er ég að lenda í því bæði hér á Dalskógunum og á Fálkagötunni að missa ítrekað netsambandið til þess að detta aftur inn 1-5 sekúndum síðar.
Þetta virðist einskorðast við tölvuna mína, því makkinn hennar Margrétar hikstar ekki.
Þeir sem fá píp í hvert sinn sem ég dett inn og út af MSN eru beðnir velvirðingar.
Í þessum rituðum orðum datt svo routerinn alveg út og um leið ADSL sjónvarpið. Það er ekki fyrr en eftir hádegi á mánudegi sem stöðugleika virðist aftur komið á með smásíutilfæringum og þar með virðast símtöl ekki lengur slá routernum út. Dagsetning færslunnar er samt eins og mér hefði tekist að birta hana í gær.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry