Það dugir greinilega ekkert kæruleysi á pókerkvöldum
28. apríl 2006 | 0 aths.
Síðar í kvöld er ég á leið að spila póker heima hjá virðulegum starfsmanni ónefnds fjármálafyrirtækis. Til undirbúnings þeim hittingi hafa verið gefnar út ítarlegar leiðbeiningar um atferli og birgðaöflun sem ég birti hér með góðfúslegu leyfi gestgjafa.
Spilaður verður venjulegur póker og Texas Hold´em.
Spilari hefur 1.000 kr. lágmark með sér, gott að hafa með sér 10 kr. og 50 kr. peningum sem spilapeningar eru keyptir fyrir. Hægt er að skipta stórum seðlum í smápeninga í öllum útibúum KB banka.
Kolvetnaríkur, fituríkur og saltaður aukabiti verður á staðnum en til að komast inn verða menn að hafa með sér eigin bjór.
Ekki er leyfilegt að koma með eftirfarandi fæðu eða drykki:
- grænmeti
- pilsner
- óblandað vatn
- gerilsneyddar mjólkurvörur
- ávaxtasafa
Létt tónlist verður spiluð af hörðum diski. Ekki er tekið við beiðnum um óskalög nema beðið sé um tónlist eftirfarandi tónlistarmanna eða hljómsveita:
- Johnny Cash
- Metallica
Snyrtilegur klæðnaður er áskilinn. Ekki er leyfilegt að klæðast eftirfarandi:
- of gisnum netabolum (ef þú ert karlmaður). Miðað er við möskvastærð upp á 1x1 cm.
- fatnaði merktum Landsbankanum, Glitni, Sparisjóði eða Den Danske Bank
- stuttbuxum
- hvítum sportsokkum
- g-streng (ef þú ert karlmaður)
Leyfilegt er að koma með eigin stokk, svo framarlega sem spilastokkurinn eða spilastokkarnir eru ekki:
- Opnaður og eða áður notaður í hverskonar tilgangi
- Merktur Landsbankanum, Glitni, Sparisjóði eða Den Danske Bank
- Með ósiðlegum myndum af karlkyns einstaklingum og eða dýrum
- Sjálfslýsandi
Þeir sem svindla, ja þeir græða líklega mest.
Ég hef nú skipt öllum íslenskum gjaldeyri mínum í hlunka í útibúum KB banka um gervalla vesturborgina og veskið mitt slagar í 2 kíló að þyngd.
Bjórinn er að kólna í ísskápnum.
Þá er ég búinn að staga aðeins í netabolinn til að minnka líkur á að verða hent út vegna hans.
Það er bara verst að það eru miklar líkur á að ég yfirgefi leikvanginn sligaður af íslenskum smámyntum, enda er ég ekki að fara að mæta fyrir neitt minna en gerflengingu viðstaddra keppenda.
(Í versta falli mína eigins flengingu).
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry