Byrjaður að vinna

Mér tókst að missa naumlega af strætisvagninum sem ég ætlaði að taka í vinnuna í gær, frekar en að rölta heim aftur og bíða eftir þeim næsta ákvað ég að láta mig hafa það að bíða í strætóskýlinu í rétt tæplega 20 mínútur í beljandi strekkingnum. Nýkeypta H&M úlpan stóð sig ágætlega í kuldanum, en það lá við að það væri þörf á síðum nærbuxum innundir gallabuxurnar.

Þótt það séu tveir vagnar sem stoppa rétt fyrir utan hjá mér og sem ég get tekið í vinnuna eru þeir að koma á sama tíma, þannig að missi maður af báðum er næstum 20 mínútna bið þar til þeir koma aftur með tveggja mínútna millibili (eiga reyndar að vera á nákvæmlega sama tíma samkvæmt áætlun og hafa hingað til skipst á um að vera fyrri til).

En allt hafðist þetta og ég skilaði mér í vinnuna þar sem ég byrjaði á að fá kennslu á helstu tölvukerfi og dundaði mér við uppstillingar auk þess að sitja nokkra fundi og reyna að setja mig inn í þau verkefni sem lenda á minni könnu.

Eins og við er að búast var fyrsti dagur ekki sérlega afkastamikill, en ég náði þó að koma einhverju smávægilegu í verk.

Í morgun lenti ég í smá snúsvandræðum. Vandræðin fólust reyndar ekki í því að það væri erfitt að snúsa, heldur því hversu afskaplega erfitt var að koma sér undan sænginni. Það endaði því með því að ég tók sama síðbúna strætó og í gær og kom álíka mikið of seint og þá.

Tek mig á í fyrramálið og vippa mér strax fram úr, glaðbeittur sem sumarfugl.

En það er sem sagt fínt að vera byrjaður að vinna, vinnunetfangið mitt verður toro hjá hugsmidjan.is (enda annar Þórarinn hér fyrir), en þeir sem þurfa að ná sambandi við mig geta haldið áfram að nota thorarinn hjá thorarinn.com - ég er með það tengt hér í vinnunni líka.

Nú er matarhléinu að ljúka og mál að reyna að gera eitthvað gábbulegt fyrir næsta fund.


< Fyrri færsla:
Flytjandi (aftur) inn
Næsta færsla: >
Gómaður í jólaleik
 


Athugasemdir (3)

1.

Jón Heiðar reit 17. október 2006:

"Tek mig á í fyrramálið og vippa mér strax fram úr, glaðbeittur sem sumarfugl."

Glaðbeittur sumarfugl my ass.

2.

Óskar Örn reit 18. október 2006:

Til hamingju með að vera orðinn verðamætaskapandi þjóðfélagsþegn. Þarf að fara að sjá í smettið á þér. Mikið af vöktum í vikunni og stefnir í að tengdó verði hér yfir helgina þannig að máske eptir helgi?

3.

Óskar Örn reit 18. október 2006:

Já, og ef vantar mann í málningarvinnu eða annað karlmannlegt þá endilega bara bjallaðu!

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry