Buxur með broti

Minns mætti í vinnuna í morgun í spariskyrtu og buxum með broti. Það stafaði ekki af nýjum dresskóða í vinnunni, heldur var ég að fara á kynningarfund vegna stórs útboðs sem er í gangi og var að reyna að feika örlítinn trúverðugleika.

Færslufæð undanfarinna daga og vikna stafar ekki af skorti á tjáningarefnum, ég sendi sjálfum mér reglulega tölvupósta með tenglum á áhugavert efni til að blogga um en finn einhvern vegin ekki tíma til þess að berja færslurnar saman.

Svo þegar maður á rólega kvöldstund við lyklaborðið (eins og í kvöld) sökkvir maður sér alveg óvart í enn eina útópíska endurhönnun útlits fyrir þennan vef, í stað þess að lagfæra einhvern af böggunum sem ég veit að eru í gangi (t.d. röðun mánaðayfirlitsins í dagbókinni) eða skrifa eitthvað gáfulegt.

En ég á sem sé inni langan lista af linkum, frásögn af grímuballi helgarinnar (þar sem ég þóttist vera Hugh nokkur Hefner), pólitísku tuði og ýmsu fleiru.

Á móti kemur að eilítið annríki er framundan, t.d. er ég búinn að lofa að skrifa grein í Tölvumál og það þarf að klárast áður en ég bregð mér af landi í næstu viku.

Returning to the scene of the crime

Við Alex ætlum sem sagt að skreppa til borgar drottningar í næstu viku, þar sem ég stefni á að endurnýja kynni mín af helstu stórsjoppum, danska bjórnum og kannski tyrkjakeböbum.

Við verðum úti í tæpa viku og ætlum meðal annars að taka þátt í Kaupmannahafnarmaraþoninu (óbeinan þó*), auk þess sem ég hef hana og vinkonurnar grunaðar um að skipuleggja að tæma H&M af öllu steini léttara.

Frændi hennar frá Fáskrúðsfirði ætlar að fá íbúðina lánaða á meðan við erum úti, vökva blómin og fylgjast með KR-ingum að sparkæfingum.

En eigi ég að vera duglegur við dagbókarfærslurnar er nauðsynlegt að vera úthvíldur og því skal nú haldið til sængur. Adíós.

*) Það er rétt að játa að þátttaka okkar verður einungis í formi þess að fylgjast með Sif, vinkonu Alex, keppa.


< Fyrri færsla:
Ítarleg pólitísk yfirborðsgreining
Næsta færsla: >
Flottir á því
 


Athugasemdir (1)

1.

Sif reit 09. maí 2007:

Held það veit ekki af, þið kannski standið á kantinum með orkugel ef í harðasta fer. Er nú þegar búin að redda viðtali hjá Rúv og réttarlækni til að kryfja mig ef allt fer á versta veg eins og henti einn í London.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry