Orð dagsins: Fánahommi
11. maí 2007 | 1 aths.
Grillunin tókst vel og allir virtust sáttir við viðgjörninginn. Sérstaklega sló eftirrétturinn í gegn hjá Vilborgu frænku sem skóflaði í sig tertufatinu með afköstum öflugrar matvinnsluvélar.
Júróið sjálft var hins vegar lítt minnisstætt, varla einu sinni að bólaði á eftirtektarverðum brjóstaskorum eða naflastuttum pilsum. Helst voru það karldansarar sem skörtuðu skorti á þekjandi búningum.
Í einhverju skotinu úr salnum stóðu kynnarnir inni í fánahafinu fremst og Alexandra sló um sig með reynslu sinni:
Þarna var ég í fyrra. Nema bara í Aþenu...
Samkvæmt henni er það gallharðasta gengið sem situr fremst og veifar fánum í slíkri gríð og erg að enginn sér neitt upp á sviðið - enda eru þessir gestir búnir að borga sig inn á generalprufu til að sjá sjóið. Hlutfall kvenna og gagnkynhneigðra karlmanna mun heldur ekki vera sérlega hátt á fremstu bekkjunum. Þetta gátum við sannreynt á þeim áhorfendum sem glytti í bak við kynnana og Sigmar lýsti því yfir hátt og snjallt:
Þarna er meira að segja fánahomminn!
Lesendum er eftirlátið að ráða í hvað það var sem hann ætlaði að segja.
Í dag hefur mikið verið ritað um Júróvisjónsamsæri. Ég held að lausnin sé einföld; bara að fjölga aðeins Norðurlöndunum! Hvar eru frændur okkar Grænlendingar, Færeyingar, Álandseyingar og Hjaltlendingar þegar maður þarf á þeim að halda?
Og hvernig væri að splitta Bretlandseyjum upp eins og í fótboltanum? England, Skotland, Wales og Írland. Írar taka reyndar yfirleitt þátt (ekki satt?), en hvað með t.d. Norður-Írland?
Þetta er nú verðugt viðfangsefni fyrir alla sendiherrana sem valdhafar vorir hafa skipað á kjörtímabilinu. Mér skilst að sex sendiherrar sitji á Íslandi þar sem ekki séu til sendiráð fyrir þá til að skála í.
Færeyjar í Júró!
Athugasemdir (1)
1.
hildigunnur reit 11. maí 2007:
Þessi mynd er fyndin, takið eftir þessum slefandi þarna...
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry