Vítamínsprauta fyrir makka
13. maí 2007 | 0 aths.
Makkinn hennar Alex virtist hafa verið að hægja á sér undanfarið og var orðinn óþægilega hægvirkur. Ég reyndi að grúska í því hvort einhver forrit væru að valda vandræðum en varð ekki var við neitt slíkt, smá vefleit leiddi mig hins vegar að nokkru sem ég held að fæstir makkanotendur viti af en geti hins vegar nýst ansi mörgum (a.m.k. hresstist umræddur sjúklingur verulega).
Ég skal reyna að vera ekki of tæknilegur (en tek strax fram að þessi pistill er mjög óáhugaverður öðrum en makkanotendum).
Mac OS X stýrikerfið byggir á Unix kjarna sem er upphaflega hannaður með það í huga að vera í gangi svotil linnulaust, mánuðum og árum saman.
Hluti af þeim kjarna eru tiltektarforrit sem fara í gang að næturlagi og hreinsa upp margs konar bráðabirgðaskrár og annað sem hleðst upp við notkun. Ákveðnar tiltektir er gert ráð fyrir að framkvæma daglega, aðrar vikulega og sumar mánaðarlega.
Gallinn er hins vegar að margir notendur, sérstaklega þeir sem eru með fartölvur eru ekki að skilja þær í gangi yfir nótt og því fara þessi forrit jafnvel aldrei í gang.
Í tilviki tölvu Alex (sem er um þriggja ára) komst ég að því að "daglega" tiltektin hafði síðast farið í gang 7. febrúar, "vikulega" tiltektin fyrir rúmu ári (6. maí 2006) og "mánaðarlega" tiltektin aldrei...
Ég reyndi að skoða samsvarandi tölur fyrir makkann minn, en upplýsingarnar virðast geymdar á öðrum stað í minni stýrikerfisútgáfu svo ég fann þær ekki.
Lækningin
Best kannski að taka fram að þessa visku mína hef ég meira eða minna alla af þessari síðu.
Fyrirhafnaminnsta leiðin er líklega að skilja tölvuna eftir í gangi í mánuð og treysta á að öll tiltektarforritin hafi þá verið keyrð a.m.k. einu sinni.
Það eru líka til forrit sem hjálpa til við að stilla þessa hegðun (mér sýnist að það sé enn ekki nein þægileg leið til að stilla þetta beint í stýrikerfinu). Bent er á nokkur slík á ofangreindri síðu.
En ef menn þora að keyra upp skipanalínuglugga (Terminal) er hægt að kippa þessu snarlega í liðinn án þess að þurfa að setja upp nein ný forrit.
Terminal-forritið er að finna undir Applications - Utilities og þegar hann er opnaður fær maður upp frekar fráhrindandi skipanalínu (a.m.k. fyrir dæmigerðan notanda). Þar slær maður inn (eða afritar héðan):
sudo periodic daily weekly monthly
Eftir að ýta á Return fær maður aðvörun um að það geti verið hættulegt að nota sudo og er beðinn um lykilorð. (Aðvörunin virðist bara birtast fyrst þegar þetta er gert, en lykilorðið þarf alltaf að gefa upp.)
Að réttu lykilorði gefnu malla öll þrjú tiltektarforritin af stað og það tekur nokkrar mínútur að keyra þau. (Alveg óhætt að vinna í öðrum forritum á meðan - eða fá sér kaffi). Þegar tiltektinni er lokið birtist skipanalínan aftur (nafn tölvunnar og nafn notandans).
Hafi þessi tiltekt ekki verið keyrð lengi ætti tölvan öll að verða mun sprækari á eftir.
Vonandi hressir þetta einhverja makka.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry