ágúst 2009 - færslur


Minns söðlar um

Nýliðin vinnuvika hefur skipst milli Hugsmiðjunnar og míns nýja vinnustaðar, Háskólans í Reykjavík, þar sem ég verð vefstjóri í 80% stöðu í vetur, í fæðingarorlofi forvera míns.

Aðdragandinn

Undanfarna mánuði höfum við hjá Hugsmiðjunni verið í samstarfi við Háskólann í Reykjavík um nýjan vef fyrir skólann. Ég hef verið aðaltengiliður Hugsmiðjunnar vegna þess verkefnis og þegar auglýst var í vor eftir vefstjóra í afleysingum kviknaði sú hugmynd hjá mér að sækja um starfið.

Ég ræddi það við mína yfirmenn hjá Hugsmiðjunni hvort hægt væri að finna einhvern flöt á því að "lána" mig tímabundið. Niðurstaðan úr því varð sú tillaga að ég yrði í 80% stöðu hjá HR og 20% hjá Hugsmiðjunni. Eftir hefðbundið viðtalsferli var mér svo boðin staðan og ég þáði.

Þetta fyrirkomulag held ég að komi öllum til góða, ég ætti að vera fljótur að setja mig inn í málin hafandi verið með í verkefninu frá upphafi auk þess sem ég þekki auðvitað Eplica kerfið. Hugsmiðjan getur nýtt mig einn vinnudag í viku, auk þess sem hugmyndir eru uppi um frekara samstarf HR og Hugsmiðjunnar sem er of snemmt að ræða hér.

Þótt ég sé afskaplega ánægður með Hugsmiðjuna sem vinnustað er ekki laust við að það hafi verið uppsöfnuð þreyta í mér eftir töluvert álag síðastliðinn vetur. Tilbreyting af þessu tagi og á þessum tímapunkti smellpassar því við mínar þarfir.

Að þeirri staðreynd ónefndri að ég hef lengi horft til Háskólans í Reykjavík sem bæði spennandi skóla og vinnustaðar, þannig að það er gaman að fá þetta tækifæri til að fá innsýn í akademíska lífið þar á bæ.

Vefurinn er eitt aðaltæki skólans og miklar kröfur gerðar til hans, þannig að það verður nóg að gera hjá mér (eins og raunin hefur verið undanfarna daga). Ég er því ekki að fara í neinar hvíldarbúðir, en það eru spennandi mánuðir framundan.