Hugmyndir um kjörkerfi

Ég hef undanfarið verið að spá í kosningar og sérstaklega hina tæknilegu hlið þeirra, þ.e. sjálfa atkvæðagreiðsluna og úrvinnslu hennar. Kveikjan að þessum vangaveltum er að sjálfsögðu yfirvofandi kosningar til stjórnlagaþings.

Áður en lengra er haldið er rétt að setja niður nokkrar grunnforsendur fyrir þessum vangaveltum mínum. Sumar má kalla hugsjónarlegs eðlis, aðrar snúast um hreina praktík og mannlegt eðli. Þær eru, án nokkurrar forgangsröðunar:

  • Kosningar eiga að vera rafrænar, en framkvæmd þeirra þarf einnig að ganga upp í pappírskjöri.
  • Kosningar eiga að byggja á persónum framar listum.
  • Öll atkvæði eiga að vega jafnt.
  • Eðlilegt er að til verði einhvers konar kosningabandalög/listar og við hæfi að kosningakerfið dragi keim af því.
  • Eðlilegt er að búseta hafi að einhverju leyti áhrif á val kjósenda í landskosningum, en kerfið má ekki mismuna eftir búsetu frambjóðenda eða kjósenda.

Byggt á þessum forsendum er að mótast í kollinum á mér lýsing á fyrirkomulagi kosninga til t.d. næstu alþingiskosninga. En fyrst þetta:

Ókostir við kosningafyrirkomulag stjórnlagaþings

Jónas Kristjánsson, einn frambjóðendanna, skrifar:

Stærðfræðingar hafa komið því svo fyrir, að kosið er á stjórnlagaþing með því að skrifa hundrað tölustafi á blað. Hundrað tölustafi. Hundrað. Auðvitað mega rugl.[...] En aldrei aftur skulum við hleypa fávísum stærðfræðingum að skipulagi kosninga.

(Ég sé ekki að hægt sé að vísa í staka færslu hjá Jónasi)

Nú veit ég ekki hvort Jónas er með hugmynd að betra kerfi, en auðvitað er tvennt sem veldur þessu talnaflóði; fjöldi frambjóðenda og það að kosið er á pappír. Með 523 frambjóðendur hefði líklega verið hægt að komast af með þriggja stafa auðkenni, en ég veit ekki hvort öllu munar þegar í kjörklefann er komið hvort skrifa þarf upp 100 tölustafi eða 75.

Þegar frambjóðendur eru ekki dregnir í dilka eftir kjördæmum og listabókstöfum þarf einhvers konar auðkenni og það að byggja á 4 tölustöfum er forsendan sem lagt var upp með. Allir sem skoða yfirlitið yfir frambjóðendur sem kollegar mínir hjá Hugsmiðjunni settu upp (og ég kom að í viðmótsráðgjafahlutverki) hljóta að hugsa hversu grátlegt það er að ekki skuli vera hægt að skila atkvæðum rafrænt.

Fyrst til eru nægilega traustar og öruggar veflausnir til að við getum skilað skattframtölum án vandamála hljótum við að geta kosið veflægt líka. Þeir sem vilja geta svo skilað á pappír, eins og með skattframtalið. (En nú er ég kominn fram úr sjálfum mér, aftur að göllum núverandi fyrirkomulags).

Annar galli, ef svo má að orði komast, er fjöldi frambjóðendanna. Allir nota þeir falleg orð í lýsingum sínum og satt best að segja er erfitt að velja 25 fulltrúa eftir neinu öðru heldur en "fordómum". Ég kem til með að velja á minn kjörseðil fólk sem ég hef haft einhver kynni af, persónulega eða óbeint, og ég hef trú á að standi sig. Ég hef ekki reynslu af því hvernig neinn þeirra stendur sig í því að semja stjórnarskrá og því er varla hægt að kalla þetta mat mitt annað en fordóma (en í jákvæðri merkingu þó).

Þriðji gallin er í mínum huga að atkvæðum skuli forgangsraðað á hverjum kjörseðli. Nú þykist ég vera um eða yfir meðalgreind, með þónokkra stærðfræðikúrsa á sakaskránni og hef lesið útskýringar á þessu kosningakerfi, en ég er samt í raun litlu nær um það hverju munar á því að setja tiltekinn frambjóðanda í 5. 15. eða 25. sæti. Þetta er í mótsögn við forsenduna sem ég gef mér ofar, að öll atkvæði eigi að vega jafnt - það gildir þá bæði milli manna og innbyrðis á kjörseðlinum.

Ég skil að menn vilji (sérstaklega í tilviki stjórnlagaþings) vera með reikningskúnstir til að jafna hlutfall milli kynja og landshluta. Ég er hins vegar alfarið á móti því að gera það sama í t.d. alþingiskosningum.

Hið fyrirheitna land

Og þá að mínum hugleiðingum. Það er rétt að taka það fram að ég hef ekkert stúderað kosningakerfi annarra landa, þannig að mögulega er ég að finna upp hjólið eða yfirsjást eitthvað mikilvægt.

Forsendur hugmyndarinnar:

  • Atkvæði eru greidd persónum.
  • Frambjóðendur raða sér á framboðslista.
  • Landinu er skipt í landshluta og framboð má bjóða fram lista í hverjum þeirra, eða fyrir landið allt.
  • Til þæginda má kjósandi greiða ákveðnum framboðslista allt sitt atkvæði, kjósi hann svo.
  • Úrvinnsla atkvæða er alveg óháð búsetu kjósanda.
  • Öll greidd atkvæði vega jafnt og framboðslistar tryggja að sem fæst atkvæði falli dauð (helst engin).

Tökum dæmi; landinu er skipt í 7 landshluta, "bandalögin" X og Y bjóða fram lista í öllum 7, bandalagið Z einungis á Norðurlandi og Austurlandi. Þ býður bara fram einn heildarlista fyrir allt landið.

Kjósa á um 63 þingsæti og hver kjósandi má greiða 20 frambjóðendum atkvæði. Hver framboðslisti teflir fram 25 frambjóðandum, og hæfilegu magni meðmælenda með hverjum lista. X og Y eru því með 7x25 frambjóðendur hvort og Þ með 25. Hvert framboð er algerlega frjálst að því hvernig raðað er á listana. (Það er ekkert heilagt við þessar tölur, þær eru bara til að gefa einhverja hugmynd).

Sem kjósandi hef ég þrjá valkosti;

  1. Ég get valið allt að 20 frambjóðendur alveg óháð því á hvaða lista þeir eru.
  2. Ég get kosið ákveðið "bandalag" (flokk) á landsvísu, t.d. X.
  3. Ég get kosið ákveðið landshlutaframboð, t.d. Y á Norðurlandi.

Með því að kjósa ákveðið landshlutaframboð er ég í raun að velja 20 efstu frambjóðendur þess tiltekna lista, með því að kjósa bandalag á landsvísu 20 efstu af öllum listum. Í dæminu hér fyrir ofan er ég þá að kjósa 2 efstu frambjóðendur X í hverjum landshluta, og 6 af þeim sem eru í 3. sæti sinna lista (hver þeirra fær ekkert atkvæði má ráðast af handahófi í fyrstu talningu).

Byggt á greiddum atkvæðum raðast allir frambjóðendur í einfalda röð og 63 efstu eru á leið inn á þing. Síðan er farin önnur yfirferð til að afgreiða "dauð" og "umfram" atkvæði:

Ef ég kýs frambjóðanda sem ekki kemst inn flyst það "dauða" atkvæði mitt til þess frambjóðanda í sama bandalagi sem er næstur því að komast inn. Þannig umraðast 63 manna röðin aftur. Loks eru "umframatkvæði" flutt yfir á þá þingmenn sem ekki hafa komist inn. Ef það þarf 10.000 atvæði til að komast inn og frambjóðandinn Jóna Jóns fær 12.500 atkvæði er 2.500 þeirra flutt yfir á þann í hennar bandalagi sem er næstur því að komast inn.

Það er svo stærðfræðinga að ákveða hversu oft þetta ferli á að ítra, en niðurstaðan verður sú að allir þingmenn verða með jafnmörg atkvæði að baki sér. 1/63 greiddra atkvæða liggur þá að baki hverjum þingmanni.

Þessi tilfærsla á geiddum atkvæðum er lík því sem gera á til stjórnlagaþings, en eitt stórt frávik er t.d. að hér væri atkvæðum ekki forgangsraðað innbyrðis. Það flækir örugglega eitthvað (t.d. ef "dautt" atkvæði lifnar aftur við), en það má allt leysa.

Kostir og gallar

Byrjum á íhaldssemi kerfisins. Þeir kjósendur sem vilja bara kjósa sinn flokk (eins og þeir hafa alltaf gert) gera það áfram. Þeir fá hins vegar frelsi til að velja hvort þeir leggja áherslu á flokkinn í "sínum" landshluta eða á landsvísu.

Flokkar og kosningabandalög þurfa áfram að raða á lista, með uppstillingum eða prófkjörum eftir því sem þeir kjósa sjálfir. Kjósendur ráða hvort þeir taka mark á þessari uppstillingu, en hún hefur alltaf óbein áhrif - þeir sem eru ofar á listum eru líklegri til að komast inn.

Ekki er boðið upp á útstrikanir, en með því að velja ekki ákveðinn frambjóðanda nást fram sambærileg áhrif (og allar slíkar "eyður" telja strax).

Framboðin stilla upp listum eftir landshlutum sem vísbendingu til kjósenda, búseta hefur hins vegar engin áhrif á úrvinnslu. Ef Sunnlendingur kýs í heild lista af Austurlandi, eru "óvirk" atkvæði hans ekkert líklegri til að gagnast frambjóðendum á Suðurlandi en öðrum í viðkomandi bandalagi.

Þetta fyrirkomulag mun því ekki ráða niðurlögum flokkakerfisins, enda ætti reynslan af stjórnlagaþinginu að sýna okkur að það er gríðarlega tímafrekt að ætla að vega og meta alla frambjóðandur af "eigin verðleikum eingöngu". Með bandalögum er ýtt undir það að frambjóðendur fylki sér saman um ákveðin mál, en það er engin "refsing" fólgin í því að bjóða bara fram í einum landshluta. Nái bandalagið 1/63 atkvæða fær það mann inn.

Einu atkvæðin sem virkilega falla niður dauð eru þá atkvæði greidd frambjóðendum í bandalögum sem ekki koma neinum manni inn.

Ég hef lengi verið fylgjandi því að gera auðum atkvæðum hærra undir höfði, en verð að viðurkenna að ég hef ekki séð neinn góðan flöt á slíku í svona atkvæðagreiðslu. Það væri helst með því að alveg auður seðill teldist greiða sýndarframboði öll 20 atkvæðin.

Framkvæmd

Kosningar færu fram á netinu og hefðbundnum kjörstöðum. Kosning stæði yfir í nokkra daga, þannig að hægt væri að bregðast við tæknilegum vandamálum sem upp kunna að koma.

Þeir sem það vilja geta mætt á kjörstað og fylla þá út kjörseðil, eitthvað svipað þeim sem notaður verður til stjórnlagaþingsins. Með því að meirihluti kjósenda ljúki málum á netinu væri hægt að auka þjónustu á kjörstað. T.d. þannig að boðið verði upp á að skanna inn kjörseðilinn á staðnum og þannig sjá strax hvort eitthvað er athugavert eða óskýrt. Þ.e. sams konar yfirlestur og sjálfsagt er að bjóða á vefnum.

Hver notandi hefði auðkenni, t.d. sem tæki mið af bandalagi og landshluta, og sömuleiðis ætti hvert framboð sitt auðkenni. Kjósandi getur þá annað hvort merkt við eitt framboð (annað hvort innan landshluta eða á landsvísu), eða valið sína 20 frambjóðendur. Líkt og í kosningunum til stjórnlagaþings, ef kjósandi velur færri en 20 er atkvæði hans að rýrast sem því nemur.

Auðvitað má segja að netkosning og kosning yfir nokkra daga "eyðileggi" stemmninguna sem fylgir því að mæta á kjörstað einn laugardag og fylgjast svo með kosningasjónvarpi þar sem menn teygja lopann fram á nótt milli þess sem tölur detta inn. En svoleiðis íhaldssemi er hins vegar ekki gild rök í umræðunni. Mér vitanlega er það enginn sem saknar þeirrar rómantíkur sem fylgdi því þegar karlar einir höfðu kosningarétt?

Hvað segja hlustendur? Orðið er laust.


< Fyrri færsla:
Að teikna þorn
Næsta færsla: >
Hin jólalega jólakveðja
 


Athugasemdir (3)

1.

reynir reit 06. nóvember 2010:

varðandi fjölda tölustafa sem einkenna frambjóðendur, þ.e að þeir skuli vera 4 en ekki 3 (sem dugar augljóslega, miðað við að þeir séu 521) er kerfið s.s. 4 tölustafir - einhvæmir niður á 3, þ.a ef þú ert að kjósa, og skrifar einhvern þeirra rangt, getur atkvæðið samt talist rétt. Þetta er náttúrulega algjör snilld!

2.

Pallih reit 06. nóvember 2010:

Hvernig ætlarðu að standa að endurtalningu í rafrænni kosningu? Eða að tryggja nafnleysi hvers kjósanda?

3.

reynir reit 06. nóvember 2010:

>Palli: Hvernig ætlarðu að tryggja nafnleysi hvers kjósanda?
með því að láta atkvæðin ekki vera persónutengd í gagnagrunni. Það er til þess að gera auðvelt að koma í veg fyrir rekjanleika í tölvugögnum... það er bara spurning um að fá einhvern aðilla (t.d. yfirkjörstjórn) til að votta kerfið.

Endurtalning ætti að vera óþörf í rafrænu kerfi, því kerfið getur ekki talið rangt, nema ef um villu í talningar-algrími væri að ræða. Ég sé það ekki fyrir mér, þar sem flest gagnagrunnskerfi eru með velútfærðar margreyndar talninga-aðgerðir, smbr. SQL92 staðalinn sem flestir gagnagrunnsþjónar útfæra, og þá sérstaklega með eftirfarandi í huga:
"select count(*) from sometable where somecondition"

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry