Farsímasagan mín öll

Farsímar

Fyrsta símann minn keypti ég sumarið 2000, Nokia 3210, sem var um tíma mest selda rafeindatæki sögunnar.

Þegar ég fór út til Danmerkur 2004 hafði ég slitið út rafhlöðu númer tvö og fékk lánaðan gamlan Sony síma hjá Sigmari bróður til að brúa bilið þar til ég keypti nýjan. Sá lánsssími og ég skildum aldrei alveg hvorn annan og urðum aldrei trúnaðarvinir.

Eftir miklar pælingar endaði ég á að kaupa síma náskyldan þeim gamla, Nokia 1100, í lítilli símabúllu á Amagerbrogaðe í upphafi árs 2005. Með sérstökum feature: Vasaljósi.

Ég fékk þá spurningu í náminu hvers vegna ég, með áhuga á viðmóti og græjum keypti mér svona síma. Ég svarað því að það var einmitt vegna viðmótsins sem ég valdi hann.

Það vill svo skemmtilega til að með yfir 200 milljón seld eintök tók 1100 titilinn mest selda rafeindatæki allra tíma.

Í dag er sá sími enn í 100% lagi, rafhlaðan er enn sú sama og með minni símnotkun dugir mér að hlaða símann einu sinni í viku. Hann hefur ekki enn tekið misheppnaða ljósmynd eða stýrikerfið frosið. Það eina sem upp á vantar er að ég skipti um front því skjárinn var orðinn rispaður og útskiptifrontarnir (frá Nokia) eru með annars konar lyklaborði sem ekki þolir að hristast mikið í gallabuxnavasa - letrið máist af á nokkrum mánuðum. (Jú og skjárinn tók stundum upp á því að blikka „vekjaraklukku-blikkinu“ eftir að símtali lauk, en það var bara krúttlegt).

En því er ekki neitað að þrýstingur á símakaup hefur farið vaxandi. Ekki síst að geta tekið ljósmyndir af syninum, en ég viðurkenni líka að ég var farinn að finna fyrir því í vinnunni að það háði mér að vera að hanna farsímaviðmót án þess að hafa daglega reynslu af vefnotkun í síma.

Nú er ég því stiginn inn í Android heiminn með litlum og nettum Sony Xperia Tipo (hvurs stærstu kostir eru að passa vel í vasa og vera ekki of dýr - auk þess sem rafhlaðan á að endast sæmilega).

Uppfært: Við leit að nýrri sölutölum fann ég töluna 250 milljón seld eintök, ásamt umsögninni:
„The Nokia 1110 is one of the best and most durable mobile phones known to man.“
Þetta er sambærileg tala og samtals sala allra útgáfa af iPhone tegunda (sl. sumar). /uppfært


< Fyrri færsla:
Spennandi nýr starfsvettvangur
Næsta færsla: >
Ekki breyta klukkunni!
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry