Sjálfsmynd í litlum glugga

Allir alvöru listamenn eiga sjálfsmyndir af sér á ólíkum tímabilum. Málarar eiga myndir af sér á græna, gula og mínimalíska tímabilinu; textasmiðir eiga sjálfslýsingar á örstigi, ræpustigi, talaðundirrósstigi og tónlistarmenn eiga sama grunnstefið flutt undir ólíkum (efnafræðilegum) áhrifum. Ég kynni hérmeð sjálfsmynd af mér á danska lubbatímabilinu:

Sjálfsmynd á danska lubbatímabilinu.

Það er ekki laust við að þessar próteinlengjur byrgi manni einstaka sinnum sýn, en með sætum bleikum bangsahárklemmum eða smurningu kemíkalískra efna má (oftast) ná að beina legu lengjanna frá andlitinu.

Ég þrjóskast við og dettur ekki í hug að klippa mig. Þetta er tilraun sem fylgt skal til enda! (Nákvæmlega hver sá endi verður er óljóst, en ef ég stend sjálfan mig einhverntíman að því að setja hárið í tagl verða sauðaklippurnar dregnar fram samstundis.) (Segir maðurinn með bleiku bangsaklemmurnar.)

Tilverukreppa gluggans

Tilverukreppa er reyndar allt of sterkt til orða tekið, en upp á síðkastið hef ég orðið meira og meira var við tilveruskringileikann sem einkennir þetta (loðna) skólatímabil mitt.

Síðast þegar ég var í háskóla mætti ég í skólann 5 daga í viku, frá morgni til síðdegis alla daga. Kvöldin fóru í heimaverkefnin sem kennararnir voru sannfærðir um að væru kennslufræðilegasta réttasta leiðin til að halda okkur við efnið í þeirra eigins áfanga (ekki að slóra við að lesa eitthvað gagnlegt, hvað þá í óskyldum kúrsum). Nei, heimaverkefnum skyldi skilað í hverri viku og þegar fimm kúrsar kröfðust þess var reikningsdæmið einfalt. Helgarnar fóru svo í að vinna úr tilraunum vikunnar og skrifa skýrslur.

Þess má geta að helgarskýrsluskrifin fóru oftast fram í Löngubrekku í Kópavogi þar sem við félagi Þorsteinn lærðum í sameiningu að falsa rannsóknarniðurstöður. Kunnátta sem enginn alvöru vísindamaður kemst af án.

Ofangreind lýsing á reyndar aðallega við fyrri hluta efnafræðinámsins, í kennslufræðinni voru skóladagarnir yfirleitt fimm í viku, en verkefnaáþján með öðrum hætti. (Kröfur um orðafjölda umfram innihaldsgæði og/eða sjálfstæða huxun.)

Nú er ég hins vegar "í skólanum" tvo daga í viku með fimm daga "helgar".

Hver og einn þessara kúrsa á heimtingu á 15 klukkustunda vinnu vikulega (með fyrirlestrum), þannig að í orði kveðnu er ég að vinna sem svarar 45 tíma vinnuviku. Vinna umfram fyrirlestrana er í formi verkefna og í þeim kúrsum sem ég er í núna eru verkefnin af þeirri stærðargráðu að það er enginn afgangur af 15 tímunum (ef maður ynni eftir stimpliklukku sem maður gerir auðvitað ekki).

Það sem er hins vegar mesti munurinn á þessari skólagöngu og hinni fyrri er netið.

Auðvitað var netið, tölvupósturinn og vefurinn til staðar í fyrri kynnum mínum af háskólanámi - en ekki í nærri því sama mæli og nú.

Í gegnum 0,059 m2 glugga sem að jafnaði stendur á skrifborðinu mínu fer lygilega stór hluti samskipta minna við umheiminn fram. Í gegnum þennan litla glugga er ég að vinna, fræðast, samskipta og stytta mér stundir.

Í tölvunni / á netinu er ég að:

  • Lesa mér til um efni tengt kúrsunum sem ég er í
  • Lesa mér til um hluti ótengda kúrsunum, en sem eru áhugaverðir í víðara faglegu samhengi
  • Lesa um hluti sem koma engu faglegu samhengi við, en fanga samt athygli mína
  • Lesa um líf og tilveru vina, kunningja og bláókunnugs fólks
  • Skrifa mitt innlegg í samfélag vina, kunningja og bláókunnugs fólks sem einhverra hluta vegna kjósa að opinbera ritræpur sínar öðrum til aðgengis
  • Vinna minn hluta af skólaverkefnum
  • Lesa annarra hluta af skólaverkefnum og reyna að svara með uppbyggilegum athugasemdum
  • Samskipta við opinberar stofnanir og banka eftir þörfum og nauðsynjum
  • Vinna í verkefnum fyrir vini og kunningja sem ég vonast til að fá (mismikið) greitt fyrir
  • Vinna í eigin verkefnum (t.d. eilífðarklisjunni um uppfærslu á thorarinn.com)
  • Og sitthvað fleira sem ég annað hvort man ekki eftir eða kýs að gefa ekki upp opinberlega

Tilgangurinn með þessari upptalningu er ekki að sýna fram á að netið sé merkilegt eða að ég kæmist ekki af án tölvunnar minnar (þótt hvorttveggja sé satt og rétt), heldur hvernig skilin milli skólavinnu og frítíma verða óljós.

Þegar ég sit við nákvæmlega sömu aðstæður hvort sem ég er að "vinna" eða "eiga frí" renna skilin saman. Þegar við bætist hvað skilin milli eðlis einstakra verkefna eru óljós flækist myndin enn. Hvenær er ég að lesa grein á vefnum vegna þess að hún tengist verkefni sem ég er að vinna, hvenær vegna þess að ég hef almennan áhuga á viðfangsefninu og hvenær einfaldlega vegna þess að ég nenni ekki að vera að gera neitt af viti?

Undanfarið hef ég fundið meira og meira fyrir því hvað þessi mörk eru óljós. Í stað þess að vinna þegar maður er að vinna og vera í fríi þegar maður er í fríi rennur tilveran framan við gluggann saman í tilviljanakennda samfellu og dagarnir gufa upp.

Auðvitað veit ég hvert svarið er: Sjálfsagi. Ég ætti að skipuleggja daginn framundan; læra/vinna á ákveðnum tímum, taka mér hlé á ákveðnum tímum og vinna fyrir sjálfan mig á ákveðnum tímum - alltaf meðvitaður um það í hvaða vinnugír ég sé þá stundina. Ég ætti að marka ákveðna tíma til að sinna líkamsrækt og ég ætti að nota ólík vinnuumhverfi til að marka skil þarna á milli; fara út í skóla til að vinna og vera heima í frítímanum.

Verst að sjálfsagi er ekki mín sterkasta hlið.

(En ég stend mig ágætlega í að safna hári.)


< Fyrri færsla:
Urgur í heimamönnum
Næsta færsla: >
Flottir treilerar
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry