Einkenni umferðarbjána: bremsuljósin?

Það er vissulega þversögn fólgin í því að hægt sé að sjá hverjir í þjóðvegaumferðinni kunni ekki að keyra á því hversu mikið þeir nota bremsurnar, en eftir rúnt upp í Borgarfjörðinn um helgina er ég kominn á þá skoðun. Ökumenn sem ofnota bremsurnar kunna ekki að keyra.

Við skruppum í heimsókn í sumarbústað hjá pabba Alexöndru uppi í Borgarfirði (nánar tiltekið í Munaðarnesi) eftir vinnu á föstudag og ókum aftur í borgina um svipað leyti á laugardeginum.

Ég held ég fari rétt með að við höfum mætt/ekið fram hjá 5 lögreglubílum/mótorhjólum frá Ártúnshöfðanum að göngunum og umferðin gekk vel þótt nokkuð þétt væri.

Það var svo strax eftir hringtorgið handan við göngin sem fyrsti jeppavitleysingurinn brunaði fram úr okkur, til þess eins að lenda (fyrirsjáanlega) í bílaröðinni sem var um hálfum kílómetra framar.

Við ókum hann svo uppi nokkru síðar og ég fussaði reglulega yfir ökulaginu á honum og næsta bíl þar fyrir framan.

Báðir voru greinilega uppteknir af því að taka sem minnst pláss á þjóðveginum með því að hafa framstuðarann upp við dráttarkrókinn á bílnum fyrir framan.

Fyrir vikið voru þeir linnulítið að stíga á bremsurnar þegar bilið styttist enn meira. Við sem héldum okkur ca. þremur sekúndum fyrir aftan gátum hins vegar látið nægja að slaka aðeins á bensíngjöfinni til að hægja á.

Á níutíu kílómetra hraða á þjóðvegi þar sem umferðin er ekki nema í meðallagi á ekki að þurfa að nota bremsurnar neitt (svo lengi sem ekkert óvænt kemur upp á). Ef það að slaka á bensíngjöfinni dugir ekki til er maður einfaldlega of nálægt bílnum fyrir framan.

Og hana nú.

Í góðu yfirlæti

Þetta var annars fín dvöl og vel gert við okkur í veitingum og félagsskap. Eftir letilegan laugardag brunuðum við svo í bæinn til að fara á sýningu af Memento Mori (sem hvorugt okkar hafði séð).

Bakaleiðin

Á bakaleiðinni var umferðarþunginn ívið minni, en ökubjánarnir létu engu að síður á sér kræla. Einn tók til dæmis fram úr okkur strax eftir Borgarnes og síðan fram úr öðrum stuttu síðar, til þess eins að beygja inn á Akranessafleggjarann innan við 10 sekúndum áður en við ókum þar framhjá.

Rétt fyrir göngin vorum við svo þriðji bíll í svolítið hægfara bílalest. Mér fannst hins vegar ekki taka því að fara fram úr lestarstjórunum tveimur, en það þótti hins vegar ökumanni á jeppa sem var einhverjum 6 "sætum" fyrir aftan okkur og ók hann fram úr allri lestinni í tveimur áföngum.

Þeir leynast víða bjálfarnir.


< Fyrri færsla:
Bókafíknin grípur grúskarann
Næsta færsla: >
Eini rétti Biflíuskilningurinn?
 


Athugasemdir (1)

1.

Jón H reit 29. júlí 2007:

Þú ættir að prófa að keyra á Ítalíu minn kæri ;)

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry