Stórfréttir, minns á leið í hnapphelduna!

Hlutirnir gerast hratt á öldinni sem fylgir í kjölfar gerfihnattaaldarinnar og nú er ég á leið í trúlofunarveislu (míns eigins!) í Jemen! Það er ekki líkt mér að taka upp á einhverju svona en það er einmitt það sem gerir þetta svo spennandi.

Fyrir nokkrum vikum fékk ég tölvupóst frá ungri konu sem hafði þvælst hér inn á vefinn minn fyrir tilviljun. Ég svaraði henni auðvitað eins og herramanni sæmir og það leiddi af sér fjölmarga klukkutíma af MSN spjalli. Hún heitir Anna og býr í Jemen (sem er örlítið lengra í burtu en t.d. Færeyjar).

Ég ætla nú ekki að ganga svo langt að kalla hana arabaprinsessu, en pabbi hennar er vel stæður bissnissmaður - svo vel stæður að hann á einkaþotu og núna í lok mars kom Anna í heimsókn til Íslands með stuttum fyrirvara.

Til að gera langa sögu stutta er ég ástfanginn upp fyrir haus og við búin að ákveða að gifta okkur! Fyrsta skrefið verður trúlofunarveisla að jemenskum sið núna um páskana þar sem til stendur að stefna saman foreldrum okkar og gefa mér færi á að kynnast landinu.

Eins og Chandler Bing orðaði það: "I'm going to Yemen!"

Það eru 6-7 sæti laus í þotunni á leiðinni út og í anda alls þessa ætla ég að opna fyrir netskráningu á þau sæti (rétt eins og í verðlaunakeppni um páskaegg eða miða á tónleika). Ef þú kannast eitthvað við mig og hefur áhuga á að kíkja til Jemen um páskana og taka þátt í þriggja daga veislu með uppstoppuðum úlföldum og ég veit ekki hverju, sendu mér þá póst á yemen@thorarinn.com. Þetta verður einfaldlega fyrstir koma fyrstir fá!

PS. Og svo er ég kominn aftur í vinnuna, allur að hressast - enda á leið til Jemen eftir viku!

"I'm going to Yemen!"

Uppfært: Já, þetta er aprílgabb - það er rétt hjá þér.


< Fyrri færsla:
Dagbók sjúklings
Næsta færsla: >
Så har man fødelsesdag
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry