Páskapiparsteik piparsveinsins - byrjendaleiðbeiningar

Aðaluppistaðan í piparsteik piparsveinsins er pipar. Góður slatti af pipar. Og piparsósa. Og kjöt. Þetta eru aðalatriðin, annað meðlæti er bara bónus. Allt ofantalið ætti að fást í næstu matvöruverslun og í sumum verslunum er jafnvel hægt að velja kjötið úr kjötborði. Piparsveinninn verður þó að meta það í hverju tilviki hvort það sé kostur, því reynslan virðist sú að það er sama hvaða kjöttegund afgreiðslumenn í kjötborðum eru spurðir um, þær eru allar mjög góðar á grillið eða pönnuna.

Bjóði veðrið upp á slíkt er einmitt upplagt að grilla páskapiparsteik piparsveinsins á útigrilli, annars er hægt að steikja hana á pönnu. Hér verður lýst síðarnefndu aðferðinni.

Eins og áður segir þýðir ekkert að spyrja afgreiðslumennina, þess í stað er best að kaupa bara það kjöt sem virðist girnilegt hverju sinni (og fjárráð leyfa). Kjötmagnið sem keypt er fer eftir lyst og magamáli piparsveinsins og því hvort von er á gestum eða ekki. Almennt þykir 200-250 grömm hæfilegur skammtur á mann. Ef ekki er gert ráð fyrir öðru meðlæti með kjötinu en pipar og piparsósa er þó rétt að reikna með örlítið meira magni.

Alvöru piparsveinar vita sem er að það þýðir ekkert að eiga kartöflur, þær spíra bara og skemmast. Hér er því gert ráð fyrir að hrísgrjón séu sterkjumeðlæti máltíðarinnar. Það er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að sjóða kartöflur ef þú átt þær (um að gera að borða þær áður en þær fara að spíra). Gert er ráð fyrir að piparsveinninn sé fær um að sjóða hrísgrjón, annars er hætt við að matseldin að öðru leyti reynist honum ofviða.

Kjötið er sett á disk og skornar af því himnur eða sinar sem kunna að vera sýnilegar. Til þess er rétt að beita betri hnífum heldur en ég hef yfir að ráða. Síðan er kjötið piprað. Best fer á því að mala piparkorn í piparkvörn. Aukapiparsveinastig fást ef kvörnin er rafmagnsknúin.

Nú þarf piparsveinninn að sýna fjölhæfni sína og skipulagshæfileika því margt þarf að gerast samtímis. (Hrísgrjónin ættu að vera farin að sjóða þegar hér er komið sögu). Matarolía er hituð á pönnu og nokkur hvítlauksrif pressuð á þessa sömu pönnu. Alvöru piparsveinar nota grófu stillinguna á hvítlaukspressunni. (Hvítlaukurinn er strangt til tekið ekki nauðsynlegur, en hann gefur matseldinni fagmannlegan blæ og góða lykt í eldhúsið). Bent skal á að það þykir mjög heimilislegt ef piparsveinar eiga hvítlauk í ísskápnum og þótt þeir eigi það til að spíra eins og kartöflurnar er ástæðulaust að óttast það. Hvítlaukurinn er látinn brúnast meðan feitin hitnar.

Þá er það liðurinn sem gerir máltíðina að alvöru máltíð; salatið. (Sjá þó það sem segir ofar, allt umfram kjöt og pipar telst bónus). Til eru ótal útgáfur og uppskriftir af salati, en sú einfaldasta er líklega að kaupa poka með niðurskornu kálmeti í matvöruverslun (t.d. þeirri sem kjötið er keypt í) og kaupa síðan litríkt og/eða bragðgott grænmeti til að brytja út í kálgrunninn. Má þar nefna túmata og paprikur. Salatdressing fer eftir smekk hvers og eins (og ástandi ísskápsins) - einfaldasta útgáfa er líklega að sletta bara smá ólífuolíu yfir salatið. Fyrir þá piparsveina sem fallast hendur við tilhugsunina um salat skal enn vísað til þess sem áður segir og áhersla lögð á kjötið.

Leiðbeiningar um suðu piparsósunnar er að finna á pakkanum. Sósan mun gera sitt besta til að sjóða upp úr. Það er eðlilegt og ekki ástæða til að örvænta. Sé sósan við það að sjóða upp úr er gott heimilisráð að lyfta pottinum upp af hellunni og kæla hana þannig. (Hafi piparsveinn reynt að blanda sósuna beint á hellunni án potts er honum ráðlagt að hætta strax frekari tilraunum til eldamennsku og panta sér pizzu).

Þegar olían er orðin heit er kjötinu skellt á pönnuna. Innan skamms gerist annað tveggja; olían fer að snarka af miklum móð og slettast út um allt eldhús eða að lok er sett á pönnuna og innan skamms fara að heyrast hljóð eins og popp er poppað. Fyrir þá sem lítið þekkja til eðlisfræði matreiðslu skal útskýrt að þegar safi fer að leka úr kjötinu gufar vatnið úr safanum upp, það þéttist síðan innan á loki pönnunnar og fellur sem dropar niður í heita olíuna sem aftur veldur hvellsuðu með tilheyrandi hvelli. Minnka má þessi áhrif með því að hafa lokið aðeins á pönnunni til hálfs eða beita öðrum aðferðum til að hleypa gufunni út.

Tímalengd steikingar fer alfarið eftir kjötmagni og þykkt bitanna. Gott húsráð er að taka til athugunar kjötbita þegar kjötið lítur út fyrir að vera tilbúið og prófa að skera í hann til að kanna hvort hann er tilbúinn. Alvöru matreiðslumenn myndu aldrei skera í kjötið heldur vita af næmni sinni og þekkingu nákvæmlega hvenær kjötið er hæfilega steikt. Þessi upptalning er hins vegar ekki ætluð alvöru matreiðslumönnum og ef þeir eru enn að lesa mæli ég með að þeir hætti því hið snarasta.

Þegar kjötið dæmist hæfilega steikt er ráðlegt að borða það ásamt því meðlæti sem piparsveinninn hefur kosið að tilreiða. Ekki verða gefnar sérstakar leiðbeiningar um það hvernig kjötsins skal neytt. Með máltíðinni má drekka hvað sem piparsveini sýnist og fjárhagur leyfir. Þó er ekki mælt með drykkjum með áfengishlutfalli mikið yfir 40 prósent, þar sem slíkir drykkir valda því að piparbragðið nýtur sín síður.

Alvöru piparsveinar láta svo uppvaskið bíða til morguns.


< Fyrri færsla:
Páskalingur laus til umsóknar
Næsta færsla: >
Postpáskagreining
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry