Heimsóknir, heimsókn, metall og fleira

Það sem af er viku hefur verið nokkuð tíðindalítið, en þó ekki. Við systkin fórum í vel heppnaða veislu til fertugrar móðursystur á mánudagskvöldinu. Þar vantaði reyndar Ella og fjölskyldu sem voru á leið heim úr veiðiferð. Á þriðjudagskvöldinu brunuðum við systkinin því í kvöldmat í Hafnarfirðinum annað kvöldið í röð og snæddum aflann, listilega matreiddan með mangó-chutney og hnetum.

Á morgun fæ ég svo nokkra gamla vinnufélaga í heimsókn og að sjálfsögðu verður grillað ofan í þá. Þar hefur verið tekin sú stefna að bjóða ekkert upp á kartöflur eða annað kolvetnagrín; bara kjöt, grænmeti og sósu! (Kannski eitthvað rauðleitt í glas ef stemmningin er þannig).

Ég sá mig af því tilefni tilneyddann að snurfusa aðeins íbúðina, en þar sem hlutfall Y-litninga verður með hæsta móti á morgun lét ég allt smáatriðapjatt eiga sig. Mokaði bara stærstu haugunum inn í vinnuherbergið, kláraði að ganga frá þvottinum og moppaði mjög lauslega yfir parketið.

Síðastliðinn sunnudag keypti ég mér Kill 'em all á tilboði og undanfarið hefur Metallica verið á repeat í spilaranum (reyndar frekar lágt af tillitssemi við nágrannana). Sum laganna á "KEA" höfðu forðum daga ratað inn á ógurlega safnkasettu sem Kristleifur fornvinur minn bjó til rétt um miðbik ævi minnar og ég síðan spilað í tætlur. Ég stend sjálfan mig að því að muna í sumum lögunum enn þann dag í dag nákvæmlega hvenær verður taktbreyting eða nýtt sóló byrjar. Reglulega flýgur svo í gegnum kollinn á mér: "[dónaleg upphrópun að eigin vali], hvað þetta verður mikið stuð!"

Þess má einnig geta að mér sýnist af heimasíðu ITU að nafnið mitt sé komið á skrá í fyrsta árs kúrsunum. Ég mun fá notendanafnið "thorarinn" og eflaust netfang í stíl. (Allt í einu átta ég mig á því hvað það er langt síðan ég hef verið með toro@eitthvað netfang, síðast var það líklega hjá Kveikjum.) (Reyndar á ég svoleiðis @visir, @strik og @mi, en það telst kannski ekki með).

Hins vegar sýnist mér að krafa dananna um dönskupróf (sem ég vék mér undan með hjálp góðra manna) hafi dugað til að fæla aðra Íslendinga frá, a.m.k. eru engin íslensk nöfn í þessum grunnkúrsum sem ég er skráður í. Hins vegar held ég að Köben sé hvort eð er full af Íslendingum (sumum m.a.s. fullum) svo ég þarf varla að óttast að tapa niður Íslenskunni þessa tvo stuttu vetur.

Að lokum má geta þess að leit að runkminni á Google undirstrikar enn hve náið samband okkar félaganna er orðið (þ.e. mín og Google).

Búið. Í bili.


< Fyrri færsla:
Húsabakkaminningar - fyrsti þáttur
Næsta færsla: >
Vel heppnað grill
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry