Fögur fyrirheit og barningur við danskt húsnæðiskerfi

Í morgunsturtunni (um tvöleytið) ákvað ég að koma mér í form til þess að taka þátt í 10km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu þriðja árið í röð. Samhliða þeirri ákvörðun horfðist ég í augu við það að ég myndi örugglega ekki nenna að byrja í átakinu í dag. Það varð líka raunin.

Mér sýnist að maraþonið verði haldið helgina sem ég hætti í vinnunni og ég held að ég slái nokkrar flugur í 10km höggi með því að taka þátt í því. Ég þykist vita að það verði einhver spenna og streita sem fylgi fyrstu dögunum og vikunum í veldi Dana og þá er um að gera að hafa skrokkinn í góðum gír. Mig langar líka að sannreyna þá tilgátu mína að jafnvel þótt ég hafi lítið sem ekkert hreyft mig upp á síðkastið sé grunnform mitt nægilega gott til að ég geti komið mér í ásættanlegt form á rúmum mánuði. Það er bara verst hvað ég var helv. fljótur í fyrra (þökk sé ofurhéranum Jóni Heiðari) svo það er varla raunhæft að stefna að bætingu í ár.

Dagurinn fór annars að mestu í að glíma við meingallað vefkerfi. Ég ákvað að yfirfara umsóknirnar mínar um kollegí í Köben til að tryggja að allt væri klárt þegar ég verð gjaldgengur í fyrstu úthlutun núna 15. júlí. Þar er hins vegar búið að taka upp nýtt umsókna- og umsýslukerfi og það ætlaði gersamlega að gera mig brjálaðan. Vandinn er að sækja um á nægilega mörgum stöðum til að reyna að tryggja að maður fái einhversstaðar inni, en þó ekki að sækja um nema það húsnæði sem maður er raunverulega tilbúinn að búa í. Málið flækist síðan þegar upplýsingar eru mjög takmarkaðar: Næstum undantekningalaust fékk maður textann "Hér færðu nánari upplýsingar um íbúðargerðina sem þú valdir" þegar smellt var á "nánar" hnappinn - og ekkert meira. Þetta var greinilega textinn sem forritararnir höfðu sett upp í stað "Hér vantar upplýsingar". Ég ætla ekki að þusa yfir meingölluðu og ólógísku flæði, skorti á samræmingu í virkni, leitarfærslum sem duttu inn og út, og öðru því sem pirraði vefráðgjafann, en þetta kostaði mig rúmlega tveggja tíma barning og ég á eftir að fara betur yfir þetta í byrjun næstu viku.

Þegar ég hætti lox að bögglast í þessum skráningum var komið fram undir kvöldmat og ég ákvað að skreppa í smá hressingargöngu. Ég gekk í einhver þrjú kortér eða svo, um vesturbæinn og út fyrir Eiðistorg og kom við í Nóatúni á bakaleiðinni og keypti í kvöldmatinn. Við Eiðistorg tók ég eftir bíl sem ekið var mjög undarlega inn á stæðin við Hagkaup og þvælt þar um. Ég var orðinn sannfærður um að bílstjórinn væri kófdrukkinn og staldraði við til að fylgjast með afdrifum hans. Loks tókst honum leggja (með litlum glæsibrag), en það var ekki að sjá á fasi hans að hann væri drukkinn þegar hann kom út úr bílnum. Þar sem hann var líka með konu og ungt barn í bílnum kýs ég að trúa því að hann sé bara svona afspyrnulélegur bílstjóri og geti ekkert að þessu gert.

Kvöldið hefur svo farið í rólegheit og varpsgláp. Á morgun ætla ég að hjálpa til við tiltekt í geymslu Hugleiks og svo er það Metallica!

Rock on Wayne. Rock on Garth. Excellent!


< Fyrri færsla:
iBíll, Ford og nætur(b)rölt
Næsta færsla: >
Metalliclikkað
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry