Dýnupirr

Nú eru rúmlega tvær vikur síðan ég pantaði (og borgaði) yfirdýnu (sem gleymdist í IKEA) í Jysk hér á Amager. Ég hafði ekkert heyrt frá þeim og ákvað því að koma við í búðinni í dag. Niðurstaðan: Engin dýna og alls óljóst hvenær hún kemur.

Þótt boxdýnan mín sé prýðileg er hún of hörð ein og sér og suma morgna vakna ég þreyttur í hryggnum. Ég hélt ég væri að vinna tíma með því að fara í Jysk á Amager í stað þess að efna til annars IKEA leiðangurs, en ég hefði verið fljótari að ganga í IKEA og rúlla mér á yfirdýnunni til baka.

Strákurinn sem talaði við mig var svo sem kurteis og afsakandi en hann gerði enga tilraun til að fletta pöntuninni upp í tölvukerfinu. Þess í stað vonast hann til að hafi dýnan verið pöntuð(!) skili hún sér í byrjun næstu viku og að þau muni hringja í mig svo ég þurfi ekki að koma á staðinn. Hann fékk númerið mitt skrifað (aftur) niður á blað, en ég er sannast sagna svartsýnn á að neitt gerist.

Í versta falli mæti ég því á staðinn eftir viku og verð með leiðindi, heimta endurgreiðslu og reyni að finna aðra sængurfataverslun. Ekki minn stíll, en ég nenni þessu helvíti ekki.


< Fyrri færsla:
Sjáið verkið á undan höfundinum!
Næsta færsla: >
Mánuður liðinn
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry