The Dust of Death & Monty Python

Ég komst að því seinnipartinn í dag, mér til mikillar undrunar að skrifborðið mitt er þakið hvítu ryki. Þessi ryksöfnun virðist nýskeð því plastið utan af spjaldskrárspjöldunum og DVD myndinni sem ég keypti í gær eru meðal þess sem er hvítflekkótt. Ekki veit ég hvort þetta ryk dauðans er einhvern vegin að berast frá framkvæmdunum á neðri hæðinni, en það er ekki útilokað.

Nánari eftirgrennslan leiddi auðvitað í ljós að ryksöfnunin er ekki einskorðuð við skrifborðið heldur eru allir dökkir fletir í herberginu venju fremur gráleitir (og ljósir fletir eflaust alveg jafn rykugir þótt það sé minna greinilegt).

Ég er búinn að þurrka af því mesta með bleikum bróður afþurrkunarklútsins sem lét líf sitt í hljóðdempun rúmsins míns (sjá síðustu færslu), en nenni ekki að ryksuga í kvöld. Geri það kannski á morgun.

Að gefnu tilefni vil ég biðjast velvirðingar á því að ekki skuli vera hægt að fletta fram og til baka í þessari dagbók, t.d. þegar vitnað er í næstu færslu á undan. Stefnt er að því að úr því verði bætt í nýrri útgáfu sem er væntanleg fyrir næstu aldamót - eða ég liggja dauður ella.

Ég stenst hins vegar ekki mátið að stæra mig af DVD myndinni sem ég keypti í gærmorgun. Ég þurfti að skreppa í bókabúð til að kaupa spjaldskrárspjöld og á leiðinni út úr Amager Center rak ég augun í DVD kápu með John Cleese í röndóttri treyju standandi aftan við úthöggnu Monty Python stafina. Nafnið "Livet er Python" sagði mér ekkert, en einhverra hluta datt mér í hug að þetta væri kannski stórmyndin "And now for something completely different" sem ég gaf Ella bróður afrit af á menntaskólaárunum og var síðan spiluð gersamlega í strimla. Og viti menn!

Ekki spillti fyrir að hún var á gjafverði og var því snarlega keypt.

Bara það að sjá upptalninguna á kápunni;

  • The Dead Parrot
  • Nudge, Nudge
  • Upperclass Twit-of-the-year Competition
  • The World's Deadliest Joke
  • osv. osv.

kom mér strax í gott skap.

Þegar ég kom svo heim af Fredagsbarnum (óvenju snemma - próflestur og svona...) skellti ég disknum í og horfði á nokkrar senur. Merkilegt að ég hef ekki enn horft á Shrek 2 diskinn sem ég fékk í jólagjöf, né LOTR 3 überextended útgáfuna sem ég keypti í Fríhöfninni, en ég stenst ekki mátið að horfa á eldgamla gamanmynd þar sem ég kann næstum allar senur utan að.

Skemmtileg nostalgía að rifja upp kynnin af gömlum klassíkerum eins og:

  • How Not To Be Seen
  • Hells Grannies
  • The Man With A Taperecorder Up His (Brothers) Nose
  • English-Hungarian Phrase Book
  • How To Defend Yourself Against A Man Attacking You With A Banana

Ég ætla að treina mér restina yfir nokkrar setur, þannig að ég horfði ekki á nema þriðjunginn núna og á því ýmislegt gott í vændum.

"Grannies are no respectors of race, creed or sex. Their's is a harsh, ruthless world. A though world. A world in which the surgical stocking is king".

< Fyrri færsla:
Mr. Handyman
Næsta færsla: >
Kvef að morgni prófdags
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry