Bixí færsla

Fyrir þá lesendur sem aldrei hafa lifað á mötuneytisfæði er kannski rétt að útskýra fyrirbærið bixímat sem er í grunninn til kjöt(afgangar) og kartöflur, brytjað smátt, pönnusteikt, kryddað og borið fram með spældu eggi og mikilli tómatsósu. Uppruni kjötsins er alltaf töluverð ráðgáta og bixímatur vill oft minna á eins konar pönnusteikt bland í poka.

Hér er þó ekki ætlunin að fjalla um mat, heldur tína til sittlítið af hverju (svona meðan ég er að koma mér í gír að fara að skrifa formlega kæru vegna verkefnaprófsins okkar).

Byrjum á bjórnum...

Ég get ekki fyrir mitt litla líf munað hvað snobbbjór dagsins á föstudagsbarnum hét, en hann var belgískur og flaskan var töff að því leyti að nafnið og lógóið var prentað beint á flöskuna en smáa letrinu safnað á lítinn silfurlitaðan miða um hálsinn. Hann var svolítið weißbier-legur, en með ívið meiri ávaxtakeim. Frekar sætur, en alls ekki væminn. Bjórfræðingurinn Laust sem sat á borði með mér og tölvuleikjanördunum vildi meina að bragðupplifunin væri mjög háð því hvað maður hefði drukkið á undan og ég held það sé rétt hjá honum.

Þessi nafnlausi bjór var borinn fram í opnu glasi og minnti næstum á litsterkt hvítvín (með froðu auðvitað). Hann er 7,5% og maður fann það alveg að þessi litla flaska þrælvirkaði.

Þetta var annars rólegur bar og ég rölti heim um kvöldmatarleytið.

Ég á ekki í neinum vandræðum með að rifja upp nafnið á ódýra stórmarkaðsbjór vikunnar, hann heitir Thor Classic, bruggaður í Randers og virðist keyra á slagorðinu "Smager fint". Hann hefur reyndar ekki fengið formlega smökkun, en bragðast vel með mat.

Að sjálfsögðu get ég ekki látið vera að snobba aðeins fyrir bjór sem kemur frá "Thor Bryggerierne", þetta er næstum nafni minn!

Tíu ár frá skurði

Í vikunni voru tíu ár liðin síðan pabbi var skorinn upp og æxli fjarlægt úr ristlinum. Síðan hefur hann náð sér ótrúlega vel, sem eflaust sést best á því að hann hefur á síðustu fjórum árum tvisvar sinnum tekið þátt í 90 km Vasaskíðagöngunni og er að undirbúa að fara í þriðja sinn eftir rétt rúmlega ár.

Á sama tíma hef ég þrisvar sinnum hlaupið 10 km (a.m.k. opinberlega) og þar af í eitt skiptið með pabba sem varð á undan mér í mark. Þó hefur ekkert stærra en stíflaður fitukirtill enn verið skorið úr mér.

Það er óhætt að fullyrða að pabbi er í mun betra almennu formi en ég, þrátt fyrir 26 árin og x kílóin sem skilja okkur að. En maður hefur þá að einhverju að keppa :)

Ég er sannast sagna stoltur af gamla manninum (og held að við séum það öll systkinin). Ég vona bara að ég verði jafn sprækur á hans aldri.

Til hamingju með "afmælið" pabbi.

Uppfært: Rétt er að taka fram að kílóin sem skilja okkur að eru að langstærstum hluta vöðvamassi, enda alþekkt að pabbi er með eindæmum herðabreiður... að eigin sögn.

Týndi húsráðandinn snýr heim

Rétt í þessu var Andreas að koma heim eftir mánaðardvöl í Tælandi. Það var ekki annað að sjá en hitabeltisloftslagið og hrísgrjónin hafi farið ágætlega í hann. Kannski að hann hafi verið heldur lengi í hitanum, því hann birtist hér í hnésíðum buxum. Úti er strekkingsgola, hitastig rétt fyrir ofan frostmark og spáð snjóstormi seinnipartinn. Hann viðurkenndi að hann vissi ekki alveg hvað hann var að spá og að það hefði verið helvíti kalt að labba heim úr bússinum.

Heimkoman þýðir að ég þarf að venja mig af því að hlaupa nakinn um íbúðina.

Hlaupa er kannski heldur sterkt til orða tekið, en a.m.k. er rétt að ég vandi mig meira við að vefja handklæðinu um mig á leið úr sturtunni heldur en ég hef kannski gert undanfarnar vikur.

Hann byrjaði...

En nú ætla ég að bretta upp ermar og reyna að skrifa formlega kæru (eða klögu eins og baunar orða það) vegna verkefnaprófsins okkar. Henni þarf að skila á mánudagsmorgun þannig að ekki dugir að hangsa.

Þannig að ég er að fara að klaga kennarann okkar.

Meira síðar.

(Millifyrirsagnirnar líta kannski undarlega út, en það stafar af því að ég er að venja mig á að nota réttari "mörkun" - útlitsfínpússun bíður betri tíma.)


< Fyrri færsla:
Hlaupt á ný
Næsta færsla: >
Gulrótarsteik
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry