Bjór og bolti

Í gær var J-dagur hér í DK, þ.e. fyrsti dagurinn sem Tuborg Julebryg er selt. Allir barir byrja að selja hann á slaginu klukkan 20.59. Fimm mínútum síðar var ITU barinn búinn að selja rúmlega 300 lítra og birgðirnar búnar!

Þess ber reyndar að geta að líkt og barmeistarar tilkynntu í tölvupósti um atburðinn, þá eru þeir ekki sérlega klókir að lesa á klukku - þannig að þeir byrjuðu að selja jólabjórinn strax klukkan fjögur.

Ég mætti á svæðið rúmlega átta þar sem ég hafði mælt mér móts við Sigga, sem mætti með Jónínu og Ágústi (sem ég var að hitta í fyrsta skipti og er þar með búinn að hitta alla Íslíngana sem ég veit um í skólanum). Þegar ég kom á barinn voru smá tafir þar sem verið var að skipta um kút á jólabjórnum, ég fékk að lokum glas en eftir að hafa tæmt það og mætt aftur á barinn kom í ljós að allur jólabjórinn var búinn!

Seinna um kvöldið var mér bent á kútastæðuna og að af þeim væru 11 tómir jólabjórskútar. Mig minnir að bjórkútar innihaldi 30 lítra, þannig að þetta hafa verið um 330 lítrar seldir á 5 tímum (sem mér telst til að séu 2,2 hálfslíters bjórar á mínútu).

Í stöðunni var ekkert annað að gera en að skipta yfir í Tuborg Classic og halda sötri áfram. Við sátum lengstan part fjögur og kjöftuðum á íslensku um heima og geima, seinna spjallaði ég við nokkra danska kunningja og endaði á að verða samferða Hirti nágranna heim einhverntíman rúmlega tvö.

The morning after the night before

Í dag var svo stefnt á síðasta fótbolta ársins, tveimur tímum fyrr en venjulega, enda dimmir hratt þessa dagana.

Svo merkilegt sem það nú er að þegar vekjaraklukkan hringir um klukkan níu á venjulegum morgni þarf ég að berjast við að sofna ekki aftur, en í morgun þegar ég vaknaði vekjaraklukkulaust klukkan níu eftir um sex tíma takmarkaðan svefn gat ég ómögulega sofnað aftur.

Það hafðist þó að lokum og ég náði að sofa bæði laust og illa fram að hádegi og var ekki sérlega sprækur tjaldbúi þegar ég tók að reyna að koma lífi í skrokkinn.

Miðað við að ég drakk ekkert sérlega mikið fannst mér ég vera með grunsamlega mikil þynnkueinkenni (en trúlega var ég aðallega illa sofinn). Ég harkaði mér af stað (of seint að venju) og við Siggi hjóluðum uppeftir.

Á leiðinni var ég með eindæmum orkulaus og fór helst að gruna að ég væri að veikjast. Ég var ekki lengur beinlínis þunnur, hvorki með höfuðlega né skrokklega vanlíðan heldur bara orkulaus eins og maður verður eftir langa flensu.

Eins og ég sagði við strákana þá myndi boltinn annað hvort hressa mig við, eða punktera endanlega. Sem betur fer kom í ljós að það síðarnefnda varð raunin.

Við mættum sex og fengum til liðs við okkur tvo pjakka, á að giska 10 ára, sem voru þarna að sparka bolta. Búið var að fjarlægja öll mörk nema tvö sett af mörkum, keðjuð saman í pör þannig að það þurfti hálft fótboltalið til að hnika þeim til.

Mitt lið skoraði úrslitamarkið og við unnum 20-17 eftir að hafa verið 10-7 yfir í hálfleik. Það var litli pjakkurinn sem skoraði verðskuldað eftir að hafa sýnt heilmikla hörku og gegnt lykilhlutverki í sóknarleik okkar (en kannski ekki sýnt mjög strategíska varnartilburði - hann vildi helst verjast á móts við vítateig andstæðinganna).

Nú leggur FC Umulius skóna á hilluna fram á vor. Leikið hefur verið 14 sinnum, einu sinni hefur þurft að kalla til sjúkrabíl og það hefur aldrei rignt á okkur. Einu sinni tíndi reyndar einstaka dropa úr lofti við og við, en ekki þannig að hægt væri að kalla það rigningu. Tölfræðilega hefði ég haldið að þetta ætti ekki að vera hægt. (Og oft hefur rignt bæði fyrr og síðar um daginn - hér hefur t.d. verið drjúg rigning frá því um kvöldmatarleytið.)

Maður náði svo rétt heim fyrir myrkur um klukkan hálf-fimm, þægilega dasaður en laus við alla þynnkudrauga. Eftir teygjur og langa sturtu deyfði ég ljósin, setti Vivaldi "á fóninn" og skreið undir sæng til að "teygja aðeins úr mér" eins og Elis Eríksson, fyrrum vinnufélagi minn, var vanur að orða það.

Það var næstum júfórísk tilfinning að skríða undir sængina og laglínan "Þett' er yndislegt líf" flaug upp í kollinn. Þótt ég hafi ekki sofnað náði ég að slaka vel á dormaði aðeins. Eins og gera má ráð fyrir þegar maður leggst upp í rúm nýkominn úr sturtu nær hárið á mér rétt yfir tvo metrana í þessum rituðum orðum.

(Eða myndi gera það ef ekki kæmi tvennt til; ég skrifa þetta sitjandi og er tiltölulega nýklipptur.)

Ætlunin var að kíkja aðeins í bæinn með Steina og íslenskum vinum hans um kvöldið, en mætingu þar seinkaði til kl. 23 og þá var ég orðinn of syfjaður til að það væri nein glóra að leggja af stað. Hér sit ég því með vini mínum Jeff Buckley, sötra ískalt 7UP úr eldhúsinu og gjóa augum yfir á stórmyndir kvöldsins í sjónvarpinu.

Hlakka til að sofa út í fyrramálið.

Uppfært: Einu gleymdi ég; þegar við Siggi komum til baka og hjóluðum yfir Knippelsbro var verið að taka myndir af brúðhjónum á brúnni. Þau stóðu með bakið upp við handriðið og ljósmyndarinn stóð yst á hjólareininni. Hann hætti við að taka mynd þegar gæinn fyrir framan okkur hjólaði fram hjá, en tók ekki eftir okkur. Um leið og við hjóluðum framhjá í okkar rauðu vindjökkum, sveittir og þreyttir, smellti hann því af. Brúðurinn hafði tekið eftir okkur og kallaði eitthvað, en of seint.

Við vorum alvarlega að spá í að hjóla til baka og biðja um að fá sent eintak af myndinni, enda hlýtur hún að hafa verið alveg frábær (ég geri ráð fyrir að brúðurin hafi sett upp eftirminnilegan svip).

Ég held að þetta hljóti að vera í fyrsta sinn sem ég lendi á ljósmynd af brúðhjónum...


< Fyrri færsla:
Bomba skekur ITU: Barinn bannaður
Næsta færsla: >
Stílbrigði
 


Athugasemdir (1)

1.

Óskar Örn reit 09. nóvember 2005:

Eins og gera má ráð fyrir
þegar maður leggst
upp í rúm
nýkominn úr sturtu

nær hárið á mér
rétt yfir tvo metrana
í þessum
töluðum
orðum

Kæri vin. Án þess að hafa áttað þig á því (eða a.m.k. haft hátt um það) ertu orðinn ljóðskáld. Mér þykir ofangreind setning alger gullmoli!

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry