Ársskýrsla thorarinn.com 2005
07. janúar 2006 | 0 aths.
Í samræmi við nýlega tilkomna hefð verður hér gert grein fyrir nýliðnu ári eins og það horfði við ritstjórn thorarinn.com. Áhugasömum er einnig vísað á ársskýrslu 2004.
Ár námsmannsins
Samkvæmt mongólsku tímatali var árið 2005 ár námsmannsins (eða "ár bólugrafna söðlasmiðslærlingins" í beinni þýðingu). Það á vel við í tilviki ritstjórnar sem var í skóla í einni eða annarri mynd 10 mánuði ársins.
Árið hófst á fyrstu próftörn í nýju námi og gekk það framar vonum. Eftir að hafa verið í frekar "þægilegu" vali fyrstu önnina tók ég viðameiri kúrsa á vorönninni, með grunnáfanga í grafískri hönnun sem "skemmtilega kúrsinn". Verkefnin voru sömuleiðis viðameiri en á fyrstu önninni og flest unnin í hópavinnu. Lokatörnin í verkefnaskilum tók aðeins á, en að öðru leyti var þetta hin prýðilegasta önn og ýmislegt fróðlegt sem ég lærði.
Önninni lauk svo á fjögurra vikna verkefni um þróunina í stafrænni tónlist og vídeó sem ég skrifaði einn (í og með til að prófa hvernig það ætti við mig) og lox annarri próftörn. Meðaleinkunn þeirrar próftarnar var einum lægri en þeirrar fyrri, en þó ekkert til að skammast sín fyrir.
Á árinu voru þreytt 8 próf og dreifðust gefnar einkunnir eins jafnt og hægt er á bilinu frá 8 til 11. Það skilar sér í meðaleinkunninni 9,5 á danskan skala eða ca. 8,5 á íslenskum.
Á haustönn 2005 tók ég tvo kúrsa og vann að stóru verkefni um útsendingar (broadcast) í handheld tæki (t.d. farsíma). Mestur tími fór þó í að vinna að leiknum Balls sem lokaverkefni í Flash kúrsinum sem ég tók. Það var mjög skemmtilegt verkefni (en krefjandi á köflum) og hefur niðurstaðan almennt fengið góðar undirtektir.
Klakavisitasjónir
Ég fór ekki heim í páskafríinu og kom því til Íslands í fyrsta sinn frá jólafríinu í byrjun júlí. Eins og sönnum íslenskum námsmanni sæmdi fór ég beint í sumardjobb og vann við að útbúa nýjan vef ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtækisins Stika. Ég var á Íslandi í um það bil 7 vikur og telst til að fyrir utan helgar og lögbundna frídaga hafi ég tekið mér samtals 4 daga í frí.
Næst tyllti ég svo tá á klakann að kvöldi 22. desember í upphafi jólafrís sem hefur þegar verið vandlega fært til bókar.
Eins og verða vill náði ég ekki að hitta nærri því alla sem ég gjarnan hefði viljað á árinu, en held áfram að reyna.
Persónuhagir og áform
Við upphaf ársins 2006 er ég búsettur á stúdentagarði í Danmörku, fyrir höndum er lokaönnin í Cand.IT náminu sem verður tekin í að skrifa mastersritgerðina. Efni ritgerðarinnar er enn óljóst en mun vonandi skýrast á næstu vikum. Námslok eru áætluð í september.
Ég er einhleypur, stuttklipptari en ég var stærstan hluta ársins 2005 og ágætlega stemmdur á sál og líkama. Jólavigtun á stafrænni vog leiddi í ljós að ég er 84 kíló og þar með einu kílói þyngri en ég var þegar ég útskrifaðist úr menntaskóla á síðustu öld (jafnaðarþyngdaraukning um 80 grömm á ári) og hef þar með náð að losna við íþynginguna sem varð vart við síðasta vor.
Framtíðaráformin eru óljós, en ég ætla að kanna hvaða atvinnumöguleikar standa til boða hér í Danmörkinni og taka ákvörðun í framhaldi af því. Ég kann ágætlega við mig hérna í .dk, en sakna þess auðvitað að hitta ekki fjölskyldu og vini oftar. Það er freistandi að prófa að vinna hér í 1-2 ár, en þá að því gefnu að ég finni eitthvað áhugavert starf.
Rekstraryfirlit thorarinn.com
Á liðnu ári rýrnaði nokkuð handbært fé félagsins og langtímaskuldir jukust. Þessi þróun var í samræmi við áætlanir og er ekki til að hafa áhyggjur af.
Erlendir húsaleigusamningar voru teknir til endurskoðunar og náðist þannig fram bæði fjárhagsleg og aðstöðuleg hagræðing.
Fasteignir félagsins á Íslandi hafa verið í útleigu og standa leigutekjur undir afborgunum og lögboðnum gjöldum. Fasteignaverð hefur ekki verið uppreiknað af lögvernduðum fagmönnum, en gera má ráð fyrir því að það hafi hækkað í samræmi við markaðsþróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu.
Hlutabréfasafn félagsins sýndi jákvæðan vöxt á árinu.
Lykiltölur úr rekstri dagbókar
Á árinu voru færðar til bókar 304 dagbókarfærslur. Mjög lauslega áætlað jafngilda þær rúmlega 750 þúsund slögum og rúmlega 130 þúsund orðum. Miðað við 2100 slög á blaðsíðu jafngildir það rúmlega 360 prentuðum blaðsíðum, en hafa ber í huga að hluti slaganna er vegna mörkunar og því "ósýnilegur".
Þess má geta að með samskonar útreikningum samsvarar dagbókin öll rúmlega 1,5 milljón slögum eða 274 þúsund orðum í 584 færslum.
Mældar heimsóknir á árinu voru 43.049, sóttar síður voru rúmlega 115 þúsund og samanlög gagnaumferð samsvarar um 4,7 GB.
Eftir að athugasemdakerfi var virkjað í byrjun apríl hafa 216 athugasemdir verið skráðar, þar af 75 frá ritstjóra. Hér eru spamfærslur (sem voru fjölmargar á árinu) ekki taldar með, enda var þeim jafnharðan eytt og forritun breytt til að spyrna við fótum.
Markmiðssetning
Ekki er gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á rekstri thorarinn.com á árinu. Ritstjórn vonast til að vinna að lokaverkefni verði spennandi og skemmtileg reynsla, og mun reyna að vinna að því á árinu að útvíkka tengsla- og kunningjanet sitt hér í höfuðborginni.
Á þessu stigi er ekkert hægt að segja til um hvar höfuðstöðvar ritstjórnar verða að ári, en lesendur eru fullvissaðir um að gerð verður grein fyrir þróun þess máls í ítarlegum langlokum eftir því sem við á.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry