Stefnuskrá um almenningssamgöngur

Eftirfarandi færsla var rituð í byrjun desember til að koma mér í gang í verkefnavinnunni. Nú þykir mér kominn tími á að gefa hana út, sér í lagi í ljósi umræðu undanfarið um gjaldskrá Strætó.

Prologus

Nú fer að líða að sveitastjórnarkosningum á Íslandi og líkt og venjulega er við því að búast að rykið verði dustað af gömlum innantómum slagorðum og reynt að hnýta í pólitíska andstæðinga. Minnihlutar um allt land munu ásaka sitjandi meirihluta um bruðl og bókhaldsfiff, fjálglega verður rætt um skipulagsmál (með manneskjuna í öndvegi – að sjálfsögðu), mikilvægi þess að flytja opinber störf út á land o.s.frv., o.s.frv.

Eini munurinn frá síðustu kosningabaráttu verður liturinn á kjólum og hálsbindum frambjóðenda á kosningamyndunum. Hugsanlega verða líka einhverjir frambjóðendur komnir með ný gleraugu.

Til að leggja sitt af mörkum til málefnalegrar umræðu hefur ritstjórn thorarinn.com ákveðið að leggja fram stefnuskrá um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu til frjálsra afnota fyrir frambjóðendur allra flokka. Stefnuskrá þessi er lögð fram í “public domain” og hana má nota að vild, breyta og bæta án þess að þörf sé á að geta heimilda.

Stefnuskráin er einkum byggð á reynslu ritstjórnar af því að nota annars vegar almenningssamgöngur í Kaupmannahöfn og hins vegar leiðarkerfi Strætó bs., bæði fyrir og eftir breytingarnar sem gerðar voru síðasta sumar. Einnig hefur hér áhrif faglegur áhugi ritstjórnar á notagildishönnun og aðgengileika.

(Tekið skal fram að ritstjórn hefur ekki tekið íslenskan strætisvagn síðan í lok ágúst, en gengur út frá því að ekki hafi orðið neinar marktækar breytingar síðan þá.)

Stefnuskráin miðast við þær breytingar sem stjórn Strætó bs. getur ákveðið og hrint í framkvæmd, þannig er t.d. ekki fjallað um umferðartæknilegar hugmyndir á borð við umferðarljósastýringu og sérstakar akgreinar fyrir strætisvagna.

1. Frítt í strætó

Fyrsta og mikilvægasta markmið stefnuskrárinnar er að það verði ókeypis að nota þjónustu Strætó. Til að byrja með verði þetta tímabundið tilraunaverkefni í eitt eða tvö ár og árangurinn metinn að því tímabili loknu.

Aðaláskorun íslenskra almenningssamgangna er að sannfæra fólk um að nota þær, koma því á bragðið. Hér er upplagt að nýta velþekkta sölutækni og gefa fyrsta skammtinn frítt meðan verið er að sannfærast um að almenningssamgöngur séu raunhæfur valkostur.

Eins og staðan er í dag er “casual” notkun á strætisvögnum næstum ómöguleg. Fæstir eru með rétta skiptimynt á sér og geta því ekki stokkið upp í næsta vagn að vild, eins og hægt er t.d. með leigubíla sem taka alla greiðslumiðla.

Þetta yrði að sjálfsögðu nokkuð kostnaðarsamt, en án þess að hafa áreiðanlegar tölur í höndum áætlar ritstjórn að kostnaðurinn við að hafa frítt í strætó í eitt ár á öllu höfuðborgarsvæðinu jafngildi broti af kostnaði við mislæg gatnamót; kannski einni akrein á gatnamótum eða svo.

Ritstjórn vitanlega tekur ríkissjóður ekki þátt í rekstrarkostnaði almenningssamgangna, en greiðir hins vegar bróðurpartinn af kostnaði við umferðarmannvirki á stofnbrautum. Fjölgun farþega með almenningssamgöngum er klárlega þjóðþrifamál og eðlilegt að ríkið komi að verkefninu í samvinnu við sveitarfélög.

2. Nöfn á allar strætisvagnastöðvar

Til þess að nota núverandi strætisvagnakerfi er nauðsynlegt að hafa mjög góða þekkingu á borginni. Tímatöflur gefa aðeins tíma á einstaka götum og ómögulegt fyrir t.d. ferðamenn að átta sig á því hvenær vagn sé væntanlegur að þeirra stoppistöð.

Einfaldasta leiðin til að leysa þetta er að gefa öllum stoppistöðvum nafn, t.d. nafn næstu hliðargötu eða vel þekkts kennileitis. Fyrir hverja stoppistöð er svo útbúin tímatafla sem sýnir nákvæmlega hvenær hvaða vagn kemur að þeirri stöð (tímatöflur í sitt hvorri akstursstefnu, þ.e. sitthvoru megin götunnar, verða að sjálfssögðu ólíkar).

3. Forgangsröðun upplýsinga

Auk þess að gefa stoppistöðvum nafn þarf að meta hvaða upplýsingar eru mikilvægast að veita notendum hverju sinni, t.d. á stoppistöðvum. Hér verði stuðst við reynslu annarra þjóða, t.d. Dana.

Núverandi upplýsingaskilti á stoppistöðvum í Reykjavík sýna til dæmis nákvæmar akstursleiðir og (ónákvæmar) tímatöflur allra leiða.

Strætisvagnaskilti í Kaupmannahöfn sýna hins vegar stílfærð kort með akstursleiðum sem gefa yfirsýn yfir það hvaða leiðir aka í hvaða hverfi. Á sérstökum standi sést greinilega nafn viðkomandi stöðvar, hvaða leiðir stoppa við þessa stöð og töflur sem sýna nákvæmlega hvenær búast má við vagninum (gefið upp í klukkustundum og mínútum eftir vikudögum, t.d. 15:45 á virkum dögum). Á hinni hlið standsins er akstursleiðin birt í formi lista yfir nöfn stoppistöðva.

Skematísk kort gefa mun einfaldari yfirsýn yfir akstursleiðir heldur en nákvæm kort; flestir farþegar hafa hugmynd um í hvaða hverfi þeir eiga erindi, það að sjá nákvæmlega hvaða götur vagninn fer skiptir minna máli.

Farþegi sem ætlar að taka strætisvagn A og síðar skipta yfir í vagn B, þarf á að halda upplýsingum um það hvar leiðir þeirra skarast (sést á kortinu) og klukkan hvað næsti vagn A er væntanlegur. Upplýsingar um það hvenær A og B eru væntanlegir á fyrirhugaða skiptistöð skipta í raun minna máli, enda ljóst að farþeginn kemst hvort eð er ekki fyrr upp í vagn B en A er kominn á skiptistöðina.

Sé þörf á að skipuleggja ferðir miðað við komutíma á áfangastað er eðlilegast að það sé gert með aðstoð ítarlegra leiðarkerfis eða sjálfvirks leiðarráðgjafa á vefnum (sem þegar er til staðar á vef Strætó). Bæklingar með smáatriðum um akstursleiðir eiga að sjálfsögðu að liggja frammi í öllum vögnum.

4. Skýr sjónræn aðgreining stofnleiða og almennra

Strætisvagnar sem aki stofnleiðir séu skýrt aðgreindir frá vögnum á almennum leiðum.

Í Kaupmannahöfn eru A-leiðir auðkenndar með rauðum lit á stoppistöðvum og vagnar sem aka á A-leiðum eru auðkenndir með rauðum röndum. Sama á við um S-leiðir sem eru merktar með bláu. Almennir vagnar eru algulir og sömuleiðis merkingar þeirra leiða á stoppistöðvum. Þetta auðveldar mjög farþegum að átta sig á því hvers konar vagn er að koma, löngu áður en hægt er að lesa númer þeirra.

5. Aldrei aftur smámyntir

Verði horfið frá því að hafa ókeypis í almenningssamgöngur að tilraunatímabili loknu er nauðsynlegt að hverfa frá kröfu um að farþegar séu með nákvæmt fargjald á sér.

Núverandi greiðslufyrirkomulag fyrir stakar ferðir er allt of fráhrindandi fyrir þá sem vilja geta tekið næsta vagn án þess að þurfa að skipuleggja það með löngum fyrirvara.

Hér væri eðlilegast að huga að smartkortakerfi á borð við það sem notað er í Hong Kong, þar sem nota má kort (með áfylltri innistæðu) til að greiða í almenningssamgöngur, stöðumæla, sjálfsala og fyrir fjölmarga aðra þjónustu.

Ef slíkt er tæknilegum vandkvæðum bundið er lágmarkskrafa að strætisvagnastjórar geti gefið til baka. Það geta þeir í Kaupmannahöfn og er ekki sjáanlegt að það ætti að reynast íslenskum bílstjórum ofviða. Reiðufé er hins vegar klárlega á undanhaldi og greiðslur með (smart)kortum það sem farþegar gera kröfur um.

Ítarlesning

Eins og áður segir byggir ofangreint á eigin reynslu og skoðunum ritstjórnar. Fyrir áhugasama má einnig benda á grein Ian Watson um úrelt skilti Strætó eftir breytingarnar síðastliðið sumar.

Sjá einnig færslu Þórunnar Grétu um hagfræði almenningssamgangna.


< Fyrri færsla:
Hnífakastarinn og tattúflóðið ógurlega
Næsta færsla: >
Trúnaður tilhugalífsins rofinn og níasta einkunnin
 


Athugasemdir (3)

1.

Þorbjörn reit 23. janúar 2006:

Algjörlega fullkomlega sammála. Ef kerfið á ekki að deyja drottni sínum verður að gera þessar breytingar.

2.

Óskar Örn reit 24. janúar 2006:

Ég les vefinn þinn yfirleitt í skorpum með svona viku millibili og er því venjulega að kommenta á e-ar eldri færslur enda ekki heiglum hent að fylgjast jafnóðum með öllum þínum skrifum, þú lúsiðni bloggari! Any way, ég sá hér framar að þú segist vera að gera e-a vefi fyrir nígerísk fyrirtæki. Er þetta rétt eða grín? Hingað til hefur það ekki beint þótt ávísun á heiðarlega viðskiptahætti og skilvísar peningagreiðslur þegar orðin "nígerískt" og "fjármálafyrirtæki" hittast í sömu setningu....

3.

Þórarinn sjálfur reit 24. janúar 2006:

Nígeríuverkefnið er staðreynd, þótt ég viti að það hljómi undarlega.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry