Tre døgns rapport

Eitthvað fór lítið fyrir nornabrennum mínum á föstudagskvöldinu. Við vorum nokkur hérna af hæðinni sem slógum saman í einnotagrill, salat og rauðvín og héldum okkar eigins litlu bál.

Prýðis hyggerí.

Eftir uppvaskið settumst við svo inn til Caroline og sátum þar að spjalli og sumbli. Þegar tími var kominn til að koma sér út áður en allar nornir yrðu horfnar í logana nennti ég ekki af stað (enda tæplega hjólafær eftir bjórsötrið). Lagðist því bara í leti fram eftir nóttu.

Flutn

Á laugardeginum hjólaði ég svo upp á Vesterbro að hjálpa Júlíu, Ingu Rún og Braga að flytja inn í nýja íbúð þar. Reyndar var verkinu svotil lokið þegar ég kom á staðinn, en fékk þó ánægjuna af því að taka þátt í að drösla hinum hvíta fataskáp dauðans upp á fjórðu hæð (þriðju skv. dönskum skilgreiningum).

Skápurinn var þungur, fyrirferðarmikill og hrikalega háll fyrir sveitta lófa. Við Brynjar gerðum heiðarlega tilraun til að brjóta með honum upp dyrnar hjá nágrannanum á annarri hæð. Það tókst ekki alveg, enda lenti Brynjar greyið á milli og tók því af skápnum mesta skriðþungann. Nokkrar glæsilegar skrámur á dyrakarminum urðu því einu ummerki hurðarbrotstilraunarinnar.

Að drösli loknu var boðið upp á bjór og pissur og ég hjálpaði svo við að skrúfa saman skrifborð og húsmuni ýmsa meðan við biðum eftir að Bragi og Brynjar kæmu hjólandi með sjónvarp til að horfa á leikinn.

Það vildi svo til að Björk kunningjakona þeirra var sama dag að flytja úr stigagangi í sömu götu, hluti af hennar búslóð hafði þegar verið borinn upp til Júlíu og co. (þar á meðal áðurnefndur hvíti fataskápur dauðans). Við fórum svo yfir og hjálpuðum Björk að bera afganginn af búslóðinni niður þegar bíllinn hennar kom.

Held ég hafi aldrei komið í stigagang með eins slitnum tröppum. Tröppubrúnirnar voru rúnnaðar hálft fet inn og ég hafði alltaf á tilfinningunni að ég væri við það að renna niður úr tröppunnni.

Allt hafðist þó og enginn datt í þeirri umferð.

Verkfræðitilþrif

Ég þykist hafa átt nokkur spekingsleg tilþrif í hlutverki ráðgjafarverkfræðings meðan á innflutningum stóð. Þurfti að vísu að hita upp á því að skrúfa saman IKEA skrifborð þar sem við Halla vorum búin að gera öll möguleg mistök þegar gripurinn lox var saman kominn.

Eftir það lá leiðin upp á við og ég leysti ráðgátuna um hillurnar sem ekki vildu láta skrúfa sig saman (gaflarnir voru á haus), veitti ráðgjöf við flutning á gríðarþungum fataskáp frá einum vegg yfir á næsta (sem fól meðal annars í sér Hulk-tilþrif mannsins í súpermannbúningnum, glæsilegan hilluhrunshljóðeffekt og notkun hvíts handklæðis).

Einnig var veitt ráðgjöf um sveifludempun stofuskáps, en þrátt fyrir tilraunir með vírherðatré tókst ekki að leiða til lykta fastspenningu þess sama skáps við stofuvegginn.

Íbúðin er annars prýðileg. Með gríðarstóru baði (á kaupmannahafnskan mælikvarða), meira að segja með baði (þ.e. baðkari) og það sem vakti ekki hvað minnsta athygli: Hraunaðri salernishurð.

Býður upp á gríðarlegan fjölda hraununar-klósett-brandara fyrir þá sem hafa gaman af slíku.

Men, fy fan då Sverige!

Þegar sjónvarpið var komið og búið að láta vídeóið sjálfstilla sig settumst við niður yfir leiknum.

Það kom greina að horfa á leikinn annað hvort í sænskri eða þýskri útsendingu, en danska TV2 varð fyrir valinu.

Mér fannst leikurinn valda vonbrigðum. Hann var eiginlega búinn áður en hann hófst almennilega og Svíar virtust ekki hafa neina trú á að þeir gætu unnið og eiginlega áhugalausir. Líklega var það nú bara af fordómum mínum, en mér fannst Þjóðverjarnir ekkert heilla mig, gerðu bara það sem þurfti til.

Eftir aðeins meiri bjór og spekingsleg tilþrif ákvað ég að koma mér heim um kvöldmatarleytið.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit um dugnað í tiltekt og/eða lestri varð ekkert úr neinu. Ég rakst á Caroline í eldhúsinu, dauðþreytta eftir að hafa staðið í pökkun allan daginn og spjallaði við hana þar til kvöldleikurinn byrjaði.

Fínn leikur, held enn að Argentína geti komist langt. Þótti þó minn maður Heinze örlítið taugaóstyrkur á köflum, en standa sig vel á flestum öðrum köflum.

Sunnudagstilvistarkreppa

Í þessum rituðum orðum hef ég ekki hugmynd um hvað ég á að gera af mér í dag. 23 stiga hiti og sól úti, þannig að ég nenni ekki að vera inni. Veit samt ekki hvort ég á að leika túrista eða bara draga fram bikiníið og leggjast á teppi í sólbað í bakgarðinum.

Same song

Komst eftir krókaleiðum yfir lögin af nýja Muse disknum sem á ekki að koma út fyrr en 3. júlí.

Ég þurfti virkilega að tvítékka að ég væri ekki að spila Absolution, fyrstu lögin eru nákvæmlega eins. Örlítið brugðið frá formúlunni í einstaka lagi, en annars bara sama tóbakið.

Mér fannst Absolution fín, en við fyrstu hlustun er það að fara í taugarnar á mér hvað þessi er nákvæmlega eins. Gef þessu samt séns í nokkrar spilanir í viðbót.

Nýr uppáhalds

Ég er búinn að eignast nýjan uppáhaldsbloggara: Sims-Lover<3.

Þvílíkt vald á stílvopnabúrinu og íslenskri tungu.

Óviðjafnanleg innsýn í líf íslensks unglings. Það er ekki lengur Únglíngurinn í skóginum heldur Únglíngurinn í simmsinu.

Njótið heil (en ekki spyrja hvernig ég rambaði á þetta).


< Fyrri færsla:
Nornir á bálið
Næsta færsla: >
Það rignir kortum...
 


Athugasemdir (4)

1.

elin reit 25. júní 2006:

hefur þú þá séð www.dailydancer.com? Mæli með honum, flottur gaur!

2.

Júlía reit 25. júní 2006:

Kærar þakkir Tóró fyrir hjálpina við flutningana og verkfræðitilþrif. Hilla, borð og skápur standa enn (skápurinn sveiflast þó til og frá en dettur varla úr þessu sjöníuþrettán)

3.

Inga Rún reit 26. júní 2006:

þúsund þakkir fyrir aðstoðina á laugardaginn. það er ekki oft sem maður flytur tvær búslóðir á einum degi... úfff og líkaminn aðeins farinn að kvarta...

4.

Þórarinn sjálfur reit 26. júní 2006:

Já, það örlar á eymslum í einstaka vöðvum ef grannt er leitað, en maður er alltaf feginn ef maður losnar við að finna til í bakinu eftir flutninga og það er fyrir mestu.

Á einhvern grunsamlegan hátt er ég pínu aumur í vöðvafestum neðan í hægra hné, held einna helst að það sé eftir að hafa dröslað til hinum hvíta skáp dauðans með löppinni - dettur a.m.k. ekkert annað í hug.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry