Endurhönnun nokkurra lógóa

Lógó eru töluverð áskorun út frá hönnunarlegu sjónarmiði. Þetta verður sérstaklega áberandi þegar verið er að endurhanna lógó sem fyrirtæki hefur notað um hríð - stundum tekst slík endurhönnun vel, stundum með eindæmum illa.

Ég rakst á úttektina The Best and Worst Logo Remakes of the Century (via SvN) þar sem höfundurinn ber saman lógó fyrir og eftir breytingar:

When it comes to re-branding a corporate identity, you would imagine that the CEO would take great care in making such a decision. In some cases, this is not true. In fact, there are many cases where you begin to question the sobriety of those in charge when they decided to remake their brand.

Á heildina litið er ég yfirleitt sammála honum í þeim dómum sem hann fellir, enda eru sum dæmin þess eðlis að það er erfitt að deila um þau. Sérstaklega þegar hönnuðirnir hafa ekki farið offari, heldur einbeitt sér að því að skerpa á núverandi lógói. Til dæmis í breytingum á lógóum KFC, NFL og Quantas (í ofangreindri samantekt).

Fyrir tilviljun lenti ég í spjalli um nýja ímynd Iceland Express sama dag og ég las þessa grein, sömuleiðis rakst ég fyrir tilviljun á nýtt lógó 11-11 verslananna. Önnur breytingin er vel heppnuð, hin óttalega döpur.

Nýtt útlit Iceland Express

Lógó Iceland Express fyrir og eftir breytingar

Mest áberandi er auðvitað litabreytingin úr bláu og grænu í appelsínugult og svart. Ég hef svo sem ekki sterka skoðun á þessum litum, þannig að ég ætla ekki að dæma um þá sérstaklega.

Mér finnst það skila sér vel í þessum breytingum að IE virðist vera að færa sig frá þeirri ímynd að vera fyrst og fremst ódýrir yfir í að leggja áherslu á þjónustu og gæði.

Það að setja dálitla þrívídd í pílurnar inni í hringnum gerir merkið miklu meira "pró" og leturbreytingin er líka vel heppnuð, sterkari og með meiri karakter.

Ég skalaði þessar myndir til þannig að þær væru jafn breiðar. Við það sést að hringurinn hefur verið minnkaður hlutfallslega, sem mér finnst koma ágætlega út.

Ég er ekki viss hvort þeir eru alveg hættir að nota flugvél með lógóinu eins og þeir notuðu áður, eða hvort ég hef bara ekki enn rekist á slíka útgáfu af nýja lógóinu.

Eldra lógó Iceland Express með flugvél

En þetta finnst mér sem sagt vel heppnuð þróun á lógói (sem var þó ágætlega heppnað fyrir).

(Ætli það sé tilviljun að mér finnst ég greina vissan svip með þrívíddinni í pílunum og uppfærðu lógói Delta?):

Lógó Delta Airlines eftir breytingar

Nýtt útlit 11-11

Fyrir einhverja tilviljun rakst ég á nýtt lógó 11-11 verslananna sem þeir virðast vera nýbúnir að taka upp (a.m.k. er móðurskipið ekki búið að uppfæra lógóið á vefnum hjá sér).

Gamla lógóið með bláu og gulu helmingunum mátti svo sannarlega við því að fá yfirhalningu. Aðallega þurfti að gera það skarpara, enda höfðu menn reynt að troða of miklu inn í það (það er t.d. einhver dropa-effekt í bláa hlutanum). Nýja lógóið er hins vegar hrein hörmung:

Lógó 11-11 fyrir og eftir breytingar

Ég átti í miklu brasi með að finna sómasamlega mynd af eldra lógóinu, en það ætti þó að vera nægilega kunnuglegt til að menn sjái muninn (ef einhver lesandi lumar á betri útgáfu má endilega hnippa í mig).

Ég vona svo sannarlega að 11-11 hafi fengið þetta nýja lógó ókeypis í Cheerios pakka en hafi ekki þurft að borga fyrir það. Hér hefur einhver sleppt sér algerlega í að ætla að búa til eitthvað "móðins" og afraksturinn er sviplaust moð sem aldrei hefði átt að vera samþykkt.

Til dæmis er erfitt að lesa út 11-11 úr þessu, mér finnst þetta bara vera fjögur lóðrétt strik.

Klárlega falleinkunn í mínum bókum.


< Fyrri færsla:
Ekki hættur enn...
Næsta færsla: >
Gömlu góðu natríumsprengingarnar
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry