Laugardagur: Danskur imbi hellist yfir

Eftir að hafa sofið út (eins og lög gera ráð fyrir) fór ég í enn eina innkaupaferðina um nágrenni mitt og kom úr henni með karlstykki fyrir loftnetssnúru, töng, tvo lengdarmetra af bómullarefni, poka af öryggisnælum og saumaskæri.

Með græjum þessum tengi ég loftnet við sjónvarpið mitt og bjó til traustari fyrirbreiðslu á fataskápinn.

Frekari dugnaður hér í borg drottningar er eflaust fyrir bí núna. Ekki nóg með að ég sé lagstur í tölvuleikjaspilun (þ.e. utan skóla) heldur er ég núna kominn með sjónvarp á herbergið með um 10 rásum, misáhugaverðum að vísu, og þegar ég verð búinn að fá mér Blockbuster kort eru framtíðardraumar mínir eflaust endanlega fyrir bí.

Fataskápurinn lítur mun verklegar út núna. Þar sem ég er ekki með saumavél lét ég nægja að næla fyrirbreiðslunni á slána með öryggisnælum og til bráðabirgða faldaði ég hana að neðan með heftara (að piparsveinasið). Í kössunum að heiman eru reyndar nálar og tvinni í nokkurn vegin réttum lit - þannig að ef mér leiðist einhvern tíman ógurlega er aldrei að vita nema ég faldi þetta almennilega.

Að öðru leyti fór dagurinn einkum í sjónvarpsgláp og heimsókn í krónuþvottahúsið.

Þegar kom að kvöldmat snæddi ég hann á kaffihúsi í nágrenninu (svipaður klassi og Kaffibrennslan eða Vegamót) og borgaði íslenskt verð fyrir. Rölti svo aðeins um og skoðaði mannlífið áður en ég fór í rásaflipp og horfði á hluta úr fjölmörgum misgóðum myndum.


< Fyrri færsla:
Föstudagur: Búslóðarheimt
Næsta færsla: >
Sunnudagur í skóla
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry