Hárið

Til gamans hef ég notað tækifærið við flutninginn út til að prófa að safna hári ("þar sem enginn þekkir mann..."). Ég ætla ekki að reyna að ljúga því að neinum að ég sé kominn með sítt hár, en þar sem ég er að upplagi með þétta hársrót er ég kominn með helvíti mikið hár. Mun meira en ég hef verið með áður, með ófyrirséðum vandræðum við að halda því í skefjum.

Ef ég ætti að draga fram hárgreiðslufyrirmynd úr t.d. bíómyndum væri það einna helst Cruise (sem samúræi, ekki leigumorðingi).

Ég er reyndar ekki með nærri jafn sítt hár og á ofantilvísaðri mynd, en þetta eru nokkurn vegin línurnar sem ég berst við að ná. Hárið á mér vill hins vegar meira slúta fram á við og afleiðingin verður oft að sama hvað ég klepra hárið með geli leggst toppurinn fram í eins konar hrútshornum framan á enninu á mér.

Hvort þessi topplögun stýrist meira af eðlisfræði hárs eða stjörnumerkjafræðum þori ég ekki að segja.

Ég hef prófað ýmsar hárstýrivörur úr nærliggjandi stórmörkuðum upp á síðkastið (og keypti mér meira að segja hárbursta í upphafi árs). Þar á meðal "trefja-putty", froðu (með einstaklega kellingalegri lykt) og nú síðast "Hard glue extreme" sem lyktar eins og eplamauksverksmiðja eftir sprengjuáras (lykt sem allir þekkja).

Hárgreiðslutækni að mínu skapi væri eitthvað sem tæki mig innan við 30 sekúndur og liti ekki út eins og hárið á Derrick

Töfralausnin hefur ekki fundist enn, en þó er greinilegt að hárið leggst frekar fram ef það er rakt þegar ég hef barninginn. Vissulega væri möguleiki að kaupa sér hárþurrku, en það væri aðeins of metrósexsjúal fyrir nörd með snefil af sjálfsvirðingu (sem slíkur). Að ónefndri þeirri staðreynd að hárþurrka sem þurrkaði á mér hárið á innan við hálfri mínútu myndi eflaust teljast í flokki gereyðingarvopna.

Ekki það að skrifa heila blogg dagbókarfærslu um hárið á sér sé einkenni á nörd með sjálfsvirðingu...

Er einhver punktur með þessu? Já, því í spjalli við vinkonu mína um daginn kannaðist hún við vandamálið með þessa toppsídd og hafði sjálf notað spennur - sem augljóslega er ekki raunhæf lausn (fyrir áðurnefndan sjálfsvirðingarnörd) - þar til toppurinn náði viðráðanlegri lengd. Tilhugsunin rúllaði hins vegar af stað hugmynd og í dag fór ég út í búð og keypti 10 spennur í mismunandi bleikum tónum og sumar með hálfgegnsæum glimmerhjörtum auk 6 lítilla hárklemma sem líta út eins og litlir bleikir bangsar.

Hér myndi ég í upplestri taka góða pásu, dreypa á vatni eða ámóta og gefa áheyrendum færi á að ímynda sér mig með 16 bleikar spennur og klemmur í hárinu...

Í kvöld er sem sé fyrsta fest annarinnar, fastelavnsfest (sem er danska útgáfan af öskudegi) (eða réttara sagt er öskudagur íslenska útgáfan af fastelavn).

Það fer tvennum sögum af því hversu margir verða í grímubúningum, en það verður a.m.k. slatti af mínum kunningjum. Ég á skiljanlega frekar óhægt um vik að græja flókinn búning (t.d. eru allar ljósu hárkollurnar mínar heima á klaka) og leikfangaverslanirnar í nágrenni við mig einbeita sér meira að grímubúningum og fylgihlutum fyrir börn heldur en fullorðna.

Einn möguleiki hefði verið að stæla Sigmar bróður og kaupa byssubelti í Fætter BR, en það hefði verið heldur klisjukennt.

Þess í stað ætla ég að stóla á frekar mínimalíska útlitsbreytingu - sem ég held þó að muni vekja nokkra athygli og mæta í dæmigerðum gleðskaparklæðum en með hárskreytingar sem Vilborg frænka hefði orðið stolt af.

Ég treysti mér reyndar ekki til að ná fram æskilegum áhrifum upp á eigin spýtur, en ætli ég mæti ekki á svæðið með lágmarksskammt í hárinu og fái svo sérfræðing (lesist "stelpu") til að koma afgangnum hæfilega (ó)smekklega fyrir í haddi mínum.

Lesendum er ekki ráðlagt að halda niðri í sér andanum þar til mynd af ósköpunum birtist hér - það gæti haft andnauð í för með sér.


< Fyrri færsla:
Það hlaut að koma að því
Næsta færsla: >
Laukurinn um Google ársins
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry