Ég skilekki skilekki

Það er svo margt í heiminum sem ég ekki skil. Eitt af því er umræðan sem nú virðist tröllríða öllu heima á klakanum um hjónabönd samkynhneigðra.

Ég leit yfir Moggann í dag og þar virðist önnur hver grein snúast um þetta mál. Nú skal ég manna fyrstur viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér lagafrumvarpið sem um er rætt (að því gefnu að frumvarpið sé tilbúið). En ég er ekki að kveikja á því hvers vegna löggjöf sem leyfir t.d. ásatrúarfélaginu að ákveða að gefa saman samkynhneigða einstaklinga í kolheiðið hjónaband sé endilega "...fráhvarf frá skýru og kláru boði Heilagrar ritningar og í andstöðu við siðfræði kristinnar kirkju í heild sinni." (Úr yfirlýsingu "samvinnuhóps margra kristinna trúarsamfélaga" í Mogganum í dag.)

OK, ef að kirkjan er ósátt við að gifta homma og lesbíur þá lætur hún það bara ógert, ekki satt? Það hlýtur bara að vera hennar innanhúsmál hvaða leið hún velur að fara í þeim efnum.

Og eins og Varríus bendir á er svolítið hallærislegt að taka biblíuna bókstaflega þegar hún ræðir um hjónaband karls og konu, en setja lesgleraugun aftur á hnakka þegar kemur að línunni:

Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.

(Maður getur ekki talað um að setja lesgleraugu fyrir blinda augað - er það nokkuð?)

Og svo ég hætti mér út á hálan ís, er nokkuð skrítið þótt biblían í sínum knappa stíl nefni ekki aðrar útgáfur hjónabanda en karls og konu?

Smá þankaæfing: Hvernig hefði ritstjórnarfulltrúi frjálslynds guðs fært til bókar útskýringar á gildi og eðli hjónabandsins? Skellt inn neðanmálsgrein allsstaðar um að það sama gildi auðvitað um þau 5% sem kjósa frekar að játast einstaklingi af sama kyni?

Getur verið að slíkar neðanmálsgreinar hafi hreinlega gleymst í einhverri umskriftinni á biblíunni?

Ég bara spyr.


< Fyrri færsla:
Á sunnubjörtum degi
Næsta færsla: >
Hnífakastarinn og tattúflóðið ógurlega
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry