Að skrifa Rokk
01. maí 2010 | 1 aths.
Við erum fjögur sem skrifum Rokk (þótt varla megi líta framhjá dramadurgs-hlutverki Togga leikstjóra við að stytta verkið og þétta á æfingatímanum) og ekkert okkar hefur áður tekið þátt í svona fjölskrifum (sem Hugleikur hefur þó lengi verið þekktur fyrir).
Hugmyndin að leikriti um stelpu- og strákahljómsveitir sem deila (um) æfingahúsnæði skilst mér að hafi lengi veltst um í hugskoti Sigga (og eigi rætur sínar þar að rekja til Togga).
Þegar stjórn stóð frammi fyrir því síðasta sumar að velja stóra verkefni leikársins skaut þessi hugmynd upp kollinum í samkeppni við nokkur (svo gott sem) tilbúin verk. Eftir miklar vangaveltur var ákveðið að kýla á þessa hugmynd - ekki síst í þeirri trú að þarna gæti orðið til skemmtileg tónlist (og jafnvel að um yrði að ræða "hittara" sem fátæku leikfélagi veitir ekki af).
Forsenda af Sigga hálfu var að hann fengi einhverja með sér til að þetta gæti klárast í tæka tíð og svo fór að ég, Ásta og Júlía bættumst í hópinn.
"Hann var með svo skýra sýn"
Siggi hafði skrifað upphafssenu og mótað þar fyrstu karaktereinkenni strákanna, en fyrir utan að hafa ákveðnar hugmyndir um framvinduna og stöðu persónanna í lokin var þetta alveg óskrifað blað.
Skrifferlið var svolítið óvenjulegt og við hefðum aldrei getað unnið verkið með þessu móti nema á yfirstandandi tölvuöld.
Það var ekki hlaupið að því að finna tíma þar sem við gætum öll hist og skrifað saman, þannig að ferlið varð þannig (sérstaklega framan af) að við hittumst stöku sinnum til að lesa það sem komið var og spjalla um framvinduna - en annars unnu flestir hver í sínu horni. Þannig urðu til bútar og bútar á stangli sem við reyndum svo að brasa saman í sæmilega vitræna heild.
Tæknin að baki rokkinu
Við skrifuðum leikritið í ókeypis handritaforritinu Celtx sem heldur t.d. utan um persónur og framsetningu textans. Hins vegar vorum við ekki tilbúin að kaupa okkur "multi-user" útgáfu (og vorum ekki viss hvort slíkt myndi endilega henta okkur) þannig að við bjuggum til okkar eigið verkferli.
Celtx byggir á því að halda utan um allt sem viðkemur einu "project" í einni skrá, en þar sem við vissum að við myndum vera að skrifa þvers og kruss gekk sú nálgun ekki upp hjá okkur. Þess í stað héldum við hverri senu sem stöku projecti og púsluðum þeim saman í heild eftir þörfum.
Mikilvægasti tækniþátturinn var þó undratólið Dropbox sem ég fæ seint fullhrósað (ef þið skráið ykkur fyrir ókeypis útgáfunni með því að smella á þennan tengil fæ ég prik í kladdann).
Með Dropbox gátum við búið okkur til sameiginlega möppu sem með aðstoð netsins er sjálfkrafa samstillt. Þannig er ný skrá sem ég stofna í Rokk-möppuna á minni tölvu sjálfkrafa send á Dropbox server úti í heimi og berst síðan þaðan í Rokk-möppur Ástu, Júlíu og Sigga.
Þannig gátum við skrifað og breytt að vild og allar breytingar skiluðu sér sjálfkrafa til hinna. (Ef einhver eyddi einhverju óvart var svo hægt að fara á vefinn og endurheimta þar eldri útgáfu). Með því að nota sameiginlegt "skilaboðaskjóða"-skjal spöruðum við okkur mikið af tölvupósttilkynningum og héldum sögu samskiptanna á einum stað.
Til þess að forðast árekstra og yfirskriftir bjuggum við okkur til einfalt nafnakerfi:
Fyrsta sena var t.d. í skrá sem hét rokk.01.001s (þar sem s vísaði til Sigga). Ef ég breytti henni vistaði ég nýju útgáfuna sem rokk.01.002t og þannig var tryggt að jafnvel þótt Ásta væri að vinna að breytingum á sama tíma myndi hennar nýja útgáfa heita rokk.01.002a og við gætum þá sameinað þessar útgáfur í höndunum án þess að eiga á hættu að tapa neinu.
Senur sem við ekki vissum hvar yrðu í röðinni fengu bókstafanöfn til bráðabirgða, sbr. rokk.aa.001j, sem svo breyttust í tölu þegar heildarmyndin skýrðist.
Þegar leið nær skilum vorum við duglegri að hittast og sátum þá á Eyjarslóðinni hvert með sína tölvuna og skrifuðum. Lásum svo í sameiningu það sem til varð og fínpússuðum.
Ókostir
Þetta ferli gekk náttúrulega ekki alveg snurðulaust fyrir sig. Reyndar vorum við höfundarnir yfirleitt nokkuð sammála um hvert skyldi stefna og hvað væri að virka og hvað ekki (og ef við vorum ósammála gekk yfirleitt vel að komast að málamiðlun).
Þar sem verkið varð til sem bútasaumur var ekki laust við að persónurnar væru svolítið ómótaðar framan af. Við ætluðum að skipta þeim á milli okkar þegar liði á ferlið þannig að hver höfundur "ætti" 2-3 karaktera og samræmdi málfar þeirra og karaktereinkenni. Það vannst eiginlega aldrei tími til þess, en sú vinna færðist að einhverju leyti yfir á leikhópinn og leikstjórann sem færðu setningar á milli karaktera eftir þörfum í æfingaferlinu.
Tæknilega var líka erfitt að hafa yfirsýn yfir nákvæmlega hvernig leikritið "liti út" þar sem til þess þurfti að lesa hverja senu fyrir sig. Það hefði verið kostur að geta átt "meta-skjal" þar sem allar senurnar sameinuðust sjálfkrafa í eina lesútgáfu. Við gerðum það vissulega nokkrum sinnum að klippa senurnar saman í eina heildarútgáfu, en til þess að ekki færi allt í steik höfðum við þá vinnureglu að allar breytingar yrði að gera í stöku senu-skjölunum og síðan afrita þær þaðan inn í heildina.
Það var loks áskorun að skrifa leikrit sem snýst svona mikið um tónlist án þess að vita hvernig lögin yrðu (og nákvæmlega á hvaða hljóðfæri karakterarnir myndu spila). En Eddi tónskáld og Toggi leikstjóri stóðu sig eins og hetjur í því að púsla tónlistinni inn í verkið og það gekk í raun vonum framar.
Við vissum það þegar við skiluðum af okkur að leikritið í þáverandi mynd væri allt of langt (sérstaklega þar sem þá vantaði alla tónlist inn). Það kom því í hlut Togga að skera niður og þétta verkið. Eins og verða vill voru ýmsar góðar senur og margvíslegir litlir gullmolar sem féllu í valinn við þann niðurskurð, en það sem eftir stendur gengur merkilega vel upp sem slíkt (þótt gaman hefði verið að geta haldið inni senum sem byggðu betur undir ákveðna karaktera).
Hvað á króginn að heita?
Verkefnið fékk strax vinnuheitið Rokk, en það var stefna höfundahópsins að reyna að finna eitthvað meira lýsandi/spennandi/forvitnilegt nafn á verkið. Það tókst ekki og loks var höggvið á þann hnút með því að halda einfaldlega nafninu Rokk.
Nöfn á hljómsveitirnar var svo annar höfuðverkur. Í upphaflega handritinu ræddu hljómsveitirnar töluvert meira um nöfn heldur en í endanlegu leikgerðinni, en líkt og persónurnar tókst okkur höfundum ekki að komast að niðurstöðu um það hvað þær ættu að heita. Það var í raun ekki fyrr en nokkrum dögum fyrir frumsýningu sem hugmyndin að "hinu endanlega nafni" kviknaði og var snarlega samþykkt.
Lærdómur
Ef maður reynir að vera fræðilegur og draga einhvern lærdóm af þessu öllu saman verður að segjast að þetta gekk merkilega vel miðað við að við vissum ekkert hvað við værum að gera!
Það að nota Dropbox einfaldaði fyrirsjáanlegar skjalaflækjur gríðarlega, en á móti var erfitt að halda skýrri yfirsýn yfir t.d. heildarlengd.
Við hefðum haft gott af því að setja meira púður í að móta persónurnar betur í upphafi ferlisins. En á móti má segja að það var margt skemmtilegt sem kviknaði í skrifunum sem hefði kannski ekki endilega gerst ef við hefðum verið búin að móta karakterana um of.
Summa summarium
Í gagnrýni sinni segir Lárus Vilhjálmsson um þátt okkar höfundanna:
[Höfundarnir] hafa flest spreytt sig á eigin vegum með góðum árangri en þarna fatast þeim nokkuð flugið. Þrátt fyrir ágæta spretti, áhugaverðar persónur og flotta brandara vantar verkið nokkuð dramatíska framvindu og er með eindæmum fyrirsjáanlegt.
Nú get ég ekki talað fyrir hönd alls höfundahópsins, en ég fyrir mína parta er alveg sáttur við "ágæta spretti, áhugaverðar persónur og flotta brandara" - enda stóð minn metnaður fyrir hönd þessa verks ekki til mikils meira en svo.
Það kitlar svo óneitanlega egóið að fylgjast með troðfullum sölum skellihlæja að vitleysunni sem upp úr okkur vall (sérstaklega þegar hlegið er að þeim bröndurum sem ég get kallað "mína").
Skemmtilegt ferli og frábær sýning sem leikstjóri og leikhópur hafa töfrað fram úr þessari undirstöðu sem handritið okkar er.
Athugasemdir (1)
1.
Sigga Lára reit 30. maí 2010:
Stysta nafn?
Ja, Ó, þú... er auðvitað fleiri atkvæði og endar á þrípunkti... en færri bókstafir. ;)
Svo má reyna að toppa lengsta nafnið á Hugleiksku leikverki næst. Ef mér skjöplast ekki er það: „Um hið átakanlega og dularfulla hvarf brúðhjónanna Sigríðar og Indriða daginn eftir brúðkaupið og leitina að þeim."
(Eða eitthvað svoleiðis.)
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry