Húsabakkaminningar - annar þáttur

Hér er önnur atlaga að skráningu þess markverðasta sem gerðist meðan á dvöl minni í leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga stóð. Þegar ég les yfir fyrstu færsluna blöskrar mér hvað hún er óskipulega framsett, en ég var víst búinn að vara lesendur við því að svo gæti farið. Þessi annar kapítuli verður eflaust litlu skárri, en nú ætla ég að reyna að fara hratt yfir sögu helstu menningartengdra kvöldviðburða, ég tek enga ábyrgð á að þeir verði taldir upp í réttri tímaröð - dagarnir renna örlítið saman í minningunni.

  1. Prologus (sögumaður ræskir sig)
  2. Kvöld- og næturdagskrá, helstu liðir
  3. Blóð, sviti og önnur leikræn tilþrif
  4. Leiklistarhátíðin 1, 2 og leika

Annar kapítuli: Kvöld- og næturdagskrá, helstu liðir

Líkt og frá var greint í fyrsta kafla lauk starfsdegi jafnan um klukkan 18 og tók þá við kvöldverður. Flest kvöldin var einhver dagskrá í gangi og milli dagskrárliða var gripið í spil, sígarettur eða handrit eftir því sem færi gafst og langanir stóðu til.

Fyrsti stóratburðurinn var busavígsla og í beinu framhaldi af henni Bandaleikarnir 2004.

Busavígslan fólst í því að okkur krækiberjunum var troðið inn í myrkvaða kompu (töluvert of litla til að rúma okkur öll) og við síðan sótt eitt af öðru af organdi síðhærðum órökuðum kjólklæddum trúðsnema með snert af spretthlaupsblæti. (Mér finnst blæti flott orð og hef ákveðið að misnota það við sem flest tækifæri).

Eitt af öðru vorum við dregin auðsveip fram hjá (svipulausum) svipugöngum eldri nema sem geifluðu sig og sveifluðu ýmsum nytjatólum mikilúðlegir í fasi, íklæddir lítt samstæðum leikbúningum og öðrum leikmunum. Upp í oss busagreyin var svo stungið pólóhring og gert að dreypa á ógeðisdrykk úr ausu ógurlegri áður en ráðist var á okkur með munnþurrku og drykkjarleifar af oss skrúbbaðar. (Ég held ég fari rétt með að sá ógeðisdrykkur hafi verið karamellubúðingur frekar en vanillubúðingur). Upp ljóst þá einum rómi margradda kór því sem við fyrstu heyrn hljómaði sem "Velkominn hingað!" en eftir að hafa fylgst með móttökum þeirra sem á eftir mér komu varð ljóst að kórinn kvað "Velkominn Ingvar!". Var sú kveðja alveg óháð því hvort viðkomandi nýnemi hét Ingvar eða ekki.

Að aflokinni víxlu hófust Bandaleikar 2004 með pompi og prakt.

Í stuttu máli má segja að Bandaleikarnir séu íþróttamót með áherslu á leiklistaríþróttir þar sem fjögur lið keppa í fjölmörgum greinum - misgáfulegum og með misgáfulegum hætti undir vökulum augum valinkunnra dómara. Allt undir styrkri stjórn reglumeistara Júlla. Dregið er í 4 lið og sömuleiðis dreginn út fyrirliði í hverju liði. Í ár vildi þannig til að allir fyrirliðarnir voru nýnemar nema einn og sá stóð að lokum uppi í tapliðinu. Fyrirliði í mínu liði var meistari Sigurður, förunautur og herbergisfélagi vor.

Mikilvægasta atriði Bandaleikanna og það sem greinir þá frá EM, HM, M&M, ÓL og raunar flestum öðrum íþróttamótum, er að liðin velja sér þema sem þau reyna að halda í heiðri í öllum keppnisgreinum. Reynsluboltar sögðu okkur nýliðunum að undanfarin ár hafi reynst vænlegt til árangurs að velja þemu sem fæli í sér einhvers konar atgervis- og/eða greindarbrest. Meðal sigurþema hafa verið gúbbífiskar, lúserar og annar aumingjaskapur.

Eftir knappar og fjörugar umræður ákvað mitt lið að kenna sig við jaðrakana. (Fyrir þá sem ekki þekkja jaðrakana eru þeir rauðleitir fuglar sem minna helst á spóa). Hef ég haft nokkur kynni af jaðrakönum í minni heimasveit en aldrei séð annað eins ger af þeim og þarna í Svarfaðardalnum. Segja má því að þeir hafi legið vel við höggi sem viðfang.

Greining á skapgerð jaðrakana leiddi í ljós að þeir væru ekkert allt of gáfaðir, þeir misstu auðveldlega einbeitingu og væru sífellt með hávaða. Rifjuð var upp gömul sögusögn um að jaðrakanar skræktu í sífellu "Vaddu út í!" og færi einhver að ráðum þeirra spyrðu þeir "Varstu votur?". Afráðið var því að öll orð sem jaðrakanar létu út úr sér skyldu hefjast á v (dómari væri t.d. vómari).

Keppinautar vorir voru:

  • Púkar, sem voru með sérhæfingu innan liðsins; stríðnispúka, streitupúka o.s.frv.
  • Svefnsjúklingar, sem féllu í svefn af minnsta tilefni og áttu bágt með að halda sér vakandi.
  • Mýópistar, næstum blindir af nærsýni og aðeins með ein gleraugu fyrir allan hópinn.

Því miður á ég engar myndir af þessari uppákomu (enda jaðrakanar ekki með myndavélar) (eða ég gleymdi mér) (annað hvort var það - nema hvorttveggja sé) en þetta reyndist hin bestasta skemmtun.

Það væri að æra óstöðugan vaðfugl að telja upp allar greinarnar, en sem dæmi má nefna fjölmiðlafrumvarp sem fólst í því að kasta lagafrumvarpi (í líki símaskrár) sem lengst. Annar keppandi jaðrakana í þessari grein tók titil greinarinnar alvarlega og verpti símaskránni, reyndar öfugu megin við marklínuna - hinn tók skrána í gogginn og "flaug" með hana. Annar svefnsjúklinganna sofnaði í atrennu, o.s.frv., o.s.frv.

Sú keppnisgrein sem að líkindum tryggði (með óbeinum hætti) að jaðrakanar fengu hæstu einkunn fyrir að halda sér í karakter var listaverkakeppnin. Liðin fengu poka af pípuhreinsurum og áttu að búa til listaverk. Jaðrakanar tóku pípuhreinsarana að sjálfsögðu í gogginn og bjuggu til hreiður. Fljótlega dúkkuðu upp í hreiðrinu egg og einn fugl settist á það. Uppi varð mikill fjaðragangur ef keppendur úr öðrum liðum nálguðust hreiðrið og dómnefnd þurfti sérstaka undanþágu til að skoða "v-eggin".

Að vísu unnum við ekki þessa keppnisgrein, en það sem eftir var kvölds skiptust við á um að sitja á hreiðrinu, færa þeim sem á því sat næringu (og/eða áfengi) og verja það fyrir ágangi annarra. Að lokum dúkkaði upp í hreiðrinu tuskuungi sem dómnefnd var sérstaklega afhentur til varðveislu. (Þess má geta að beinlínis var mælst til þess að dómnefnd væri mútað með hugvitssamlegum hætti - ungagjöfin reyndist mút kvöldsins).

Lokagreinin og hápunktur leikanna var flutningur frumsaminna sönglaga. Við jaðrakanar riðum/óðum á vaðið með raddaðan kór (með örlitlu stomp-ívafi) þar sem sungið var "Vadúdí", "vadduvodu" og tveir bassajaðrakanar rumdu við og við "verpa!" með rammstænískum blæ. Atriðið náði svo hámarki með söng tveggja spörfugla sem stigu hugljúfan dans með nýverptar jarðkringlur undir vaxandi styrk kórsins. Öllu þessu stjórnaði leiðtogi vor styrkum vængjum.

Á eftir okkur kom snús-kór svefnsjúklinganna (með eintali úr svefni), pönkað faðir vor púkanna ("þú sem ert í neðra...") og gospelútfærsla mýópistanna (sem í upphafi atriðis öðluðust sýn) á "Augun mín og augun þín..."

Að aflokinni söngkeppni var tilkynnt um úrslit og reyndust jaðrakanar hafa borið sigur úr býtum, vó þar þungt að við fengum flest stig fyrir söngatriðið og fyrir að vera í bestum hópkarakter.

Sigurlaun Bandaleikanna 2004

Jaðrakanar unnu að sjálfsögðu með glæsibrag

Annað kvöld var frumsýnd (a.m.k. var þetta Norðurlandsfrumsýning) kvikmyndin "Konunglegt bros" eftir Gunnar Björn. Bráðfyndin snilldarmynd sem er einna best lýst sem gerviheimildarmynd um gerð heimildarmyndar. Hún fjallar um fjöllistamann hvurs listsköpun felst í því að gera konur ástfangnar af sér, segja þeim síðan upp og taka myndir af viðbrögðum þeirra. Raunar fjallar hún ekki síður um leikstjórann sem er að gera heimildarmynd um listamanninn og þá atburðarrás sem fer af stað við það. Þessi mynd á fullt erindi í bíó og vonandi skilar hún sér þangað fyrr eða síðar.

Eitt kvöldið var farið í óvissuferð í umsjón Leikfélags Dalvíkur, rúntað var í rútu um allra nánustu nærsveitir Dalvíkur (aðallega reyndar innanbæjar) þar sem ungliðahreyfing leikfélagsins tróð upp hingað og þangað með tónlistar- og leikatriði, snætt var grillkjöt (og grillbrauð) auk þess sem stoppað var til að fara í nokkra leiki. Öllu þessu var skolað niður með veigum að vali hvers og eins.

Meðal lókalskemmtiatriða innan hópsins (sem ekki fór mjög hátt) var brandaraeinvígi mitt og Huldar. Barst það út um víðan völl og víða heima, á ýmsum tungumálum og öttu þar meðal annars kappi kímni að fornum íslenskum sið og finnlandssænskar hetjusögur. Þorgeir Tryggvason álpaðist inn í skotlínuna og þegar Lotta og landadrykkja hennar blandaðist saman við finnskan drykkjuleik varð honum svo um þann kokteil að hann lagðist í jörðina emjandi af hlátri. Telst hann þar hafa verið lagður á kómísku rothöggi.

Þorgeir í valnum

Huld og Lotta voma yfir hræinu af Togga.

Lyktir einvígisins urðu annars þær að samið var um stórmeistarajafntefli.

Myndavélin kom með í óvissuferðina og er hægt að skoða fjölda mynda í myndasafninu. Þegar kom að brekkusöngnum sem hófst um miðnættið að aflokinni óvissuför og stóð fram eftir nóttu var henni hins vegar allri lokið (frá rafhlöðulegu sjónarhorni) og verður því ekki til myndrænnar frásagnar um það sem þar fór fram í söng og bægslagangi.

Alla morgna var hafist handa í hópunum stundvíslega klukkan níu (þ.e. eftir jóga sem hófst klukkan níu), jafnvel þótt ekki hefðu alltaf allir farið snemma að sofa kvöldið áður.

Undantekning á þessu var þó á þjóðhátíðardaginn, en þá var lagt í skrúðgöngu klukkan níu. Var það stysta skrúðganga sem ég hef tekið þátt í. Ekki svo að skilja að gangan sjálf hafi ekki verið mannmörg og glæsileg, heldur var gönguleiðin fremur stutt.

Höfð var í frammi þjóðleg skemmtan, þjóðhátíðarkór söng ættjarðarlög og fjallkonan flutti hugljúft kvæði um raunir og gleði leikarans.

Þjóðhátíðarkórinn

Hinn þjóðlegi þjóðhátíðarkór hefur upp raust

Um kvöldið var svo þjóðhátíðarkvöldvaka þar sem nemendur og kennarar tróðu upp með ýmsa leik- og tónlistarþætti. Þar rak hver snilldarperformansinn annan, en að öðrum ólöstuðum verð ég sérstaklega að geta indversku trúðaprinsessunnar sem tróð upp ásamt undirleikara. Sérlega aðdáun vakti fimleg beiting hennar á tóli sem hún geymdi í barmi sér en dró reglulega upp og kvað við: "Ástin". Mann var farið að verkja í andlitið af hlátri þegar þau skötuhjú loksins fengust til að yfirgefa sviðið.

Innblásin af þjóðerniskennd vorum við nokkur sem söfnuðumst saman í matsalnum að lokinni vöku og sungum við gítarundirleik fram að miðnætti (en þá skal ró komin á húsið) - enduðum syrpuna á hinu vel viðeigandi lagi "Dvel ég í draumahöll".

Meðan skólinn stóð yfir fór fram fótboltamót í Portúgal. Laumuðust menn stundum til að gægjast á sjónvörp þegar færi gáfust (til að sjá hvort menn væru að skapa sér færi) og tóku jafnvel upp stórleiki til að horfa á síðar um kvöldið ef árekstrar urðu við aðra dagskrárliði. Uppveðraðir af öllu þessu boltaglápi vildu trúðarnir ólmir og uppvægir skora á aðra nemendur að mæta sér í kappleik á "kraspynuvedlinum".

Verður betur sagt frá því ati og meðfylgjandi blóðsúthellingum í næsta kapítula.

  1. Prologus (sögumaður ræskir sig)
  2. Kvöld- og næturdagskrá, helstu liðir
  3. Blóð, sviti og önnur leikræn tilþrif
  4. Leiklistarhátíðin 1, 2 og leika

< Fyrri færsla:
MetalliBíó
Næsta færsla: >
Placebo í gær
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry