Húsabakkaminningar - lokaþáttur

Í ljósi hinnar fornkveðnu speki að betra er allt of seint en aldrei hyggst ég nú skrásetja lokahnykk endurminninga frá Húsabakkadögum, þ.e. frá skóladvöl minni í leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga nú snemmsumars. Þyki einhverjum lesenda minna þetta seint á ferð vil ég aðeins benda á þá staðreynd að yfirleitt eru æviminningar ekki skrifaðar fyrr en menn eru fjörgamlir - og jafnvel steindauðir (þótt þá sé strangt til tekið um að ræða ævisögur frekar en æviminningar).

  1. Prologus (sögumaður ræskir sig)
  2. Kvöld- og næturdagskrá, helstu liðir
  3. Blóð, sviti og önnur leikræn tilþrif
  4. Leiklistarhátíðin 1, 2 og leika

Fjórði kapítuli: Leiklistarhátíðin 1, 2 og leika

Í síðasta pistli höfundar var fjallað um kvöldafþreyingu leikskólanema þessa viku í Svarfaðardalnum, nú verður þráður tekinn upp þar sem frá var horfið og sagt frá viðburðarríkum síðustu tveimur sólarhringunum.

Á föstudeginum, sem var síðasti fulli starfsdagurinn í hópunum, var eftir kvöldmat haldið opið hús hjá hópunum þar sem öðrum nemum gafst færi á að fá nasaþef af því sem verið væri að vinna með á hverjum stað. Leikar hófust hjá okkur á grunnnámskeiðinu þar sem við höfðum nýlega lokið við létta upphitun og vorum að búa til hljóðsúlu þegar "rýmið" var opnað gestum. Síðan sýndum við sýnishorn af því sem við höfum fengist við og Ásta útskýrði pælingarnar þar að baki.

Þaðan lá leiðin yfir í vinnurými leikstjóranna þar sem þeir og höfundahópurinn kynntu sína vinnu. Mér er lífsins ómögulegt að rifja upp hvor hópurinn var á undan, enda er það kannski aukaatriði. Leikstjórarnir sýndu senu úr Vanja frænda sem þau höfðu verið að vinna með um daginn og höfundarnir leiklásu búta úr því sem þeir hafa verið að skrifa.

Síðastir á dagskrá voru trúðarnir sem fyrst voru með "opið svið" þannig að það var mjög frjálslegt hverjir komu inn á svið og hvað þeir gerðu (aðrir biðu bak sviðstjalda, tilbúnir að grípa tækifæri á lofti). Eftir að hafa gert áhorfendur meira eða minna að tímabundnum andlitslegum öryrkjum (þ.e. lamað andlits- og brosvöðva) með frjálsum fíblagangi sýndu þau okkur nokkrar "dramatískar" senur þar sem tragískari hlið trúðanna fékk að njóta sín.

Þá kvöddu kennarar sér hljóðs og andaktug spennuþrungin þögn færðist yfir samkomuna (tekið skal fram að þagnir í þessum mannsöfnuði eru mjög fáséðar/heyrðar) (meira að segja í svefni er frekar hrotið í kór en að hætta á að þögn brjótist út).

Erindið var að tilkynna niðurstöður hlutverkahappdrættisins og leggja með því línur fyrir lokasprett skólans, hina árlegu leiklistarhátíð lokadagsins. Þannig háttaði til að í skólanum þetta árið voru (ef mig misminnir ekki) 9 nemendur í leikstjórn, 8 í leikritaskrifum og samtals um 34 á grunnnámskeiði og á trúðanámskeiði. Höfundarnir fengu það verkefni lokadagana að skrifa nokkurra mínútna örleikrit og þurftu fyrir hvert leikrit að gefa upp hversu mörg kven- og karlhlutverk yrðu í því.

Með því að leika tvö leikritanna tvisvar og að mynstra leiðbeinandann úr leikritunarsmiðjunni (Togga) til að leikstýra einu stykkjanna gekk leikarafjöldinn upp í 10 uppsetningar. Fyrir hverja uppfærslu var svo dreginn hæfilegur fjöldi kven- og karlleikara úr potti. Hvort leikstjórarnir voru líka dregnir eða valdir með öðrum hætti þori ég ekki að segja.

Þarna á föstudagskvöldinu var sem sé lesið upp hvaða leikarar ættu að vera hjá hverjum leikstjóra og hvar þeirra uppfærsla yrði staðsett. Reglurnar voru þær að leikararnir máttu lesa í gegnum leikritið með sínum leikstjóra og velta vöngum yfir því, en bannað var að byrja að "vinna" með það og sömuleiðis máttu leikstjórar heldur ekki krefjast þess að leikarar lærðu textann sinn. Öll "alvöru" vinna mátti fyrst hefjast eftir matarhlé á laugardeginum og hafist yrði handa við að sýna á slaginu klukkan 3.

Ég var í síðasta hópnum sem lesinn var upp, með Hrund sem leikstjóra og Lilju Nótt og Júlla sem samleikara. Leikþátturinn hét "Bið í garði" og þótt nafns höfundar væri ekki getið kannaðist ég strax við það sem hugsmíð Árna Hjartar sem hafði verið lesin í annarri útgáfu í höfundahópi Hugleiks fyrr um vorið. Það var svo staðfest þegar Árni kíkti til okkar seinna um kvöldið.

Því fer fjarri að í Húsabakkaskóla séu 10 heppilegar staðsetningar fyrir leikuppfærslur, en leikið var í öllum mögulegum skúmaskotum - jafnt heppilegum sem óheppilegum. Við vorum svo heppin að fá stofuna þar sem við á grunnnámskeiðinu héldum til og höfðum því prýðilegt rými til að leika okkur með.

Við lásum tvisvar í gegnum textann og spjölluðum aðeins saman um það hvernig við sæjum persónurnar. Hrund skipaði í hlutverk og fékk ég hlutverk Fidda. Okkur var uppálagt að pæla í því hvernig týpur okkar persónur væru og skoða hvað við gætum lagt til mála í búningum. Með það hélt hver til síns heima og ég tók þann kostinn að hlusta á skrokkinn sem sagði mér að nú væri ekki kvöld til að standa í einhverju vökustússi (með öðrum orðum var ég drulluþreyttur).

Á föstudag var svo lokadagur í hópunum, við Indra stigum aftur á svið sem Rómeó og Júlía með svipaða grunnhugmynd að baki og áður, þ.e. að stækka tilfinningar og tilþrif - en núna með hliðsjón af karakterum þeirra skötuhjúa og því hvað þau vildu. Ekki man ég í smáatriðum hvaða leiðir þessi spuni okkar fór en minnir þó að hann hafi byrjað á skelfingu lostnum Rómeó að laumast í garðinum og hafi endað í langri og hjartnæmri kveðjusenu sem minnti eflaust helst á andlátssenu.

Hádegismatur var svo gleyptur í flýti og mætt til skyldustarfa um klukkan hálfeitt og því rétt rúmlega tveir klukkutímar til stefnu áður en byrjað yrði að sýna. Leiktextinn okkar mælti fyrir um töluverð hlaup, eltingaleiki og áflog - auk þess sem Fiddi átti að vera stærstan hluta verksins uppi í tré. Við fórum þá leið að nota allt rýmið með hlaupum og ærslum, tréð varð að gluggakistu sem ég brölti upp í með því að klifra upp á ofninn fyrir neðan gluggann (og þar gat ég komið handritinu mínu fyrir svo lítið bæri á).

Fiddi varð fljótlega að einhvers konar mjög ógeðfelldri róna/dóna týpu sem stjáklaði um og hvæsti á aðrar persónur. Ég fékk frakka til að leika í og þar sem hlaupin og bægslagangurinn voru töluverð var ég stærstan hluta æfingarinnar ber að ofan undir frakkanum, berfættur í sandölum og stuttbuxum. Hrund vildi að ég léki með djúpri röddu og hvort það var raddæfingum undanfarinna daga að þakka eða uppsöfnuðu ræmi að kenna tókst mér að framkalla rödd sem hvorki hefur heyrst úr mínum barka fyrr né síðar. Afraksturinn varð einhvers konar djöfulleg bassaöskur sem hefðu sómt sér vel hjá púka úr þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Æfingatíminn var eins og áður sagði stuttur, en blessunarlega var textinn minn ekki mjög langur og flestar setningarnar hvæsti ég úr gluggakistunni þar sem handritið lá mér til halds og trausts þannig að ég lenti ekki í vandræðum með hann. Líklega hefði ég getað stólað á minnið, en ákvað að hafa handritið við höndina. Ég átti í svolitlu brasi með hvernig ég ætti að hlaupa fram og til baka í þó ekki stærra rými þannig að þau skötuhjú næðu ekki til mín í eltingarleikjum okkar. Þau vandræði gufuðu þó upp þegar þau bentu mér kurteislega á að svo lengi sem ég passaði mig bara á því að standa ekki grafkyrr myndu þau aldrei ná mér (enda stóð það ekki í handritinu). Það var töluverður léttir að þurfa ekki að kóreógrafa þau hlaup, heldur gat ég leyft mér að spinna það svolítið eftir hendinni.

Þessir rúmlega tveir tímar voru fljótir að gufa upp, en við vorum líka fljót að koma mynd á verkið og lafmóð lukum við síðasta rennslinu og tróðumst með hinum rúmlega 50 gestum leiklistarhátíðarinnar inn í áhaldageymslu íþróttahússins þar sem fyrsta leiksýningin fór fram.

Ég ætla ekki að reyna að segja frá öllum leikþáttunum, enda er það efni í heila bók, en þess í stað að reyna að koma á "blað" því hvernig ég upplifði þessa litlu leiklistarhátíð og frammistöðu almennt.

Fyrst er að nefna að allar uppfærslurnar voru ótrúlega vel gerðar. Auðvitað voru þær ekki allar fullunnar og stór hluti leikaranna var með handrit til taks, en engu að síður var lygilegt hvað tekist hafði að gera á tveimur og hálfum tíma. Þetta var nær því sem maður hefði búist við eftir tveggja og hálfs dags vinnu. Þar munar auðvitað miklu um það að allir voru "sjóðheitir", búnir að vera að leika (sér) í viku og allir vissu hvað tímaramminn var þröngur og gengu því ákveðið til verks.

Verkin sem sett voru upp voru mjög ólík, en það var mjög gaman að sjá hvað verkin tvö sem sett voru upp af tveimur mismunandi hópum (fjórar uppfærslur alls) fengu gerólíkt yfirbragð sem sýndi vel hvað hægt er að leika með sama texta á margvíslegan hátt (og gera margt á stuttum tíma).

Ég stenst þó ekki mátið að nefna nokkur sérlega eftirminnileg atriði:

Rass hátíðarinnar:
Rassinn á Gulla.
Orðskrúð hátíðarinnar:
Björn M. Sigurjónsson ("..vörtur geirna þinna...").
Kraftajötun hátíðarinnar:
Freyja.
Hljóðeffekt hátíðarinnar:
Hópurinn hans Togga. Í dauða/jarðarfararsenunni (sem leikin var úti) byrjuðu kirkjuklukkurnar hinum megin í dalnum að hringja á hárréttu augnabliki.
Gæsahúð hátíðarinnar:
Áðurnefnd kirkjuklukknahringing.
Bassarödd hátíðarinnar:
Ég.

OK, ég stóðst ekki mátið að troða mér þarna inn (enda innundir hjá dómnefndinni).

Okkar uppfærsla tókst vel. Ég brölti inn um glugga í byrjun, upp í annan nokkrum sinnum með tilheyrandi eltingarleikjum þess á milli og lox aftur út um upphaflega gluggann. Engin slys urðu, hvorki á leikurum né áhorfendum, en ég hafði mjög gaman af því í einum sprettinum að hlaupa á fullri ferð í átt að áhorfendum og stoppa ekki fyrr en á allra síðustu stundu. Það var skondið að sjá andlitin sem ég hljóp í átt að breytast frá því að vera einbeitt á að fylgjast með leiknum yfir í hugsunina "hann er að fara að hlaupa á mig!". Hin nýja rödd þótti sæta tíðindum og formaður Hugleiks lýsti því yfir að ef Hugleikur stofnaði einhvern tíman dauðarokkssveit yrði mér boðið hlutverk rymjara.

Við vorum síðust á dagskrá, sem var eins gott því eftir lætin var ég eins og undin tuska og hefði ekki átt auðvelt með að sitja kyrr og fylgjast með fleiri sýningum. Þess í stað var farin yfirferð yfir verkin, spjallað um uppfærslurnar og kennararnir gáfu sitt álit. Þá var leiklistarhátíðinni slitið og blásið til allsherjar þrifa fyrir síðustu kvöldmáltíðina.

Lokakvöldið var hátíðarkvöldverður í íþróttasalnum með skemmtiatriðum og tilheyrandi. Hver hópur kvaddi sinn kennara með tilhlýðilegum prívathúmor hópsins og ýmis söngatriði höfð í frammi. Meðal annars tróð hin stórfenglega hljómsveit Hundur í óskilum upp, með indversku trúðaprinsessuna í borgaralegum klæðum sem sérlegan tæknimann (á sápukúluvélinni). Ég hafði ekki séð þá áður en stefni svo sannarlega á að sjá þá aftur. Takist þeim að mynstra trúðaprinsessuna með sér í upptroðelsi er hætt við að hundurinn verði hættulegur heilsu manna vegna heiftarlegra hláturskasta.

Að loknu borðhaldi var blásið til dansleiks og stóð glaumurinn langt fram á nóttu og sumir fóru ekkert að sofa fyrir morgunverð á sunnudegi.

Á sunnudagsmorgun var svo lokadagur hópanna þar sem spjallað var um atburði vikunnar og hvaða upplifanir við tækjum með okkur frá þessu öllu saman. Einn í mínum hóp orðaði það þannig að ef hann hefði heyrt það sem fram fór viku fyrr hefði hann kallað okkur óheyrilega væmin. Annar hafði áhyggjur af því hvernig hann ætti að útskýra fyrir konunni að hann væri orðinn pínulítið skotinn í 9 konum og 7 körlum...

Um hádegið var svo formleg útskrift og myndatökur. Þá tók við tiltekt og fjöldafaðmlög. Einhverjum taldist svo til að hafi allir viðstaddir faðmað alla hina hafi það verið af stærðargráðunni 1.800 faðmlög (sem ég held að sé ekki fjarri lagi) (þ.e. hvorki stærðfræðin né forsendurnar).

Ferð okkar Sigurðar suður var tíðindalítil. Við héldum uppi koffíni og blóðsykri og skiptum um bílstjóra þegar þreyta seig á. Reyndar voru öll spoilerkit landsins á ferðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur þennan dag, en við létum það ekki slá okkur út af laginu og héldum okkar striki.

Sjálfur er ég svo kaldbrjósta að ég ætla ekki að fullyrða að þessi upplifun hafi breytt lífi mínu um ókomna tíð, en ég lærði fjölmargt og held ég þekki sjálfan mig og mína möguleika betur en áður. Ég myndi svo gjarnan vilja endurtaka leikinn að ári, taka kannski framhaldsnámskeið í leiklist og síðar kannski eitthvað leikritunartengt. Mér sýnist hins vegar að prófin í vor geri það að verkum að það verði a.m.k. ekki sumarið 2005 - en vonandi síðar.

Læt ég hér lox lokið frásögn af vikunni í Svarfaðardalnum, þökk þeim sem lásu.

  1. Prologus (sögumaður ræskir sig)
  2. Kvöld- og næturdagskrá, helstu liðir
  3. Blóð, sviti og önnur leikræn tilþrif
  4. Leiklistarhátíðin 1, 2 og leika

< Fyrri færsla:
Mánuður liðinn
Næsta færsla: >
Danir... reykja minna en ég hafði átt von á
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry